Skattstjóri gín yfir gini (staðlinum)

Svolítill pistill um ójöfnuð

Eins og önnur hver manneskja á mínum aldri að því er virðist, þá er ég kominn í framhaldsnám við Háskóla Íslands. Væntanlega doktorsnám, þótt þetta sé ennþá svolítið í deiglunni. Þótt ég sé kominn á miðjan aldur finnst mér ég ekkert vera voðalega gamall í tímum - ekki af því ég sé svo unglegur, heldur vegna þess að ég er ekki eini ellismellurinn. Það sama gildi um suma fyrirlesarana. Sat undir fyrirlestri Indriða H. skattstjóra, í áfanga um stjórntæki hins opinbera fyrir nokkrum dögum. Það sýnir prýðilega hversu vel Háskóli Íslands er tengdur íslensku atvinnu- og þjóðlífi að líta á stundakennara og gestafyrirlesara; þeir bestu og fremstu á hverju sviði ... og enginn í svo fínu embætti að honum finnist það fyrir neðan virðingu sína að halda fyrirlestra yfir nemendum Háskóla Íslands.

Hann var með fyrirlestur um skatta og skattapólitík - því hvaða stjórntæki er jú mikilvægara hinu opinbera en skattarnir? Þau eru fá og því sperrti ég við hlustir. Veitti ekki af því skattstjóranum okkar lá afar lágt rómur og svo talaði hann svo hægt til að byrja með að ég átti í vandræðum með að heyra og fylgja þræði. En þess ber að geta að ég er hvor tveggja heyrarlaus á öðru eyra og afar óþolinmóður og því ekki marktækur dómari um þessa hluti. Það læddist reyndar sú grunsemd að mér að hann hafi talað svona hægt af góðri ástæðu; hann er búinn að reyna að tala eitthvert skattalegt vit inn í stjórnvöld svo lengi, án árangurs, að hann er farinn að tala afar hægt í þeirri veiku von að skiljast.

En Skattstjóri var ekki skoðanalaus - því þegar hann var búinn að fara í gegnum margvíslegar skilgreiningar og skýringar komu skoðanir sem vert er að vekja athygli á, því ekki verður annað sagt en þar tali maður með framúrskarandi þekkingu. Sú fyrri lítur að mikill deilu sem geisað hefur milli tveggja þekktra fræðimanna um hvort skattbyrgði þeirri tekjulægri hafi aukist eða ekki - sem um leið er hluti af umræðu um það hversu mikið ójöfnuður hafi aukist í íslensku samfélagi síðasta áratuginn. 

„Áhrif skatta á tekjudreifingu hafa farið hraðminnkandi" var megin niðurstaða Indriða H. og vel rökstudd með tölum sem sýna m.a. að skattar þess fimmtungs framteljenda sem hafa minnstar tekjur hafa aukist mest hlutfallslega, þannig að áður fengu þeir endurgreiðslu en greiða nú skatta. Raunar hefur hlutfallsleg skattbyrði allra skattgreiðenda aukist - nema þeirra 10% sem hæstar hafa tekjurnar hækkað. Varla fer skattstjóri rangt með opinberar tölur um skattheimtu sem er á hans ábyrgð og hlutfallstölur sem hann hefur allar sjáfur undir höndum.

Af þessu leiðir tvær afar athyglisverðar niðurstöður, sem þó einhverjir hafa verið að reyna að efast um á síðustu vikum. Sú fyrri er að „tekjujöfnun hins almenna skattkerfis er orðin langtum minni heldur en hún var fyrir 12 árum síðan." Fram á þetta sýndi skattstjóri m.a. með margvíslegum tölum sem allar sýna að kerfið leikur æ minna hlutverk í því að jafna út kjörin og er það sérstaklega sá hópurinn sem hefur mestar tekjur og þá sérstaklega fjármagnstekjur sem greiðir hlutfallsega æ lægra hlutfall í skatta. Sú breyting hefur aðalega gerst á síðustu þremur árum, eflaust með tilkomu stóraukinna fjármagnstekna.

Ég er raunar sérstaklega stoltur af því að tilheyra þeim fjórðungi fjölskyldna sem leggur hlutfallslega mest til samfélagsins, en það eru hópurinn sem er á tekjubilinu 51-75% en árið 2004 greiddi sá hópur 24.9% heildartekna sinna í skatt á meðan þeir sem voru í efsta fjórðungnum greiddu 24.6% (þótt krónutala efsta fjórðungsins sé auðvitað hærri).  Það voru reyndar enn ítarlegri tölur sem sýndu að skatthlutfall allra hjóna hafa lækkað frá 1995 nema þeirra sem hafa samanlagt minna en 4 milljónir á ári. En það vakti athygli mína að hjá hjónum með 50-100 m.kr. á ári hefur breytingin ekki verið mikil. Skrýtið, því hlutfallsleg skattbyrgði þeirra sem eru með meira en 100 m.kr á ári er nær helmingi minni en hún var 1995.

Af þessu leiðir síðan nokkuð augljósa niðurstöðu, sem er sú að ójöfnuður hefur aukist. Þar komum við að gini-nu eða Gini-staðlinum, þar sem skattstjóri lagði fyrir okkur athyglisverðar tölur sem ég er sannfærður um að tveir prófessorar við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands hafa skoðað ofan í kjölinn; í þeim felst að frá 1993 hefur gini-talan sem sýnir (ó)jöfnuð tekna fyrir skatta aukist á Íslandi úr 0,269 í 0,377 eða um þriðjung. Þessi staðall þýðir einfaldlega að ef hlutfallið er 0,0 þá eru allir með fullkomlega sambærilegar tekjur, en ef hlutallið er 1,0 þá er um fullkominn ójöfnuð að ræða. Þetta vita sennilega allir - að ójöfnuður í tekjum hefur aukist. Hitt vita kannski ekki allir að ójöfnuðurinn eftir skatta hefur aukist enn meira, sem má sjá af því að samkvæmt skattstjóra var gini-tala 0,200 árið 1993 eftir skatta en árið 1995 var hún komin í 0,358.

Á mannamáli þýðir þetta allt saman að skattkerfið hefur á undanförnum árum ýtt undir og aukið ójöfnuð, fremur en að draga úr áhrifum á auknum ójöfnuði í tekjudreifingu landsmanna.

En ég er sáttur við mitt og stoltur af því sem ég borga til samfélagsins. Og sáttur við skattstjóra sem kann að lesa úr tölunum sínum. Svo sáttur reyndar að í lok fyrirlestursins, þá gleymdi ég að þakka honum fyrir skattur.is - sem er að mínu mati frábær vefur. Þeim þökkum er hér með komið á framfæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband