Sumardagurinn fyrsti í grilli

gas-barbeque-grillsÍ tilefni sumarkomu dreif ég í að þrífa grillið eftir að við komum úr Fjölskyldugarðinum í Laugardal þar sem dóttirin yngsta tók þátt í blokkflaututónleikum. Mest myndaði tónlistarviðburður sumardagsins fyrsta trúi ég. Flestir okkar foreldranna höfðu vit á að taka bara ljósmyndir og vera ekki með video. Mikið er ég annars glaður að foreldrar mínir voru ekki með myndbandsupptökutæki þegar ég var níu ára og spilaði á blokkflautu fyrir fullum sal af fólki upp í Breiðholti. En sem sagt, í gær var fyrsti í grilli hjá mér - heldur seinna en hjá sumum nágranna minna.

Vekur upp spurninguna, hvað er það með okkur mannfólkið og grillin? Afhverju eru menn - ja þetta eru nú frekar karlmenn - svona heillaðir af grillum? Af því að grilla? Ég er mikið fyrir að grilla og hef í gegnum árin pælt svolítið í þessu. Svo hér er mín snöggsoðna mannfræðilega skýring: Samfélag manna mótaðist í kringum eldinn; það fór ekki margt merkilegt að gerast með þróun mannskepnunnar fyrr en við lærðum á eldinn, svo við eldstæðið hefur siðmenningin þróast. Þar höfum við sest niður að loknu dagsverki og hitað villibráðina sem við bárum í bú fyrir margt löngu. Við karlarnir sjálfsagt meira en konurnar, sem gátu ekki bara starað í eldinn eins og þar væri svarið við tilgangi lífsins að finna því þær þurftu að sinna ungviðinu og gátu ekki verið eins annars hugar og við.

Já við karlarnir höfum í árþúsundir setið og horft í eldinn. Þessi stund er djúpt greipt í sál okkar og grillið er tengingin sem við höfum við þessa fjarlægu fortíð. Grillið og svo þessi örfáu skipti sem við fáum að verða drengir aftur og kveikja alvöru bál.

Sem sagt: Gleðilegt (grill)sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband