Nú þarf afdráttarlausa pólitíska forystu Samfylkingarinnar

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag - 10 dögum eftir að ég sendi hana inn - en hún er ekki alveg orðin úrelt, svo ég læt birti hana einnig hér.  

************

Ég hef fylgst með atburðum á Íslandi úr fjarlægð - furðu lostinn eins og þjóðin öll. Fyrstu dagana í vantrú: Nei heilt fjármálakerfi getur ekki farið á hliðina! Síðan í ótta um eigin hag og annarra og loks í samkennd með þjóðinni, því við sitjum jú öll í súpunni. Ég hef stutt stjórnvöld og skilið að þau þyrftu svigrúm til að bregðast við. En svo líður tíminn, seðlabankastjóri situr enn þrátt fyrir furðu allrar heimsbyggðarinnar og fátt gerist nema fum og fálm og óljósar fréttir frá stjórnvöldum þar sem maður hefur það æ oftar á tilfinningunni að ekki sé verið að segja okkur alla söguna. Upplýsingar kom allar annars staðar frá, m.a. um að stjórnvöldum hafi verið vel kunnugt um ástandið fyrr á árinu en ekki brugðust við. Svo nú er vantrúin að breytast í reiði yfir skorti á viðbrögðum áður en kerfið hrundi og úrræðaleysi og afneitun sem einkennir viðbrögð stjórnvalda síðustu dagna.

Ég er stoltur stofnfélagi í Samfylkingunni og stend með mínum flokki, en þetta getur ekki gengið svona lengur. Nú verður Ingibjörg Sólrún að birtast og segja hingað og ekki lengra, taka pólitíska forystu og hafa forgöngu um að menn axli pólitíska ábyrgð. Það mátti skilja nýleg orð hennar þannig að hún hafi gefið Sjálfstæðismönnum frest til að takast á við sín innri mál framyfir áramót - en við megum ekki við því að bíða lengur. Það verður að stíga ákveðin skref strax til að byggja upp tiltrú á ný.

Ráðherrar axli embættisábyrgð

Nú höfða ég til forystu Samfylkingarinnar og kalla eftir tvíþættri pólitískri ábyrgð á því sem gerst hefur og sem mun gerast á næstunni. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa verið við stjórnvölin og bera því pólitíska ábyrgð og ber að axla hana. Innviðir fjármálakerfisins eru á ábyrgð forsætisráðherra sem ber ábyrgð á Seðlabankanum - sem augljóslega brást hrapalega - og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á bönkunum og fjármálaeftirlitinu sem einnig brást. Því eiga þessir ráðherrar að víkja. Hér er ekki verið að persónugera neitt - það er hættulegur miskilningur ef menn greina ekki milli embættisins og persónunnar sem gegnir því á hverjum tíma. Þessir tveir ráðherrar eiga að segja af sér og axla þannig ábyrgð fyrir hönd embættisins og sinna flokka.

Kvennastjórn og nýjan stjórnarsáttmála

Í framhaldi af því þarf að stofna til nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til takmarkaðs tíma til að sinna fjórum forgangsverkefnum. Sú stjórn ætti að vera kvennastjórn undir forystu Ingibjargar og Þorgerðar sem leiði samstarfið fyrir hönd Sjálfstæðismanna. Með því móti er hægt að axla pólitíska ábyrgð á fortíðinni án þess að hlaupast undan ábyrgð á framtíðinni. Nýr stjórnarsáttmáli feli í sér:

  • 1. Að skapa trúverðugleika gagnvart almenningi og umheiminum á að íslensk stjórnvöld geti brugðist við aðstæðum og stjórnað til frambúðar. Seðlabankastjórnin á að víkja tafarlaust og stofna þarf sannleiksnefnd þannig hægt sé að draga til ábyrgðar þá aðila viðskiptalífsins sem brutu lög og benda á hina sem voru á mjög hálum ís. Sannleiksnefndina verða erlendir aðilar að leiða - engum Íslendingi er ætlandi það verkefni. Þá þarf einnig erlenda stjórnendur að íslensku ríkisbönkum til að skapa tiltrú heima og erlendis.
  • 2. Að sækja um aðild að ESB - strax. Nær öll þjóðin er sammála því að sækja um. Það á síðan að vera hluti af nýjum stjórnarsáttmála að þegar samningur liggur fyrir á að boða til þingkosninga og um leið þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
  • 3. Að beita velferðarkerfinu og þeim tækjum sem ríkisvaldið hefur í gegnum ríkisbanka, íbúðarlánasjóð og lífeyrissjóði til að milda höggið sem íslensk heimili eru um það bil að verða fyrir. Hér þarf að forgangsraða til framtíðar; allt þarf að frysta sem hægt er að frysta á meðan verðbólguskotið gengur yfir og verið að er hleypa úr landi erlendu umframfjármagni. Og í guðanna bænum, hlustið þið nú á einhverja virta hagfræðinga en skellið ekki við skollaeyrum eins og í sumar.
  • 4. Að skapa nýja atvinnustefnu sem virkjar þann mannauð sem þegar er til staðar og tryggir langtímavöxt á Íslandi og atvinnu sem flestra. Íslendingar settu upp Vísinda- og tækniráð fyrir 5 árum að finnskri fyrirmynd sem hefur gefist vel og búið í haginn fyrir samstarf og samráð um þau verkefni sem nú er raunhæft að ráðast í. Við þurfum að ganga skrefi lengra og fylgja fordæmi Finna með því að setja okkur nýsköpunarstefnu til næstu ára sem tekur til allra þátta þekkingarsamfélagsins - frá framkvæmdum til framleiðslu, vísindum til hinna skapandi atvinnugreina. Það er svo margt fleira í spilunum en veðsettir loftbankakastalar og álskýjaborgir.

Ég hef ennþá trú á að forysta Samfylkingarinnar geti stigið fram á sviðið og tekið þá pólitísku forystu sem nú er kallað eftir og stýrt okkur út úr þessum hremmingum og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum er ég ekki einn um það. Tímasetningar skipta öllu í pólitík og tíminn til afdráttarlausra aðgerða er núna.

Með kveðju frá Englandi
Ágúst Hjörtur Ingþórsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Ég er hræddur um að það sem þú leggur til sé einfaldlega "too little, too late". Ríkisstjórnin verður einfaldlega að fara frá strax. Skipuð verði tímabundin utanþingsstjórn sem byrji á að hreinsa til fyrir alvöru. Boðaðar verði kosningar í mars. Ef engu verður breytt á allra næstu dögum og vikum endar einfaldlega allt með ósköpum. Ég gaf núverandi ríkisstjórn ákveðin tíma eftir hrunið en hún er einfaldlega búin að tapa öllum trúverðugleika sínum. Brennuvargarnir sitja allir enn, sömu aðilar stjórna bönkunum og eru að selja eignir okkar með leynd (sjá t.d. hér og hér). Ef Samfylkingin tekur sig ekki á kemur hún líka til með að tapa trúverðugleika sínum. Fólkið er einfaldlega búið að fá nóg.

Guðmundur Auðunsson, 24.11.2008 kl. 16:37

2 Smámynd: Ágúst Hjörtur

Æi ég held þú hafir rétt fyrir þér - ef þau hefðu gert þetta strax í október hefði verið hægt að byggja upp trúverðuleika aftur. Eftir borgarafundinn í gær - er ég orðinn óskaup vondaufur um að þeim sé treystandi fyrir þessu.

Ágúst Hjörtur , 25.11.2008 kl. 15:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband