Póstkort úr bælinu
Föstudagur, 13. júlí 2007
Þegar lífið slær mann út um stundarsakir þarf maður að fara í allt annan hrynjanda en maður er vanur. Þegar maður liggur í rúminu og getur sig eiginlega ekki hrært þá fer maður í annan gír og hlustar á umhverfishljóðin, öskukallana, börnin sem ganga framhjá og umferðarnið í fjarska, stundum sírenur en mestu þó fjarlægur niður og svo hlustar maður á Gufuna - gömlu góðu Gufuna sem er alltaf þarna fyrir mann þegar á þarf að halda.
Ég er búinn að liggja flatur í fjóra sólahringa eftir að hafa tognað illa í baki og mitt í verkjartöflumókinu hef ég hlustað á sögu af finnskum dreng og á gamlan upplestur Nóberlsskáldsins, óþolandi nútímatónlist og yndislegan jazz og svo óteljandi stutta fréttatíma að ekki sé nú minnst á veðurfréttir og dánartilkynningar frá upphafi til enda. Ég held ekki að þetta séu ellimerki - þegar maður er ekki alveg í fjórða gírnum þá vill maður ekki hlusta á það tempó sem er á flestum hinum útvarpsstöðvunum; maður er ekkert rosalega hress og fílar fátt í botn - allra síst ýkta og ofurhressa útvarpsþuli. Neib þá hentar Gufan. Kannski eru þeir bara nokkuð margir sem hentar betur hrynjandinn í Gufunni en í síbyljunni svo ég vona að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu haldist sá hrynjandi.
Það var annars svolítið hlálegt að fá sér far í sjúkrabíl í sólskininu upp á bráðamóttöku fyrr í vikunni. Konan linnti ekki látum fyrr en ég samþykkti að hitta lækni og þar sem ég gat engan vegin verið nema í hnipri útafliggjandi varð það að ráði að fá sjúkrabíl. Hef ekki þurft að nýta mér þá þjónustu í hart nær fjörutíu ár - en þá var líka sól í minningunni. Eins gott svosem að ég var drifinn uppá spítala því auðvitað var mín eigin sjúkdómsgreining röng. Þetta var sem betur fer ekkert innvortis heldur bara slæmt tilfelli af tognun í baki sem getur farið illa með skrifstofublækur sem leggjast í skurðargröft um helgar. Lækningin sú ein að éta verkjalyf og vöðvaslakandi og reyna svo að hreyfa sig innan sársaukamarka - sem eins og allir vita eru fremur lág hjá karlpeningi.
Allavega á fjórða degi er ég farinn að ganga ögn um, en boginn eins og nírætt gamalmenni. Heil vinnuvika farin í þetta hugsa ég bölvandi og er orðinn ansi óþreyjufullur eftir að komast í minn venjulega gír. Ætli það séu ekki nokkuð skýr merki þess að ég sé að hressast.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.