Bréf frá Brighton
Sunnudagur, 19. október 2008
Í ljósi hamfara í íslensku efnahagslífi ætla ég að byrja að tjá mig aftur hér á Moggablogginu, þótt umfang og umgjörð þessara hamfara sé með þeim hætti að mann setji hljóðan. En Einar Már rithöfundur hefur rétt fyrir sér - við eigum að ræða málin og taka afstöðu, ekki vera í einhverju póstmódernísku afstöðuleysi.
Ég ætla líka að segja aðeins frá lífi mínu sem doktorsnemi við Sussex háskóla nú fram til jóla og deila með ykkur þeim hugrenningum sem leita á mann við það að dvelja mitt á meðal óvinarins. Ég kom hingað til Brighton nokkrum dögum áður en hamfarirnar höfust af fullum krafti. Þurfti að finna mér húsnæði og koma mér fyrir í algerri óvissu með gjaldeyrismál, en það reddaðist allt". Ég er búinn að koma mér fyrir í lítilli íbúð í eldgömlu húsi niðri í miðbæ og horfi útum stofugluggann minn á bílastæðahús aðal Kringlunnar hér í borg. Ekki að sjá að hér sé skollin á kreppa ef marka má fólksfjöldann sem var að versla nú í dag á sunnudegi. Mér hefur tekist að ná í gjaldeyri með því að taka lítið í einu út af debet kortinu mínu - það er það eina sem virkar ennþá. En það dugar og ég hef nóg að bíta og brenna og hef litlar áhyggjur af eigin högum eftir að mér tókst að greiða húsaleiguna fyrir tímann sem ég verði hér. Mér hefur heldur ekki verið hent út úr neinum búðum eða að mér veist, svo að öllu samlögðu þá amar ekkert að hjá mér.
Það er skrítið að vera Íslendingur í Englandi núna. Kannski er bara skrýtið að vera Íslendingur þessa dagana. Aldrei fyrr hefur mér fundist ég eins niðurlægður. Aldrei fyrr hef ég verið í þeirri aðstöðu erlendis að beinlínis skammast mín fyrir hvaðan ég kem. Þvert á móti hef ég oft notið þeirra forréttinda að vera fulltrúi Íslands á erlendri grund í evrópsku samstarfi og hef alltaf verið giska stoltur af minni þjóð og mínu fólki. En nú er ég hnýpinn og niðurlútur eins og kannski þjóðin þegar ég mæti vorkunarfullu tilliti hjá því fólki sem kemst að því hvaðan ég er. Umfjöllunin um Ísland hefur verið með ólíkindum í breskum fjölmiðlum eins og vel hefur komið fram á Íslandi. Framkoma forsætisráðherra Breta var auðvita fordæmalaus og forkastanleg en við skulum ekki halda eitt augnablik að hún hafi verið algerlega ástæðulaus.
Það var svo til að núa salti í sárin að fá háðuglega útreið í kosningum til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. En átti í alvörunni einhver von á að við myndum ná kjöri þegar því hafði verið rækilega komið til skila í alþjóðlegum fjölmiðlum að Ísland væri gjaldþrota? Varla. Við verðum að átta okkur á því að við erum öllu trausti rúin á alþjóðlegum vettvangi akkúrat núna. Hér skiptir ekki öllu máli hvort það vantraust er verðskulað eða ekki - traustið er farið og við þurfum að endurvinna það. Slíkt tekur tíma og kallar á að við séum trúverðug. Það höfum við ekki verið í augum umheimsins og þar komum við að því sem mér finnst vera kjarni vandamálsins: Alger skortur á fagmennsku.
Það er sama hvar okkur ber niður, allstaðar mætir okkur amatörismi. Hrikalegast hefur auðvitað verið að horfa upp á Seðlabankastjóra sem er ekki starfi sínu vaxinn en er samt ekki látinn taka pokann sinn. En það er nú efni í sér pistil. Nú eða hvernig haldið var á samskiptum við alþjóðlega fjölmiðla þessa daga þegar þjóðarskútan sigldi í strand. Enginn talsmaður ríkisstjórnarinnar sem fjölmiðlar gátu rætt við, enginn faglegur fjölmiðlafulltrúi, ekkert teymi þrautþjálfaðra áróðursmeistara að reyna að lágmarka skaðann - nei eintómt áhugamannaleikhús.
Ég íhugaði það um stund á þessum fyrstu dögum þegar óvissan var sem mest hvort ég ætti að hætta við þessa námsdvöl mína hér í Bretlandi og koma mér bara strax heim. Ég ákvað að halda mínu striki því fjárhagslega afkoma mín og minna var ekki í hættu og ég hafði ekkert sérstakt hlutverk við þær björgunaraðgerðir sem nú standa yfir. Starfið mitt er í góðum höndum þeirrar sem leysir mig af og þótt það hafi komið upp vandamál því við höndlum mikið með evrur þá hefur það allt verið leyst farsællega. Ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt að sem flestir haldi sínu striki og láti þessar hamfarir hafa eins lítil áhrif á áætlanir sínar og kostur er. Eftir allar hamfarir heldur lífið áfram, líka eftir þessar hamfarir.
Um helgina hef ég síðan íhugað hvort ég eigi nokkuð að koma heim aftur. Fumið og ráðaleysið - já þessi skortur á fagmennsku á flestum sviðum gerir það að verkum að manni fallast hendur. Er ekki bara best að forða sér frá þessu sökkvandi skipi og neita að taka þátt í að greiða skuldir sem ég ber enga ábyrgð á að hafa stofnað til? En ég ætla að halda mínu striki hér líka. Mitt verkefni verður að stuðla að því að stefnumótun í grunndvallarþáttum þekkingarsamfélagsins á Íslandi verði faglegri - þ.e. stefnumótun í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Um þetta fjallar doktorsrannsóknin mín og það er síst minni þörf fyrir slíkt framlag eftir þessar hamfarir en fyrir.
Síðan ber maður kannski einhverja ábyrgð eftir opinbera þögn og afstöðuleysi. Ég hef unnið að því í sautján ár að greiða götu Íslendinga í evrópsku samstarfi í menntun og rannsóknum og það samstarf hefur reynst gjöfult og jákvætt. Ég hef því orðið mikla reynslu af evrópsku samstarfi og þekki innviði sambandsins betur en margur annar. Mér ber því að taka þátt í þeirri umræðu sem nú hefur fengið aukinn þunga. Þótt mér hafi ekki fundist rétt fram til þessa að tjá mig opinberlega um aðildarumsókn vegna þess að ég er í forsvari fyrir einni af landskrifstofum ESB á Íslandi þá hef ég nú skipt um skoðun. Svo nú tek ég opinbera og einarða afstöðu til þess að Ísland á að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það á að gera strax.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:13 | Facebook
Athugasemdir
Á dauða mínum átti ég von á, en þú að blogga? Kom mér algjörlega í opna skjöldu! Ég get víst ekki sagt það sama um viðfangsefni bloggsins, það kom mér hvorki í opna skjöldu né fyllti mig tilhlökkun og gleði. En ef það er einhvertímann ástæða til þess að blogga, þá er einmitt fyrir þig núna. Að vera doktorsnemi í Englandi á þessum tímum er algjör forréttindi. Þetta er reynsla sem örfáir fá að upplifa og þroskatækifæri sem þér mun líklegast aldrei aftur bjóðast.
How good can life be?
Embla Ágústsdóttir, 19.10.2008 kl. 22:42
Velkominn aftur á vefinn! :)
Hrefna Marín (IP-tala skráð) 20.10.2008 kl. 00:06
Æi hvað það er nú gott að sjá þig aftur á blogginu...... og ég segi eins og Emblan, umræðuefnið kom nú ekki á óvart en ég var eiginlega mest hissa á að það var ekki lögnu komið
kær kveðja úr slyddutilvonandióveðrinu á klakanum
Björgin
Björg (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.