Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Gylfi hefur rétt fyrir sér

... með að það hefur orðið trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og stjórnarinnar og forystumenn ríkisstjórnarinnar hljóta að hafa skynjað það í síðasta lagi á borgrafundinum í Háskólabíó á mánudag.

... með að ríkisstjórnin verður að þjóðinni aðra hlið en við höfum séð síðustu vikurnar. Í því felst alveg sérstaklega að axla pólitíska ábyrgð, því fjármálahrunið íslenska varð á vakt þessarar ríkisstjórnar og hún verður að viðurkenna það í verki. Þetta er spurning um pólitísk ábyrgð, ekki perónulega.

... með að afsögn tveggja ráðherra, úr sitt hvorum stjórnarflokknum, væri yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að hún væri að axla pólitíska ábyrgð.

... með að slík afsögn hefði minnst truflandi áhrif af þeim möguleikum sem eru í stöðinni. Þá getur ríkisstjórnin haldið áfram að reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ef þau gera þetta ekki, þá eru mun óánægja almennings halda áfram að vaxa og þá gæti svo farið að ríkisstjórnin þurfi að hröklast frá völdum. Það er alltaf miklu betra að reyna að stjórna undanhaldinu sjálfur.

Ég hef reyndar lýst þeirri skoðun minni hér að Geir eigi að segja af sér ásamt Björgvini - því Geir ber jú ábyrgð á Seðlabankanum og ætti að axla ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á því hræðilega klúðri sem einkavinavæðing bankanna var. Ég ráðlegg því forystumönnum ríkisstjórnarinnar að hlusta á hófsemdarmanninn Gylfa Arnbjörnsson að þessu sinni.


mbl.is Kosningar eru hættuspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæli, verðlaunaveiting og fiskisúpa

Ég gerði stutta en góða ferð til Íslands, sem gæti heitið frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Á föstudaginn héldum við upp á 20 ára afmælli Tæknigarðs og veittum einnig Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í tíunda sinn. Það var góð mæting og góð stemming, enda komu um 150 manns til okkar. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi rektor rifjaði upp það umhverfi sem var þegar hugmyndum um Tæknigarð var ýtt úr vör og við gáfum út Afmælisrit um Tæknigarð þennan dag, þar sem eru 77 örsögur af fyrirtækjum í Tæknigarði sem hann Hjörtur sonur minn vann í sumar. Er ekki enn komið á netið - en ég skelli inn hlekk þegar það verður sett þangað. Rögnvaldur Ólafsson fyrsti framkvæmdastjóri Tæknigarðs fllutti einnig tölu og í lokin sagði Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor nokkur vel valin orð við okkur öll.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2008Hópur verðlauna-hafa var óvenju stór eins og sést á mynd-inni, þar sem auk verðlauna-hafa og mín eru formaður dómnefndar og háskólarektor. Enda fengu sex manns fyrstu verðlaunin fyrir verkefni sem kallað er gönguhermirinn og ef vel gengur mun nýtast til gönguþjálfunar fatlaðra einstaklinga. Það voru kennarar og nemendur úr verkfærði og sjúkraþjálfun sem fengu verðlaun og ein þeirra er vinkona Emblu minnar frá því í Reykjadal og því gaman að Embla mætti í afmælið. Í öðru sæti var verkefni um skráningu gagna úr sjúkraþjálfun - sem ekki eru skráð með skipulegum hætti í dag eins og margar aðrar heilsufarsupplýsingar. Í þriðja sæti var síðan sagnfræðilegt verkefni um Spánverjavígin 1615 - sem sagt ramm vestfirskt! Sjá nánar um þetta á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar.

Á laugardeginum var síðan tími fyrir hluta af stórfjölskyldunni en þá bauð ég mömmu og heilsystrum mínum ásamt þeirra fjölskyldum í fiskisúpu. Í henni var meðal annars þorskur sem ég veiddi fyrir vestan í sumar. Næsta sumar ætla ég að reyna að elda fiski- og kræklingasúpu eins og þessa aftur, nema bara helst eingöngu úr hráefnum sem ég hef veitt og ræktað sjálfur. Maður verður að setja sér skynsamleg markmið í kreppunni.

Sunnudagurinn var síðan helgaður kjarnafjölskyldunni. Ég fór með krúttin í sund og mikið agalega var gott að komast í heitan pott þótt vindurinn af Esjunni væri ansi hreint kaldur. Svo var farið í bíó og loks borðuð pizza þannig það var sannkallað barnaprógramme. Og nú taka við síðustu þrjár vikurnar hér í Brighton sem enda með lokaprófi þann 12. desember.


Frábær borgarafundur

Horfi hér á Borgarafund í beinni í tölvunni, nýkominn til Bretalands aftur eftir stutta ferð til íslands - gott hjá sjónvarpinu að senda þetta út. Þorvaldur Gylfason var mjög góður og minnti menn á sögulegar forsendur þess sem hann kallar Sjálftökusamfélagið. Þetta hófst með kvótakerfinu sem var fært fáum einstaklingum til eignar. Því var vegurinn varðaður til frekari einkavinavæðingar á opinberum fyrirtækjum, sem ýmis voru en engin þó eins mikilvæg eins og bankarnir. Hvernig staðið var að einkavinavæðingu þeirra er til mikillar skammar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn og raunar stórmerkilegt að þeim skyldi ekki refsað í kosningunum næstu á eftir. Þorvaldur rifjaði upp hvernig varaformaður Framsóknarflokksins auðgaðist og framkvæmdastjóri Sjálfstæðis­flokksins voru færðir milljarðar á silfurfati besta vinar hans forsætisráðherrans - og það eina sem gerist er að einhver maldar í móinn og hristir hausinn í undrun og skömm, en allir sitja á sínum stólum, á sínum króunum. Við hin sitjum öll á okkur; afhverju?  

Það er brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála er að koma Sjálfstæðisflokknum frá völdum, leiðrétta verstu mistökin og losa um þá menn sem sá flokkur hefur komið fyrir í stjórnsýslu og fjármálalífið. Og vinda ofanaf af vitleysunni með því að taka hluta þessara eigna til baka. Kvótann og bankana og gæta vel að því að náttúran, orkan, vatnið - þetta verði áfram í öruggri eign þjóðarinnar allrar.

Hvers vegna gengur ekki Samfylkinging fram fyrir skjöldu núna? Afhverju skynjar hún ekki hlutverk sitt og hina stærri ábyrgð. Nú er hún meðvirk með Sjálftökuflokknum og heldur honum á valdastóli. Ingibjörg er að bregðast núna ef hún skynjar þetta ekki - það er sögulegt tækifæri núna fyrir jafnaðarmenn núna að taka forystu um að breyta samfélaginu. Leiðin er ekki sú að láta Sjálfstæðisflokkinn áfram ráða efnahagsmálum. Ingibjörg á að knýja fram breytingar og í reynd mynda nýja stjórn. En hún verður að ganga fram með góðu fordæmi og  sannfæra bankamálaráðherrann sem svaf á verðinum í sumar um að segja af sér. Svo ég segi því miður enn og aftur - hvar er pólitísk forysta Samfylkingarinnar?
mbl.is Kvótakerfið varðaði veginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú þarf afdráttarlausa pólitíska forystu Samfylkingarinnar

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu í dag - 10 dögum eftir að ég sendi hana inn - en hún er ekki alveg orðin úrelt, svo ég læt birti hana einnig hér.  

************

Ég hef fylgst með atburðum á Íslandi úr fjarlægð - furðu lostinn eins og þjóðin öll. Fyrstu dagana í vantrú: Nei heilt fjármálakerfi getur ekki farið á hliðina! Síðan í ótta um eigin hag og annarra og loks í samkennd með þjóðinni, því við sitjum jú öll í súpunni. Ég hef stutt stjórnvöld og skilið að þau þyrftu svigrúm til að bregðast við. En svo líður tíminn, seðlabankastjóri situr enn þrátt fyrir furðu allrar heimsbyggðarinnar og fátt gerist nema fum og fálm og óljósar fréttir frá stjórnvöldum þar sem maður hefur það æ oftar á tilfinningunni að ekki sé verið að segja okkur alla söguna. Upplýsingar kom allar annars staðar frá, m.a. um að stjórnvöldum hafi verið vel kunnugt um ástandið fyrr á árinu en ekki brugðust við. Svo nú er vantrúin að breytast í reiði yfir skorti á viðbrögðum áður en kerfið hrundi og úrræðaleysi og afneitun sem einkennir viðbrögð stjórnvalda síðustu dagna.

Ég er stoltur stofnfélagi í Samfylkingunni og stend með mínum flokki, en þetta getur ekki gengið svona lengur. Nú verður Ingibjörg Sólrún að birtast og segja hingað og ekki lengra, taka pólitíska forystu og hafa forgöngu um að menn axli pólitíska ábyrgð. Það mátti skilja nýleg orð hennar þannig að hún hafi gefið Sjálfstæðismönnum frest til að takast á við sín innri mál framyfir áramót - en við megum ekki við því að bíða lengur. Það verður að stíga ákveðin skref strax til að byggja upp tiltrú á ný.

Ráðherrar axli embættisábyrgð

Nú höfða ég til forystu Samfylkingarinnar og kalla eftir tvíþættri pólitískri ábyrgð á því sem gerst hefur og sem mun gerast á næstunni. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa verið við stjórnvölin og bera því pólitíska ábyrgð og ber að axla hana. Innviðir fjármálakerfisins eru á ábyrgð forsætisráðherra sem ber ábyrgð á Seðlabankanum - sem augljóslega brást hrapalega - og viðskiptaráðherra ber ábyrgð á bönkunum og fjármálaeftirlitinu sem einnig brást. Því eiga þessir ráðherrar að víkja. Hér er ekki verið að persónugera neitt - það er hættulegur miskilningur ef menn greina ekki milli embættisins og persónunnar sem gegnir því á hverjum tíma. Þessir tveir ráðherrar eiga að segja af sér og axla þannig ábyrgð fyrir hönd embættisins og sinna flokka.

Kvennastjórn og nýjan stjórnarsáttmála

Í framhaldi af því þarf að stofna til nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks til takmarkaðs tíma til að sinna fjórum forgangsverkefnum. Sú stjórn ætti að vera kvennastjórn undir forystu Ingibjargar og Þorgerðar sem leiði samstarfið fyrir hönd Sjálfstæðismanna. Með því móti er hægt að axla pólitíska ábyrgð á fortíðinni án þess að hlaupast undan ábyrgð á framtíðinni. Nýr stjórnarsáttmáli feli í sér:

  • 1. Að skapa trúverðugleika gagnvart almenningi og umheiminum á að íslensk stjórnvöld geti brugðist við aðstæðum og stjórnað til frambúðar. Seðlabankastjórnin á að víkja tafarlaust og stofna þarf sannleiksnefnd þannig hægt sé að draga til ábyrgðar þá aðila viðskiptalífsins sem brutu lög og benda á hina sem voru á mjög hálum ís. Sannleiksnefndina verða erlendir aðilar að leiða - engum Íslendingi er ætlandi það verkefni. Þá þarf einnig erlenda stjórnendur að íslensku ríkisbönkum til að skapa tiltrú heima og erlendis.
  • 2. Að sækja um aðild að ESB - strax. Nær öll þjóðin er sammála því að sækja um. Það á síðan að vera hluti af nýjum stjórnarsáttmála að þegar samningur liggur fyrir á að boða til þingkosninga og um leið þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn.
  • 3. Að beita velferðarkerfinu og þeim tækjum sem ríkisvaldið hefur í gegnum ríkisbanka, íbúðarlánasjóð og lífeyrissjóði til að milda höggið sem íslensk heimili eru um það bil að verða fyrir. Hér þarf að forgangsraða til framtíðar; allt þarf að frysta sem hægt er að frysta á meðan verðbólguskotið gengur yfir og verið að er hleypa úr landi erlendu umframfjármagni. Og í guðanna bænum, hlustið þið nú á einhverja virta hagfræðinga en skellið ekki við skollaeyrum eins og í sumar.
  • 4. Að skapa nýja atvinnustefnu sem virkjar þann mannauð sem þegar er til staðar og tryggir langtímavöxt á Íslandi og atvinnu sem flestra. Íslendingar settu upp Vísinda- og tækniráð fyrir 5 árum að finnskri fyrirmynd sem hefur gefist vel og búið í haginn fyrir samstarf og samráð um þau verkefni sem nú er raunhæft að ráðast í. Við þurfum að ganga skrefi lengra og fylgja fordæmi Finna með því að setja okkur nýsköpunarstefnu til næstu ára sem tekur til allra þátta þekkingarsamfélagsins - frá framkvæmdum til framleiðslu, vísindum til hinna skapandi atvinnugreina. Það er svo margt fleira í spilunum en veðsettir loftbankakastalar og álskýjaborgir.

Ég hef ennþá trú á að forysta Samfylkingarinnar geti stigið fram á sviðið og tekið þá pólitísku forystu sem nú er kallað eftir og stýrt okkur út úr þessum hremmingum og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum er ég ekki einn um það. Tímasetningar skipta öllu í pólitík og tíminn til afdráttarlausra aðgerða er núna.

Með kveðju frá Englandi
Ágúst Hjörtur Ingþórsson


Ekki króna til heimilanna í landinu!

Það er vart hægt að ímynda sér snautlegri ráðstafnir til að létta undir með heimilinum en kynntar voru á þessum blaðamannafundi. Rauði þráðurinn í þessu öllum saman - væntanlega kominn úr smiðju Geirs sem bara getur ekki hætt að vera fjármálaráðherra - er að þetta má ekki kosta krónu. Ekki eina krónu. Þetta snýst bara um að lengja í henginarólinni; það á að lána fólki fyrir verðbótunum og bæta þeim við lánin! Það á að borga baranabæturnar út örar, en ekki að hækka þær og það á ekki að taka þær uppí skuldir. En skattaskuldirnar munu standa eftir sem áður því þær eru þeirrar náttúru að fyrnast aldrei - ólíkt bankaskuldum sem getað tapað. Og svo á að afnema stimpilgjöld þegar fólk er að skuldbreyta vegna aðstæðna sem það réði engu um. Það má að vísu reyna að ljúga því að okkur að það 'kosti' eitthvað, en fólk hefði ekki þurft að skuldbreyta ef ekki hefði verið þetta bankaflipp þannig að það tekjutap ríkisins er bara plat. Svo ég stend við það - megin innihald þessara aðgerða er að þær máttu ekki kosta krónu.

Þetta ber að skoða í því ljósi að við munum þurfa að setja guð má vita hvað marga hundruði milljarða í að koma bankakerfinu á lappir aftur. Eitthvað af því munum við fá til baka, en kostnaðurinn verður mikill. Og rökin eru þau að þetta verði að gera, annars .... svo er einhver dulin hótun sem engin veit hver er.

En ættu ekki sömu rök að gilda um almenning. Hann er ekki síður auðlind og raunar miklu meiri en bankarnir. Ef mann fara umvörpum á hausinn, missa vinnu og húsnæði og hröklast til útlanda, tja hver á þá að borga reikninginn? Væri kannski ráð að taka einhverja milljaraða að láni til að tryggja að sem flestir missi sem minnst og geti þá með nokkurri reisn haldið áfram að vera borgunarmenn fyrir þær skuldir sem á okkur munu falla. Ég hefði haldið það

... og segi því enn og aftur: Hvar er Samfylkingin? Og Ingibjörg; það er ekki nóg að segjast skilja reiðina, það verður líka að bregðast við henni með talsvert meira afgerandi hætti en að tilkynna að barnabætur verði greiddar út 12 sinnum á ári en ekki 4 sinnum! Snautlegra gat það ekki verið. Þetta er ekki sú pólitíska forysta sem við erum að kalla eftir núna.


mbl.is Ný greiðslujöfnunarvísitala tekin upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beauty need only be a whisper

Katie MeluaÞað kom loksins að einhverju félagslífi öðru en fyrirlestrasókn. Fór á tónleika með Katie Melua sem var afar skemmtilegt hér í Brighton Centre ásamt 2-3000 öðrum gestum. Þetta voru síðustu tónleikarnir hennar í tónleikaröð sem hefur staðið yfir frá því í mars og nær yfir þær þrjár plötur sem hún hefur gert í samstarfi við Mike Batt, sem er á aldri við mig en hún var ekki nema 18 þegar þau byrjuðu að vinna saman. En nú er þetta líka orðið gott, segir hún í sýningarskránni og hún ætlar að halda áfram ein og finna sinn tón.

Tónleikarnir komu mér á óvart. Ég hef spilað tvær af þessum þremur plötum mikið og átti því von á henni eiginlega bara með kassagítarinn. Þannig byrjaði hún líka og tók tvö lög ein og óstudd og skellti sér svo á bak við píanóið og tók rólegt lag á georgísku.

En þá breyttust tónleikarnir og sex manna band birtist á tjöldum sem síðan var lyft upp og úr varð mjög skemmtilega útfærð sýning; á hálf gegnsæu tjaldi með sum lögin myndskreytt og lýsingu sem var frábær.

Katie Melua á sviði

Katie Melua; Thank you StarsAðalmálið var auðvitað Katie. Ég hef aldrei heyrt svona mikla rödd í svona lítilli konu. Hún er örugglega minni en Brynhildur Guðjónsdóttir sem söng Edith Piaf hér um árið. En röddin, frá lægsta hvísli og upp í feikilegan kraft sem maður skynjar miklu betur á tónleikum en þegar maður hlustar á plötur. Sem sagt bara gaman, eins og Emblan segir, sem ég hefði auðvitað gjarnan vilja hafa með mér í kvöld. Hún tók þrjú aukalög, enda vel fagnað; Eitt sem kemur út á 'single' á næstunni og eitt sem ég hef ekki heyrt og minnti mig mikið á Janis Joplin og þar sem ég hef ekki hundsvit á tónlist - þá ætla ég að spá því að hún muni finna sig í einhverstaðar þeirri áttinni - rokkaðri en samt aldrei fjarri kassagítarnum.

Fyrir lokalagið hvarf bandið á braut og Katie stóð ein á sviðinu með gítarinn; ég verð að viðurkenna að þannig finnst mér hún áhrifaríkust. Hún tók lagið I Cried for You, sem endar á orðunum: "Beauty need only be a whisper" Það var einhverveginn alveg fullkomið.


Embætti er ekki einstaklingur

Það hryggði mig mjög að heyra svör þeirra og þá sérstaklega Ingibjargar Sólrúnar; það er eins og hún skilji ekki grundvallaratriði málsins. Þetta snýst ekki um persónu Björgvins G. eða það hvort hann sem einstaklingur er búinn að stands sig í starfi, né heldur um Árna M. Ef þeir tveir vissu ekki um Icesave reikningana þar sem lágu meiri peningar en ríkissjóður veltir og vissu ekki um þær ábyrgðir sem á Íslendingum hvíldu þá brugðust embættin - og þeir sem handhafar embættanna eiga að víkja fyrir hönd embættanna. Þeim hefði átt að vera gert aðvart um þetta af embættismönnum - sem þeir bera ábyrgð á; sú staðreynd að embættismennirnir brugðust fríar þá ekki ábyrgð, heldur þvert á móti. það eru fjölmörg dæmi um það í vestrænum ríkjum að ráðherrar segi af sér vegna klúðurs embættismanna - vegna þess að menn viðurkenna þessa ábyrgð sína.

Það getur verið beinlínis stórhættulegt ef menn skilja ekki þennan greinarmun sem er á embætti og þeirri persónu sem gegnir embættinu hveru sinni. Þannig er ráðherra sem slíkur ábyrgur, hægt er að fara í mál við ráðherra og ráðherra getur orðið skaðabótaskyldur, en það dettur engum í hug að sá einstaklingur sem í embættinu væri bæri persónulega ábyrgð og þyrfi t.a.m. að greiða skaðabætur úr eigin vasa. Nei ráðherra er í þessum skilningi eins og sjálfstæða persóna önnur og óháð persóna þeirri sem starfinu gegnir. En sá sem starfinu gegnir ber pólitíska ábyrgð - og nú er tími til kominn að menn axli þá ábyrgð og vil trúa því ennþá Ingibjörg Sólrún geti haft forgöngu þar um. Á því veltur hennar pólitíska framtíð.


mbl.is Vegið ómaklega að ráðherrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... eru það ekki jólasveinar sem koma af fjöllum?

Þessi fyrirsögn lýsir eflaust ástandinu afar vel og kannski til marks um að mbl.is ætli að fara að stunda alvöru blaðamennsku með ákveðnum spurningum og jafnvel sjálfstæðum fréttaskýringum. Það er vel.

Þetta vekur um leið spurningar um ráðherrana sem í hlut eiga. Það eru yfirleitt jólasveinar sem koma af fjöllum - ekki ráðherrar nema þeir séu ekki starfi sínu vaxnir. Fjármálaráðherra sem veit ekkert um hvað er að gerast í þeim hluta hagkerfisins sem er orðinn margfalt umfang ríkisins - tja er hann ekki hálfgerður jólasveinn sem ætti ef til vill bara að fara til fjalla aftur, fram að næstu jólum.


mbl.is Ráðherrarnir koma af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála; við þurfum utanaðkomandi aðstoð

Ég er sammála Tryggva um flest það sem kemur fram í góðu viðtali við hann í sunnudagsmogganum. Það er kjörumhverfi núna fyrir bæði mistök og spillingu sem geta gert ill verra og við þurfum aðstoð. Það er engin minkun að því að leita sér aðstoðar þegar maður er veikur og búinn að tapa. Það eru þrjú meginatriði í málinu eins og ég sé það:

Í fyrsta lagi þurfum við utanaðkomandi aðstoð við að komast að því sem gerðist. Það er ekki til sá Íslendingur sem hefur nægilega þekkingu og skilning á þessum hulduheimum fjármálakerfisins að hann sé ekki með beinum eða óbeinum hætti tengdur því sem þar var að gerast. Því verðum við að leita til erlendan aðila til að leiða hér sannleiksnefnd og þeir verða að hafa erlenda sérfræðinga sem hafa ekkert haft með Ísland að gera. Jafnframt þurfum við að fá erlenda bankamenn inn í íslensku bankana og alveg sérstaklega verðum við að ráða útlendinga sem bankastjóra nýju ríkisbankanna. Á því veltur trúverðugleiki þeirra; það dugar ekki að dubba upp millistjórnendur úr gömlu bönkunum, sem voru hluti af þeim leik sem leikinn var. Við erum sammála um að það þurfi að breyta leiknum og þá fáum við ekki gamla leikmenn til að stýra því. Og fyrir mitt leyti geri ég kröfu um það að nýju bankastjórarnir séu sæmilega minnisgóðir og vil ekki að fyrir mína hönd sitji sem fólk sem getur gleymt 180 milljón króna eigin fjárfestingu.

Í öðru lagi er þurfum við ástandið ekki eins slæmt og margir vilja vera láta og Tryggvi fer ágætlega yfir allt það í viðtalinu. Það er frálett að líkja þessu við móðurharðindin: Fólk mun ekki deyja umvörpum í vetur úr sulti og veikindum eða kulda og vosbúð. Margir hafa tapað fé - líklega flest okkar a.m.k. í gegnum eign okkar í lífeyrissjóðum - og öll munum við þurfa að borga meira í afborganir af lánum og fyrir okkar neysluþörfum. Þeir sem hafa misst vinnuna munu fara verst út úr þessu og forgangurinn á að vera í að hjálpa þeim. En ég er sammála Tryggva um að vinnumarkaðurinn er mjög sveigjanlegur og atvinnuleysi verður ekki eins skelfilegt og t.d. var í Finnlandi. Erlent vinnuafl fer til sín heima, sumir setjast á skólabekk og þar ætla háskólarnir m.a. að hjálpa til. Og sumir munu fara að vinna önnur störf en hugur þeirra stendur til. En þótt að nýútskrifaður arkitekt fari að vinna á leikskóla eins og kom fram í sjónvarpsfréttum í gær, þá eru það engin móðurharðindi. Raunar er það fullsæmandi starf fyrir hvern sem er að vinna með börnum. Fyrir okkur hin, sem höldum vinnunni, er bara að takast á við þetta eins og fólk á öllum tímum og í öllum löndum hefur þurft að gera - menn minnka eyðsllu og neyslu. Fáar þjóðir hafa trúlega haft úr eins miklu að moða og við í upphafi kreppu og Íslendingar nú. Mér þykir líklegt að þó ekki yrði fluttur einn einast nýr bíll, nýtt raftæki eða fatapjatla í marga mánuði - býður enginn af því varanlega skaða.

Í þriðja lagi er það langtímahagsmunirnir. Ísland á að sækja um aðild að ESB - núna. Þær hremmingar sem hafa gengið yfir sýna vel hversu erfitt það er að reynast okkur að halda uppi öllu því sem fylgir því að vera þjóð. Það eru allir sammála um að stoðkerfið brást - Seðlabankinn, fjármálaeftirlitið o.s.frv. - en það hefði ekki getað brugðist með þessu hætti ef við hefðum verið hluti af ESB. Þannig er aðild að sambandinu ákveðin vörn eða trygging gegn eigin veikleikum og vangetu. Það kann að vera sárt fyrir fólk að viðurkenna það, en 300.000 manns stendur ekki undir öllu því sem krafist er af þjóðríkjum í dag; Yfirstjórn og stjórnsýslu, fjármálaumhverfi og eftirlitskerfi, utanríkisþjónustu og virkri alþjóðlegri þátttöku, svo ekki sé minnst á samfélagslega innviði eins og mennta- og heilbrigðiskerfi eða ytri innviði eins og vegi brýr og hafnir í landi sem er jafnt stórt og England. Við verðum annað hvort að endurskoða alveg hugmyndir okkar um hversu stórast Ísland getur í raun verið og sníða okkur stakk eftir þeim vexti eða taka þátt í samstarfi fullvalda ríkja innan ESB - þar sem okkar hefur farnast vel fram til þess. Þar held ég að hagsmunum okkar væri best borgið. Ég sé ekki betur en Tryggvi sé sammála þessu sjónarhorni.


mbl.is Kjörumhverfi fyrir spillingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

með Starfsmenntaverðlaunin fyrir Járnsíðuna. Þið eruð vel að þessu komin.
mbl.is Starfsmennt og Samskip hlutu Starfsmenntaverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband