Hernaðarfræði

Flaug til Washington í gær og lenti við hliðina á Peter nokkrum, sem var að koma úr tveggja vikna fríi í Skotlandi með konunni. Peter þessi er hermaður en kominn á eftirlaun og við náðum vel saman í spjalli, því hann var í forsvari fyrir rannsóknardeild á vegum hersins í læknisfræði. Var búinn að vera lengi með vinnuaðstöðu hinum megin við götuna þar sem ég verð að funda næstu daga hjá National Institute of Health.

Það er svo gaman að tala við Ameríkana - þeir eru ekki málhaltir og hafa skoðanir á öllu. Og Peter var ekkert að skafa utanaf því þegar kom að bandaríska hernum. Þetta er peningasóun, alger peningasóun og kemur í veg fyrir að bandaríkjamenn geti sinnt þeim brýnu verkefnum sem þarf að sinna heimafyrir - og þar voru honum eðlilega heilbrigðismál hugleikin. Ég sýndi honum forsíðufrétt í einu íslensku blaðanna þar sem sagt er frá því að nú er í fyrsta sinn sérmerktur liður fyrir útgjöld til varnarmála. „Ekki koma ykkur upp her - haldið ykkar striki og takið ykkur Svisslendinga til fyrirmyndar" sagði hann en var dálítið skemmt þegar ég sagði honum að þetta væru nú bara tæplega 10 milljón dollarar sem í þetta færu hjá okkur.

Og svo fórum við að tala um hernaðarfræði og afhverju bandaríska hernum gengi svona illa. Þarna var kall með þrjátíu ára reynslu sem sagði einfaldlega að herinn væri gagnslaus núna: Hann er ennþá miðaður við kalda stríðið og það er eins og menn hafi ekkert lært. Margir í Bandaríkjunum spyrja sig „af hverju lærðum við ekkert á Vietnam?" Það er ekki hægt að sigra léttan og dreifan her sem svífst einskis og gerir leiftursóknir en hverfur svo jafnharðan aftur inn í skóginn eða fjallahlíðar. Þetta ættu bandaríkjamenn að vita betur en aðrar þjóðir því það var með þessu aðferðum sem þeir sigruðu breska herinn á sínum tíma. Þeir ættu því að vera sérfræðingar í þess háttar hernaði en eru það ekki. Þess í stað eru þeir hálf móðgaðir - eins og bretar voru forðum - þegar menn beita þessum aðferðum og kalla alla hryðjuverkamenn. „Nei þetta er ekki að gera sig" sagði kallinn.

Niðurstaðan af samræðu okkar var þessi: Ameríkanar verða á endanum sigraðir með þeirra eigin aðferðafræði skæruhernaðar - óvinurinn, hver svo sem hann nú er, mun læðast aftan að þeim og koma frá hlið og menn munu ekkert skilja hvað gerðist.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

1) Svisslendingar eru með her. Stórann her meira að segja.

2) Langflestar skæruherferðir sögunnar hafa mistekist.

3) Bandaríkjamenn ollu Bretum töluverðum vandræðum á sínum tíma. Sigurinn vannst hinsvegar eftir að Frakkar komu þeim til aðstoðar með skipulegan her og flota. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.