Nýársmót fatlaðra barna og unglinga í sundi

Verðlaunahafar 2007Síðustu árin hefur fyrsti sunnudagur á nýju ári alltaf verið helgaður Nýársmóti fatlaðra barna og unglinga í sundi, sem nú var haldið í 24. sinn. Þetta var fyrsta sundmótið sem Emblan tók þátt í fyrir mörgum árum og nú tók hún þátt í síðasta sinn því eftir ár verður hún komin á átjánda ár og þá orðin of gömul. Hún stóð sig vel í dag og þótt engin Íslandsmet hafi fallið (maður er eiginlega farinn að vænta þess að þau falli eftir árangurinn á síðasta móti, þegar met féll í hverju sundi) þá var þetta fyrsta mótið þar sem hún stingur sér í bæði skriðsundi og bringu. Það mun alveg örugglega skila sér í betri tíma þegar kemur fram á árið.

Fréttastofa sjónvarpsins gerði mótinu góð skil í kvöldfréttum - fín mynd af minni! Helgarsportið bætti um betur og þar er skemmtileg viðtal við Sonju Sigurðardóttur sem stóð sig afar vel í dag og setti tvö Íslandsmet! Þetta verður spennandi ár hjá þeim þremur í ÍFR, vinkonunum, Emblu og Sonju og Eyþóri. Megin markmið ársins hjá þeim öllum er að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008, en þau eiga nokkuð góða möguleika á því eftir að Kristín Rós tryggði Íslandi þátttökurétt með frammistöðu sinni á heimsmeistaramótinu í S-Afríku í desember á síðasta ári. Þetta verður ekki auðvelt hjá þeim, en þau hafa sýnt mikla þrautsegju og mikinn keppnisvilja og ég hef mikla trú á að þau verði okkar tríó í Peking ... og er byrjaður að safna fyrir farinu. Smile 

Það var ekki síður gaman að fylgjast með nýgræðingunum en þeim sem voru að berjast við Íslandsmetin. Það er mikil og merkileg upplifun fyrir alla að taka þátt í alvöru sundmóti í fyrsta skipti með tímatöku, dómurum og hvatningarhrópum og fá svo viðurkenningu frá borgarstjóranum í Reykjavík í lokin. Þetta mót er til mikils sóma fyrir Íþróttasamband fatlaðra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband