Kominn úr þagnarbindindi

Þá er þessu þriggja vikna þagnarbindindi mínu lokið. Það kom ekki til af því að ekkert væri um að vera í þjóðmálaumræðunni sem væri þess virði að koma með athugasemdir um, heldur vegna þess að annir og álag í vinnu og einkalífi voru með þeim óskaupum að eitthvað varð undan að láta. Eitt af því var bloggið - eða blaðrið eins og mér finnst að megi íslenska þetta óþjála orð sem þó er að vinna sér þegnrétt - já það getur ekki verið mjög ofarlega í forgangsröðinni. En ég þakka ykkur sem hafið litið inn á meðan á þagnarbindindinu stóð og lofa bót og betrum og kannski fleiri pistlum en bara athugasemdum við fréttir á moggavefnum.

Það hefði þó verið gaman að blaðra aðeins um þá sérkennilegu múgæsingu sem greip um sig þegar klámhundunum var vísað í burtu í nafni siðgæðis og menn og konur gerðu sig sek um þvílíkan tvískinnung að ekki hefur lengi sést. Þeir sem framleiða kvikmyndir sem felast í því að sprengja fólk í loft upp fá endurgreiðslu á skatti og hafi menn náð sérstökum afrekum eins og búa til subbulegustu og ógeðslegustu ofbeldismynd síðari ára með einum íslenskum strák í - sem nýtur þess heiðurs að vera limlestur og svo sagaður í búta - já þá er mönnum boðið í móttöku í ráðherrabústaðinn og lofaðir fyrir listrænan subbuskap. En ef menn eru klámhundar og framleiða subbulegar myndir með berrössuðu fólki þá eru þeir að sjálfsögðu óvinir ríkisins.

Skopmyndateiknarinn í Fréttablaðinu átti gott innlegg í þessa umræðu: Íslenska ríkið á sér þrjá óvini á síðari árum: Friðsælt Falon Gong fólk frá Kína sem vildi sunda líkamsrækt í mótmælaskyni, aldurhnigna og þunglynda mótorhjólatöffara frá Danmörku og svo framleiðendur á klámefni! Þegar þetta fólk steðjaði að þjóðarvá og venjulegum borgaralegum réttindum var vikið til hliðar og þjóðin brást til varnar.

En nú held ég í svolítið ferðlag til Ameríku þar sem menn eiga sér alvöru óvini og eru líka duglegir við að takast á við þá. Skyldi Íran vera næst á dagskrá spyrja menn í forundran og já svei mér þá ef sókn er ekki bara besta vörnin að mati þarlendra. Bush er eins og ódæll drengur í afmælisboði sem sakaði sessunaut sinn á að stela frá sér köku og lamdi hann í klessu fyrir bragðið. Þegar svo í ljós koma að sessunauturinn var ekki sekur, þá er betra að benda á næsta dreng að saka hann líka um kökustuldinn.

Svo ég ætla að reyna að setja hér inn ef eitthvað fangar athygli mína í þjóðlífi og umræðu í Bandaríkjunum, eða ætti maður kannski að segja Kaliforníu því það fylki er sjöunda stærsta hagkerfi í heimi og að margra mati um margt frábrugðið restinni af Ameríku.

.... við sjáum til


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott að þú skreiðst úr þagnarbindindinu! :)

Við vonumst til að sjá þig á ferðalaginu, þú getur annað hvort sent okkur tölvupóst (hrefna hjá stanford punktur edu) eða hringt í gemsann: 650-Tveir Átta Þrír  Áttatíuogsjö  Átján.

 Kveðja,

  - Hrefna Kaliforníu-búi.
 

Hrefna (IP-tala skráð) 3.3.2007 kl. 00:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.