Bloggleysi í önnum doktorsnáms og starfa

Ég hef ekki litið inn á eign bloggsíðu í margar vikur - næstum búinn að gleyma henni - en sé að einhverjir hafa verið að kíkja í heimsókn. Ykkur bið ég bara afsökunar á þessu langa bloggleysi og ber við hefðbundnum haustönnum. Svo hef ég líka verið ögn að hugsa um "ritstjórnarstefnuna" á þessu bloggi ... er eiginlega ekki alveg viss um hver hún er. Var eiginlega búinn að ákveða að vera svolítið meira persónulegur en hér í upphafi og vera minna að viðra skoðanir mínar á mönnum og málefnum. Það er nóg af skoðunum í samfélaginu og fullt af fólki að halda þeim á lofti. En er samt eitthvað feiminn við að verða of persónulegur, því maður hefur samskipti við ansi marga í gegnum starfið og á þeim vígstöðvum vill maður halda ákveðinni fjarlægð. Svo það er hinn gullni meðalvegur í þessu eins og öðru; svo fjölskyldu og vinum lofa ég einhverjum fréttaskotum úr lífsbaráttunni en einnig gæti ég notað þennan vettvang til að orða einhverjar hugsanir og skoðanir sem spretta af því sem ég er að lesa og hugsa um þessar vikurnar.

Ein ástæða annanna er nefnilega sú að ég er á fullu í doktorsnámi þessa haustönn. Tek þrjá kúrsa til prófs og svo einn leskúrs sem ég vona einnig að ég nái að klára fyrir áramót. Þetta er allt tilkomið vegna þess að ég kem úr heimspekideild en ætla að taka doktorspróf í stjórmálafræði við félagsvísindadeild og því þurfti ég að uppfylla kröfur deildarinnar.  Lenti í því að tvö námskeið voru á sama tíma og lausnin var sú að ég tek annað námskeiðið í fjarnámi. Algjör snilld. Sat nú um helgina og hlutstaði á þá fyrirlestra sem ég hef ekki getað sótt og undirbjó próf sem verður í vikunni. Er eiginlega ennþá betra en að sitja fyrirlestrana sjálfa, því það er hægt að gera annað á meðan - t.d. að elda matinn - eða þá spóla til baka þegar kennarinn gerist sérstaklega spakur. HÍ var fyrir nokkrum dögum að semja um kaup á nýjum hugbúnaði vegna svona upptakna á fyrirlestrum sem á að gera þetta enn einfaldara og þægilegra og vonandi verður sem mest af fyrirlestrum gert aðgengilegt fyrir alla nemendur í framtíðinni. Ég hef engar áhyggjur af því að kennararnir verði óþarfir - þótt færri mæti í salinn til að hlusta á þá. Hlutverk þeirra mun breytast kannski, en um leið verða gagnvirkara og jafnvel meira gefandi fyrir þá sjálfa.

... sem sagt önnin leggst vel í mig, þetta verður bara stutt og snarpt og maður verður sjálfsagt feginn þegar törnin verður búin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband