Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Góður fundur - endurnýjun Samfylkingarinnar er vonandi hafin

Ég er örugglega ekki einn um það að taka almennt ekki mikið virkan þátt í starfi þess stjórnmálaflokks sem ég þó tel mig tilheyra. Ég tók stoltur þátt í að stofna Samfylkinguna á sínum tíma og síðan hef ég látið nægja að greiða árgjaldið mitt  - nema hvað ég hef mætt á landsfund einmitt til að velja nýjan leiðtoga.

En ég fór á fund Samfylkingarinnar í kvöld til að ákveða hvort ég ætti að segja mig úr flokkunum eða ekki. Mér til mikillar ánægju uppgötvaði ég eitthvað sem mig svo sem grunaði - að það hefur myndast merkileg gjá; annars vegar forysta Samfylkingarinnar og þingmenn og hins vegar eru allir hinir flokksmennirnir. En í kvöld gat ég ekki betur séð en á fundinum væru flestir þingmenn Samfylkingarinnar í Reykjavík og ég treysti því að þeir vinni í anda þess skýra vilja sem fram kom á fundinum. Ef þeir gera það ekki, nú þá stend ég aftur frammi fyrir þeirri spurningu innan fárra daga hvort ég eigi að segja mig úr flokknum eða ekki. Munurinn er sá að þá veit ég að ég verð síður en svo einn í þeim vangaveltum.


mbl.is Samþykktu ályktun um stjórnarslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagur vonar

Í dag tók nýr forseti við í Bandaríkjunum sem kjörinn var til að gera breytingar og við hvern miklar vonir eru bundnar, bæði þar innanlands og ekki síður um veröld alla. Sjaldan hafa verið jafn miklar vonir bundnar við embættistöku nokkurs manns. Þennan sama dag, 20. janúar 2009, var einnig dagur vonar á Íslandi þótt undarlegt kunni að virðast. Það felst von í þeim viðbrögðum sem almenningur sýndi með því að mæta með potta og pönnur og láta Alþingismenn heyra hug sinn. Almenningur krefst þess að fá að kjósa - að fá að tjá reiði sína með einu lýðræðislegu leiðinni sem til er. Þau mótmæli standa enn núna nærri tólf tímum seinna.

Það setti jafnframt svartan blett á daginn hvernig lögreglan stóð að málum við Alþingishúsið og handtók á þriðja tug manna og virðist hafa gengið harðar fram en nauðsynlegt var og beitti kylfum í fyrsta sinn um langa hríð. En líklega hefur það fyrst og fremst þau áhrif að herða enn á mótmælunum. Það var a.m.k. hvötin til þess að ég fór niður á Austurvöll eftir 10 fréttir í kvöld; ég vildi sjá með mínum eigin augum íslenska óeirðalögreglu. Það var engin gleðisjón og ég er mjög hugsi yfir því að sjá röð lögregluþjóna í tvöfaldri röð verja inngang að nýrri hluta Alþingishúsins. Hér er þjóð í miklum vanda og ljóst að leiðtogar okkar eru ekki að valda þeim vanda.

En það var ekki hnýpin þjóð sem var að mótmæla. Það var glaðvært ungt fólk sem barði bumbur, dósir og dollur og bætti á bálið sem logaði glatt. Sumt missti sig í kæti og dansaði kringum bálið og gleðin hún spratt af því að geta tjáð sig og því að finna fjörkrafta lífsins bærast í brjóstinu og að taka virkan þátt í götulýðræði. En kringum unga fólkin var stór og þéttur hringur af fólki á mínum aldri sem tók hógværlegar undir, en kyrjaði þó: „Vanhæf ríkisstjórn". Hún er líka óhæf, sem sést á því hvernig hún hefur höndlað þau óskaup sem hafa gengið á.

Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar kemur fram í áramótaávarpi og segir „hafi mér orðið á mistök, þá þykir mér það leitt" ... þá er eitthvað alvarlegt að: Geir, ekki bara öll þjóðin að þér undanskildum, heldur umtalsverður fjöldi fólks í öðrum löndum, veit sitthvað og eiginlega heilan helling um þín mistök. Á gamálskvöld var þinn síðasti möguleiki til að biðja þjóðina afsökunar undanbragðalaust og tilkynna svo einhverja þá tiltekt og aðgerðir sem hefðu vakið okkur tiltrú á að þú skyldir vandann og værir fær um að takast á við hann.

3213346053_3ec5708c04Þegar hinn forystumaður ríkisstjórnarinnar fer að þræta við þjóðina um að hún sé ekki þjóðin, þótt hún standi frammi fyrir 1% kosningabærra manna - tja þá horfi maður nú á einhvert skeliflegasta pólitíska sjálfsmorð sem ég hef séð. Ég studdi þessa konu eindregið í embætti formanns greiddi henni atkvæði. Framganga hennar á þeim borgarafundi var forkastanleg og síðan hefur hún ítrekað þessi hrokafullu viðhorf. En hún átti einnig möguleika á að biðjast afsökunar á þessu og þeim sofendahætti sem einkenndi Samfylkinguna mánuðina fyrir efnahagshrunið. En hún kaus að gera það ekki og þar með stimplaði hún sig út úr íslenskri pólitík.

Þau eru svo mörg ef-in að ég verð óskaup dapur að hugsa um þetta; ef Geir og Ingibjörg hefðu nú borið gæfu til þess að koma fram saman í lok október og tilkynna uppstokkun í ríkisstjórninni þar sem fjármalaráðherra og viðskiptaráðherra væri vikið úr stjórninni, uppstokkun í stjórn Seðlabanka og Fjármalaeftirliti, ásamt því að sett hefði verið saman nefnd alþjóðlegra hagfræðinga og annara sérfræðinga til að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis - og jafnframt að Geir myndi leggja til við flokksþing Sjálfstæðisflokksins að farið yrði í aðildarviðræður við ESB, og hefði ég og eflaust hálf þjóðin gefið þeim tækifæri fram á vorið að minnsta kosti. Nú er þetta orðið of seint; jafnvel þótt þau tilkynni þessar aðgerðir á morgun, þá er það orðið of seint. Í stjórnmálum skipta tímasetningar lykilmáli og þeirra tími er liðinn. Ég spái því að bæði verði horfin úr stjórnmálum innan skamms.


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin þarf að sættast við þjóð sína en ekki siga á hana óeirðalögreglu

Þjóðin var við Alþingi í dag og ríkisstjórnin þarf að sættast við þjóð sína. Forsætisráðherra sem ekki vill ræða við fjölmiðla og felur sig bak við lögreglu, fremur en ræða við þjóð sína er kominn í vond mál. Hann á bara tvo kosti núna: Rétta út sáttahönd til þjóðarinnar með því að hreinsa til í kringum sig og láta þá fara sem mesta ábyrgð bera á klúðrinu og setjast svo niður og ræða í alvöru við almenning. Eða segja af sér sjálfur og boða til kosninga.

Ef hann gerir ekkert þá sýður upp svo um munar innan fárra daga. Ég hvet þó alla til að halda stillingu sinni og gefa Sjálfstæðismönnum andrými fram yfir landsfund.


mbl.is Lögregla beitir úða og kylfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér líst vel á Obama

Honum mæltist vel Barack Obama í ávarpi sínu til þjóðarinnar og heimsins kannski ekki síður. Kannski að honum takist að endurreisa leiðandi stöðu Bandaríkjamanna í heiminum með ábyrgari utanríkisstefnu og samráði við aðrar þjóðir. Kannski er tími þeirra liðinn og hlutverk hans verður að finna þeim nýtt hlutverk sem eitt af stórveldunum, en ekki lengur Stórveldið.

Það var næstum að maður vorkenndi Bush fjölskyldunni við þessa athöfn. Óvinsælasti forseti Bandaríkjanna virtist jafn ráðviltur og utanveltu og hann hefur verið síðustu 8 árin og honum fylgdu ellihrumir haukar í hjólastól sem verður nú rúllað út úr bandarískum stjórnmálum. Það fögnuðu margir þegar Bill Clinton gekk á sviðið, en ekki nokkur sála þegar George W. Bush kom fram.

En nú er þessum dapra kafla lokið og vonandi tekur nú við tími breytinga og meiri bjartsýni í Bandaríkjunum. Maður óskar þeim bara góðs gengis.


mbl.is Obama: „Við erum reiðubúin að leiða á ný“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af þessum heimi og öðrum

Síðustu þrjá dagana hef ég átt þess kost í annað skiptið að stíga út úr minni venjulegu veröld og inn í raunverulegan sýndarheim EVE-online. Það er merkileg reynsla fyrir alla að kynnast þessum heimi og kannski sérsaklega fyrir fólk eins og mig sem aldrei hef komist upp á lag með að spila tölvuleiki.

Þannig er mál með vexti að CCP fyrirtækið sem skapaði sýndarheiminn EVE, ákvað fyrir hart nær ári að boða til lýðræðislegra kosninga í leiknum, þar sem leikmenn gátu valið sér 9 manna fulltrúaráð, sem heitir því hógværa nafni „Council of Stellar Management" og er alltaf kallað með stuttnafni sínu CSM eins og reyndar flest í þessari veröld. Kjörtímabil hvers ráðs er 6 mánuðir og hver fulltrúi getur bara gefið kost á sér til endurkjörs einu sinni. Helsta verkefni þessa fulltrúaráðs er að taka við ábendingum frá spilurum leiksins um það sem betur má fara eða bæta við leikinn til að gera hann ennþá áhugaverðari. Fulltrúaráðið ræðir þessar ábendingar sín á milli á vikulegum fjarfundum inn í EVE veröldinni og tvisvar á kjörtímabilinu hitta þeir fulltrúa fyrirtækisins; er annar fjarfundur en hinn haldinn á Íslandi.

Ég var beðinn að vera fundarstjóri í júní á síðasta ári þegar fyrsti fundurinn í raunheimum var haldinn hér á landi og svo aftur núna þegar fulltrúaráðið kom til Íslands. Sem heimspekingi fannst mér ómögulegt að segja nei við þessari bón. Það sem ég sá strax var þessi samlíking: Þetta er eins og jarðarbúum gæfist kostur á að velja níu fulltrúa til að fara og hitta guð! Hvað myndum við vilja ræða við guð og hvernig gengi 9 manna hópi að forgangsraða því sem væri tekið á dagskrá?

Þetta hefur gengið mjög vel; skipulagið  er þannig að fulltrúaráðið ræðir þær tillögur sem berast og ef nógu margir í ráðinu eru því sammála, þá er það sett á dagskrá. Þegar síðan dregur að fundi með fulltrúum fyrirtækisins greiða þau atkvæði með því að forgangsraða hvert um sig þeim málum sem þau vilja taka upp og úr því verður til forgangsraðaður listi. Hver atriði fær síðan úthlutað 20 mínútum þótt reyndin sé sú að sumt er rætt lengur og annað gengur hratt fyrir sig. Á þeim þremur fundum sem haldnir hafa verið, hefur fulltrúaráðið komið með yfir 100 atriði sem ræddir hafa verið; allt frá einföldum tæknilegum ábendingum yfir í mjög umfangsmikla umræðu um hvernig orsakalögmálið virkar í þessum sýndarveruleik.

Það sem mér finnst ekki síst áhugavert er að skoða einstaklingana sem þarna veljast.  Breiddin er mikil. Þannig sat ég til borðs með fjórum fulltrúum í kvöldverði og þar var mér á aðra hönd sannkristinn bandaríkjamaður á fertugsaldri, sem fór með sína borðbæn áður en hann tók til matar síns - en er víst býsna lunkinn í að skjóta niður geimskip og slunginn í viðskiptum líka. Á hina hönd sat kona á mínum aldri; hún stýrir rúmlega 100 manna fyrirtæki í EVE en er tölvuráðgjafi í raunheimum og vann eitt sinn hjá Microsoft fyrirtækinu og býr einnig í Bandaríkjunum. Hún er með meira ein 20 karaktera í gangi í leiknum - marga þeirra gerólíka sem genga ólíkum hlutverkum. Ég spurði hana hvort hún ruglaðist aldrei á hverjum og einum en svo var ekki, jafnvel þótt hún verði að gæta sína á ferðum um alheiminn því þegar hún rekst á samspilara sína þá ýmist heilsar hún þeim með virktum eða skýtur á þá allt eftir því hver hennar karaktera er á ferðinni. Á móti mér sat ung hollensk stelpa sem er að klára nám í tölvuleikjahönnun og útskrifast í vor. Hún er alger einfari leiknum og tekur ekki þátt í fyrirtækjarekstri og stórum bandalögum sem þar tíðkast - en var þrátt fyrir það endurkjörin sem fulltrúi þeirra í leiknum. Til að fullkomna breiddina við borðið var þar danskur strákur sem einnig var á síðara kjörtímabili sínu þótt hann sé rétt að verða 18 ára. Hann er mikill iðnjöfur í leiknum og kemur á framfæri sjónarmiðum þeirra sem njóta þess að stunda umfangsmikil viðskipti fremur en standa í miklum bardögum sem er helsta áhugamála annarra.

Æ já, það var fínt að fá smá hvíld frá okkar kalda veruleika og ræða um stund um hvernig orsakalögmálið virkar í sýndarveröld skiptir suma meira máli en hin raunverulega.


Rabbað um Evrópumál

Fór í spjallþátt til Kolfinnu Baldvinsdóttur á miðvikudaginn, sem núna er kominn á netið hjá ÍNN sjónvarpsstöðinni fyrir þá sem kannski sjá ekki þá stöð frekar en ég. Smellið hér til að hofa.

Þetta var skemmtileg reynsla að fá svona langt viðtal og áhugavert því ég vissi í raun ekkert hvað við ætluðum að ræða þegar við byrjuðum annað en það yrði um ESB. En það er alltaf gaman að taka þátt í svona grasrótarstarfi eins og þessi sjónvarpsstöð er.


Völd og áhrif í Brussel

Erindi flutt á fundi á vegum Evrópusamtakanna og Stofnunar í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands, 13. janúar 2009

Góðan daginn - áhugafólk um Evrópuumræðuna

Eins og Björn vék að í kynningunni á mér, þá hef ég lengi tekið virkan þátt í Evrópsku samstarfi og meira að segja búið í skrifræðisbjörgunum í Brussel um þriggja ára skeið. Ég hef hins vegar ekki tekið virkan þátt í opinberri umræðu um kosti þess og galla að sækja um aðild að Evrópusambandinu - utan örfáar bloggfærslur, sem fáir hafa lesið. Og ætla heldur ekki að fjalla um það í dag, heldur einbeita mér að tveimur spurningum: 1) höfum við haft einhver áhrif í því evrópusamstarfi sem við höfum tekið þátt í fram til þessa og 2) „hvað-ef við göngum í ESB" spurningin. Mun það einhverju breyta fyrir örþjóðina Ísland?

En svo þið velkist ekkert í vafa um hvaðan ég kem mig varðandi ESB aðild, skal ég byrja á svolítilli persónulegri játningu. Fljótlega eftir að ég var kominn í fullt starf við að stýra evrópsku verkefni árið 1992 - fyrir 16 árum síðan - og þá hóf ég að fylgjast vel með því sem var að gerast í Evrópumálum. Kynni mín af evrópskum  kollegum og atburðarásin öll sannfærðu mig um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Ísland gengi í ESB, því mér fannst rökin fyrir því að vera svona hálfur í dyragættinni með annan fótinn inn en hinn fyrir utan, aldrei mjög sannfærandi. Svo ég fór að bíða eftir aðild, og leið svo og beið. Mín pólitíska einfeldni breyttist í kaldhæðið raunsæi eftir því sem árin liði, því aldrei kom Godot ... þannig ég er löngu hættur að bíða og kannski orðinn svolítið sinnulaus um það hvenær mín þjóð gerir upp hug sinn hvort hún vill vera eða fara. Ég held ég skilji orðið vel hvernig jómfrú Ingibjörgu leið þar sem sat í festum á Íslandi í 12 ár á meðan unnustinn freistaði þess að frelsa landið í Kaupmannahöfn ... og hvernig tilhlökkunin og ástarbríminn hlýtur óhjákvæmilega að hafa dofnað eftir því sem árin liðu.

Svo til að fyrra mig vonbrigðum hef ég tónað talsvert niður væntingarnar sem ég hef til þess hvort við gerumst aðilar og hvað gerist í kjölfarið, ef af aðild verður. Enda þekki ég gallana ekki síður en kostina orðið nokkuð vel. Evrópusambandsaðild er engin töfralausn - eða einnar nætur gaman, svo ég haldi áfram með samlíkinguna - heldur langtíma­samband sem menn verða að fara inn í af heilum hug ef þeir gera það á annað borð. Ég er enn þeirrar skoðunar, þótt af mér sú nú æskubríminn, að þegar allt er saman tekið þá sé það skynsamlegasti kostur Íslendinga að gerast fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Og þar hafið þið það.

Markmið mitt hér í dag er sem sagt ekki að sannfæra ykkur um að við eigum að ganga í ESB - heldur að fjalla um þá spurningu hvort aðild að ESB muni einhverju breyta fyrir völd okkar og áhrif á gang mála. Ég ætla að snúa erindinu á haus og byrja á niðurstöðunum - eða þeim megin skilaboðum sem ég hef fram að færa við ykkur - og reyna síðan að renna stoðum undir þessar skoðanir mínar.

Slide2

Þetta vildi ég sagt hafa ...

Í fyrsta lagi: Áhrif á vettvangi ESB ráðast í mörgum málaflokkum - etv flestum - af málflutningi og rökum en ekki stærð landsins sem flytur málið; ekki frekar en mittismál eða háralitur (nú eða skalli) ráða áhrifum sem fólk hefur í Brussel.

Í öðru lagi: Íslendingar hafa haft miklu meira en 0.06% áhrif í því samstarfi sem við höfum tekið þátt í frá 1994. Þessi sérkennilega tala stendur fyrir hlutfallslega stærð okkar; við erum 320.000 en íbúafjöldi í ESB er um 500 milljónir manna.

Í þriðja lagi: Til að hafa áhrif verða menn að eiga sæti við borðin þar sem ákvarðanir eru

  • a) mótaðar af sérfræðingum,
  • b) undirbúnar af embættismönnum og
  • c) endanlega teknar af stjórnmálamönnum

Í fjórða lagi: Ef við göngum í ESB munum við fá sæti við fleiri borð en við sitjum við núna ....

Slide3 

Af því leiðir ... að möguleikar okkar til áhrifa í Brussel verða mun meiri ef við göngum í Evrópusambandið. Þetta er mitt svar við þeirri spurningu sem var varpað fram af fundarboðendum - mun það einhverju breyta ef við göngum í ESB? Já það mun breyta mörgu og eitt af því er að möguleikar okkar til áhrifa munu aukast. Það kann að hljóma einkennilega í eyrum þeirra sem óttast fullveldisframsal - að ég tel að möguleikar okkar til áhrifa á eigin málefni munu aukast með aðild. EES samningurinn felur það í sér að við þurfum að framfylgja mörgum ákvörðunum sem við höfum afmörkuð áhrif á í dag og þau áhrif verða meiri við aðild.

Það felst jafnframt í fyrsta punktinum að „veldur hver á heldur"; það felur ekki í sér sjálfkrafa aukin áhrif að fá sæti við fleiri borð eins og ég mun víkja nánar að síðar. Möguleikarnir munu aukast, það held ég sé óumdeilt, en það er okkar að nýta þá möguleika. Eins og nýleg dæmi sanna, þá er ýmsu hægt að klúðra og það á örugglega við um aild að ESB líka.

Rökin fyrir fyrstu niðurstöðu minni liggi í eðli ákvarðanatöku á vettvangi ESB: Reynt er eftir megni að ná fram samstöðu fulltrúa ríkjanna um þær ákvarðanir sem teknar eru. Í því felst að þegar sest er niður við fundarborðið, þá hafa allir sama tillögurétt og málfrelsi og geta beitt sér með þeim hætti sem þeim þykir henta í umræðum og samningum um mál. Fulltrúar landanna eru misjafnir, mis vel undirbúnir og hafa mis mikinn stuðning frá stjórnsýslu sinna landa - en formlega séð eru möguleikar þeirra allra til áhrifa jafnir. Það er afar sjaldgæft að greidd séu atkvæði, þótt auðvitað sé það svo að stóru ríkin hafa mun sterkari samningsstöðu en þau minni í krafti atkvæða sem þó þarf sjaldan eru nýtt.

Ég byggi þetta ekki á einhverjum formalisma eða kenningum, heldur langri persónulegri reynslu. Ég er ekki einn um þessa skoðun; ég hef orðið vitni að því oftar en einu sinni - hversu hissa óreyndir fulltrúar Íslands í evrópsku samstarfi eru stundum þegar þeir uppgötva að á þá er hlustað með sömu athygli og fulltrúa stórþjóðanna og að þeir geta haft áhrif á málalyktir.

Mig langar að nefna nokkur dæmi um með hvaða hætti við Íslendingar höfum látið til okkar taka í Evrópsku samstarfi. Ég tek það sem stendur mér næst og ég þekki best - árangur okkar í samstarfsáætlunum ESB á sviði menntunar og menningar, rannsókna og vísinda. Á grundvelli EES samningsins þá erum við fullgildir aðilar að fjölmörgum samstarfsáætlunum þannig að reynslan af þeim hlýtur að hafa eitthvert forspárgildi um hvernig okkur gæti gengið að seilast til áhrifa við fulla aðild að ESB.

Til að byrja með þá er frá því að segja að árangur okkar hefur verið góður á mjög mörgum sviðum - það held ég sé einnig tiltölulega óumdeilt. Í yfirliti sem ég vann fyrir Evrópunefnd síðustu ríkisstjórnar dró ég árangurinn saman með eftirfarandi hætti:

„Í öllum þeim áætlunum sem Ísland hefur tekið virkan þátt í hefur árangurinn verið góður eða frammúrskarandi hvort sem miðað er við hlutfallslega þátttöku eftir mannfjölda, árangurshlutfall í umsóknum eða hvernig gengur að fá til baka það fé sem greitt er í þátttökugjald í formi styrkja."

Ég færi margvísleg töluleg rök fyrir þessu sem ég ætla ekki að rekja hér ... enda geta menn lesið þetta í viðauka með skýrslu Evrópunefndarinnar. Til fróðleiks má geta þess - fyrir þá sem þekkja lítið sem ekkert til þessara áætlana - að heildarfjöldi þátttakenda í verkefnum og þá sérstaklega margvíslegum mannaskiptum fer örugglega yfir 20.000 manns í ár, sem samanlagt hafa tekið þátt frá 1994. Fjárhagslegt umfang þessarar starfsemi er líka umtalsverð og þannig hefur t.a.m. starfsmenntaáætlunin ávallt verið að veita hærri styrki á hverju ári en innlendir sjóðir til styrktar starfsnámi og þróun nýjuga á því sviði. Í ár greiðum við hálfan annan milljarð í aðildargjald (sem er mikil hækkun frá fyrra ári vegna gengisþróunar) en sem fyrr er ekki ástæða til að ætla annað en við fáum talsvert meira til baka. Þannig að umfangið er talsvert - þótt það kunni að virðast lítið í þeim ógnartölum sem eru í umræðunni þessa dagna.

Slide4

Okkur hefur sem sagt gengið vel og þá sérstaklega í menntun, menningu og æskulýðsstarfi, vísindum og tækniþróun. En ég vil staldra við orðið virka þátttöku. Það hefur nefnilega verið þannig þessi núna 15 ár sem við höfum tekið fullan þátt í fjölskrúðugri flóru samstarfs­áætlana sem EES samningurinn gefur kost á að við tökum þátt í - að virkni okkar er misjöfn. Í sumum samstarfsáætlunum er fyrirkomulagið og stuðningur við framkvæmd af hálfu ESB mjög skýr og settar hafa verið upp hér s.k. landsskrifstofur til að þjóna áætlunum. Í þeim áætlunum gengur vel. Í öðrum tilvikum er það ákvörðun í hverju landi fyrir sig hvernig stuðningi er háttað og þá hefur stundum hent að áætlanir hafa lent ofan í skúffu hjá einhverjum embættismanni sem ekki hefur tök á því að sinna kynningu á möguleikunum sem felast í viðkomandi áætlun eða aðstoða umsækjendur. Þá er árangurinn miklu minni - eins og gefur að skila. Ég held það sé ekki síður lexíu að finna í því sem ekki hefur skilað eins miklum árangri: Og hún er ... „Veldur hver á heldur" - árangurinn og áhrifin eru að mestu undir okkur sjálfum komin.

Ég nefni sem dæmi svokölluð tilraunaverkefni í Leonardó starfsmennta­áætluninni sem reyndar heita núna yfirfærsluverkefni afþví það heyrir til míns friðar. Af einhverjum ástæðum gekk vel strax í upphafi árið 1995 að fá íslenska aðila til að sækja um styrki í samstarfsverkefni og taka að sér að stýra samstarfi nokkurra ríkja í hverju verkefni. Umsóknir voru senda til Brussel og metnar þar og okkar fólki gekk vel og við fengum talsvert af styrkjum til landsins. Síðan var reglum breytt þegar tvær áætlanir voru sameinaðar í eina menntaáætlun þar sem framkvæmdin er öll færð á heimslóð árið 2007. Um leið var ákveðin fjárveiting fyrir hvert land og þá var miðað við höfðatölu og svo fyrri styrkveitingar. Samkvæmt höfðatölureglunni ættum við að hafa til ráðstöfunar rúmlega 50.000 evrur í þennan flokk - sem myndi ekki einu sinni duga fyrir einu verkefni, þannig líklega fengum við eitthvað meira í krafti smæðarinnar. En á grundvelli sóknarárangurs fáum við 775.000 evrur til úthlutunar og getum styrkt fjögur stór verkefni árlega.

Og svo ég haldi áfram á heimaslóð; í gær og í dag stendur yfir fundur 11 landskrifstofa menntaáætlunar ESB hér á Íslandi vegna þess að við leiðum samstarf þessara skrifstofa um það að koma niðurstöðum ákveðinna tegunda af verkefnum sem styrkt voru á framfæri. Afhverju erum við að því? Ekki af því við séum svo stór. Ekki af því að við séum með formennsku í ESB - heldur skipuleggjum við samstarf skrifstofanna og síðan verður haldin stór ráðstefna í byrjun júni í Prag - sem er hluti af formennsku dagskrá Tékka. Við gerum þetta vegna þess að við höfum lengi haft frumkvæði í samstarfi landskrifstofanna. Við gerum það vegna þess að frumkvæði okkar var vel tekið af öðrum og við höfum sinnt okkar störfum vel og því er okkur treyst til að leiða samstarf. M.ö.o. við höfum haft eitthvað fram að færa. Fyrir vikið höfum við mjög mikil áhrif á þessu mjög þrönga sviði og á hvaða áherslur verða lagðar sem aftur kann að skila sér inn í vinnuáætlanir næstu ára í menntamálunum. Sem sagt áhrif okkar eru ekki í neinu samræmi við einhverja höfðatölu heldur höfum við þau áhrif sem framlag okkar gefur tilefni til. Veldur hver á heldur - segi ég enn og aftur.

Nú eru þessi dæmi sem ég hef nefnt fram að þessu ekki stórt í hinum pólitíska samhengi - ekki af þeim toganum að fjölmiðlar eða meiri háttar stjórnmálamenn hafi af því áhyggjur. Svo við skulum taka annað dæmi sem svo sannarlega hefði getað komið talsvert við kaunin á okkur Íslendingum. Á síðkvöldi 29. nóvember árið 2000 fékk þáverandi utanríkisráðherra Íslendinga Halldór Ásgrímsson, upphringingu frá áhyggjufullum fiskmjölsframleiðanda að austan. Sá hafði fengið þær fréttir að til stæði að banna fiskimjöl í öllu dýrafóðri í Evrópu vegna kúariðufaraldurs sem þá geisaði. Hér voru miklir hagsmunir í húfi og höfðu embættismenn verið að vinna í málinu tvær vikurnar á undan við að koma íslenskum sjónarmiðum á framfæri. Í kjölfarið á símtalinu var öll íslenska utanríkisþjónustan í Evrópu virkjuð sem aldrei fyrr og hefur verið skrifuð um þetta skemmtileg og vönduð ritgerð í bók um krísustjórnun. Þar kemur fram að menn völdu réttu aðferðafræðina, þ.e. lögðu áherslu á efnisleg rök málsins sem voru þau að kúariða finnst ekki í fiskmjöli og því eru ekki rétt að setja fiskimjöl og beinamjög í sama flokkinn. Til að gera langa sögu stutta, þá tókst að koma þessum málflutningi til skila - mestan partinn eftir diplómatískum og nær eingöngu óformlegum leiðum. Viðbrögð Íslendinga skiptu sköpum hér og ákvörðun sem tekin var af ráðherraráðinu 4. desember 2000 var á þá leið að fiskimjöl var undanþegið banni í dýrafóðri. Lexían var þessi: með mjög samstilltu átaki var hægt á nokkrum sólarhringum að koma efnislegum rökum málsins á framfæri við æðstu fulltrúa þeirra þjóða sem síðan tóku ákvörðun í máli sem var á þeim tímapunkti mjög í brennidepli og undir sviðsljósi fjölmiðla þannig að þrýstingur var á þá að taka ákvörðun sem gekk mjög gegn hagsmunum Íslands.

Sú spurning hefur vaknað hjá þeim sem nú taka virkan þátt í umræðunni um Evrópumálin - m.a. hjá fulltrúum í Evrópusnefnd Sjálfstæðisflokksins - hvort aðild að ESB myndi nokkru breyta um þátttöku okkar í þessum áætlunum sem ég hef verið að fjalla um. Svar mitt er afdráttarlaust játandi og mig langar að rökstyðja það betur annars vegar með þeim breytingum sem eru að verða á samstarfs­áætlunum ESB og hins vegar með vangaveltum um borð og stóla.

Ísland, Noregur og Sviss eru ekki einu löndin sem taka þátt í stóru samstarfsáætlunum ESB á sviði menntunar, vísinda og tækniþróunar. Umsóknarlöndin hafa ávallt verið velkomin og þannig taka nú balkanlöndin og Tyrkland þátt í þeim, en einnig lönd eins og Sviss og Ísrael í rannsóknunum. Í ráði er að Rússland gerist einnig virkur aðili að rannsóknasamstarfinu og hefur Evrópusambandið bæði vísindalegar og pólitískar ástæður til að vilja nánara samráð við rússa. En fyrir þá sem taka þátt í samstarfinu en eru ekki í ESB fylgir nokkur böggul skammrifi hér, því fram til þessa hefur ESB gjarnan vilja hafa þessa „aukaaðila" sem þátttakendur í margvíslegri stefnumótun sem tengist þessum málaflokkum. Þannig höfum við Íslendingar haft aðgang að samráðsferli ESB á sviði menntunar, vísinda og nýsköpunar í tengslum við svokallað Lissabon ferli sem felur í sér sameiginlega markmiðssetningu, viðmið, gæðamælingar, samanburð og gagnkvæman lærdóm - sem öll miða að því að ná þeim pólitísku markmiðum að gera Evrópu að samkeppnishæfara þekkingarsamfélagi en það var um aldamótin. Þetta höfum við nýtt okkur í menntamálunum en síður í vísindamálunum. En nú er farið að þrengjast um þátttöku okkar í þessu ferli - amk í rannsóknasamstarfinu - vegna þess að rússarnir eru að koma - eins og það er orðað í Brussel - þá eru ESB ríkin að draga skýrari mörk milli ESB annars vegar og þeirra ríkja sem þau eiga samstarf við hins vegar. Og öllum er ljóst hvar Ísland lendir í þeim dilkadrætti.

En nú ætla ég að tala um fundarborð og stóla og athuga hvar við eigum nú víst sæti. Í skrifræðisbjörgunum í Brussel snýst nefnilega allt um fundi, svo mjög að halda mætti að það væri sjálfbær atvinnuvegur þar í borg.

Slide5

Hér sjáum við myndir úr JL húsinu eins og það er kallað af Íslendingum - Justice Lipsum - þar sem ráðherraráðið fundar og svo úr Borchette fundamiðstöðinni, þar sem mér varð einhverntíma á orði að þar hefðu dagar lífs míns lit sínum glatað. Þar hafa fjölmargir fulltrúar Íslands setið á fundum ... og svo skemmtilega vill einmitt til að þessi mynd er af fundi dýralækna sérfræðinefndarinnar sem fjallaði um loðnumjölsmálið.

Slide6

Ég reikna með að þið þekkið öll grunn uppbyggingun á ESB: Til samans mynda Evrópuþingið, Ráðherraráðið og Framkvæmdastjórnin burðarvirkið í Evrópusambandinu. Til viðbótar er svo Evrópudómstóllinn og fleira sem ég sleppi alveg að fjalla um í dag. Þetta eru þau stóru fundaborð sem eigum ekki sæti við.

Slide7

Til að minna okkur á að þetta eru ekki einhverjir abstrakt kassar, þá er þetta „bákn" samráðsvettvangur 500 milljón manna samfélags - sem kýs sína 785 fulltrúa á Evrópuþing; kýs auk þess þing í hverju landi fyrir sig sem aftur velja ríkisstjórnir í þessum 27 sjálfstæðu ríkjum sem fara með æðsta vald ESB í ráðherraráðinu og þeim ákvörðunum sem þessar lýðræðislega kjörnu stofnir taka er síðan fylgt eftir af framkvæmdastjórn sem stýrt er af 27 fulltrúum sem valdir eru af þeim sömu ríkisstjórnum og sitja í ráðherra­ráðinu.

Evrópuþingið

Við skulum byrja á Evrópuþinginu; Fulltrúarnir 785 skipa sér í 8 pólitískar fylkingar og auk þess er einn hópur til viðbótar fyrir þá sem eru „óháðir". Á vegum þingsins starfa síðan bæði fastanefndir sem fjalla um allt það samstarf sem á sér stað á vettvangi ESB og síðan tilfallandi vinnunefndir um nýja tillögugerð frá framkvæmdastjórninni eða annað sem rétt þykir að ræða fyrst við smærri fundarborð en þetta stóra í Strassburg. Við Íslendingar eigum ekki sæti við neitt þessara borða.

Þá að ráðherraráðinu - sem mestu ræður því þar liggur vald til að stoppa allar tillgögur sem aðildarríkin geta ekki fallist á. Eins og fyrirsögnin í Mogganum orðaði það núna 9. janúar: „Á endanum ráða aðildarríkin för."  Og ekki lýgur Mogginn eins og við öll vitum.

Ráðherraráðið

Við Íslendingar eigum sæti við tvö borð þarna. Annað er CREST, ráðgefnadi nefnd fyrir ráðherraráðið í vísinda- og tækniþróunarmálum. Hitt er í gegnum Schengen, sem er sér kafli út af fyrir sig þar sem við erum fullgildir aðilar og er ekki sem slíkt formlegur hluti af ESB. Mig grunar reyndar að hægt væri að halda ansi sannfærandi fyrirlestur um að við munum hafa alla burði til að beita okkur á áhrifaríkan hátt ef við göngum í ESB, ef við berum okkur eins fagmannlega að því eins og við höfum gert í Schengen samstarfinu þar sem við höfum borið mikla ábyrgð og axlað hana það best ég veit með mikilli prýði. En um það eru aðrir bærari til að fjalla, svo ég sleppi því sem kunna þó að vera ein bestu rökin.

Ég hef heldur ekki vikið einu orði að Héraðanefndinni - til að flækja mál mitt ekki um of. En ég fékk símtal frá fulltrúa íslenskra sveitarfélaga í Brussel í morgun og hún vildi endilega að ég léti þeirra getið og þess að þar höfum við lítil áhrif í dag, enda engan formlegan aðgang að samstarfi sveitarfélaga í Evrópu, en myndum fá fullan aðgang ef við göngum í ESB. Þeirra mat er að ef við berum okkur að eins og hinar Norrænu þjóðirnar og forgangsröðum þeim málaflokkum sem við viljum beita okkur í, getum við haft mikil áhrif. Við Anna Margrét voru líka sammála um það orðspor þjóða í málaflokk og burðir þeirra einstaklinga sem við teflum fram sem fulltrúum okkar ræður miklu um áhrif okkar.

Hluti af starfi mínu sem vísindafulltrúi út í Brussel - reyndar flestra sem þar störfuðu - fólst í því að reyna að komast að hvað var að gerast í vinnunefndum ráðherraráðsins þegar nýmæli voru á döfinni. Um það höfðum við gott samstarf við Noreg og Sviss, en það má með nokkrum rétti líkja starfi okkar við gluggagæjur; við vorum alltaf fyrir utan að gæjast á glugga eða leggja eyrað að skráargatinu til að hlerað umræðurnar fyrir innan þangað sem okkur var ekki hleypt. Og af því ég er búinn að nefna fiskmjölsdæmið fræga, þá er ekki í vegi að benda á að hafði áhrif í því máli að í krafti CREST og Schengen, þá hafa íslenskir dipómatar aðgang að JL húsinu, þar sem ráðherraráðið hittist. Og þegar landbúnaðraráðherrarnir hittust 4. desember árið 2000 voru íslenskir diplómatar inní byggingunni fyrir utan fundarherbergið - þar sem þeir áttu ekki sæti - og gripu hvern þann ráðherra og ráðamann sem kom fram til að fá sér sígarettu eða taka áríðandi símtal - og komu okkar rökum á framfæri. En slíkt er hlutskipti sendifulltrúa þeirra ríkja sem eru bara í dyragættinni - að húka fyrir utan fundarstað eins og einhver grúppí í von um að ná tali af ráðamönnum sem með valdið fara. En þarna stóð okkar utanríkisþjónusta sig með mikilli prýði.

Slide10

En víkjum þá að framkvæmdastjórninni - þar eru 27 kommissarar og verða ekki fleiri þótt fjölga muni í klúbbnum. Þeir stýra rúmlega 30 skrifstofum sem eru ígildi ráðuneyta. Þar höfum við stundum átt starfsfólk í tímabundnum stöðum og reyndar er einn „Íslendingur" þar í föstu starfi. Þetta eru skrifstofur sem fara með málefni menntunar, rannsókna og vísinda, upplýsingatækni, heilbriðismál og svo sjávarútvegurinn.

Slide11

Þá komum við loksins að þeim borðunum sem flest eru og þar sem við eigum sæti - auðkennd með rauðu, en fjöldinn er bara fyrir myndræna framsetningu og hefur ekkert vísindalegt gildi. Hér er um að ræða stjórnarnefndir áætlana og stofnana sem við tökum þátt í, s.s. í menntun og rannsóknum, matvælaeftirliti eða menningarsamstarf; þar undir er svo t.d. úthlutunarnefndir, fagráð af ýmsum toga og lok eru smætu punktarnir hinar ýmsu sérfræðinga- og vinnunefndir þar sem mál eru undirbúin og framkvæmdastjórnin leitar eftir sérfræðiráðgjöf frá löndunum. Nú er svo langt um liðið að ég man ekki fjölda þessara nefnda og tókst ekki að finna töluna á vefa EFTA í gærkvöldi enda breystist fjöldinn ört - en þær sem við höfum aðgang að í gegnum EES skipta par hundruðum; en við höfum ekki nýtt þann aðgang nema að hluta til. En þar sem við höfum ákveðið að taka þátt og varið til þess fé og tíma, þá veit ég ekki til annars en reynslan hafi verið sú að okkur hafi gengið vel að koma okkar sjónarmiðum á framfæri og áhrif okkar því talsverð.

Ein lítil skemmtisaga því til rökstuðnings - sögð eftir besta minni: Í kjölfar hryðju­verkanna í september 2001 komu fram tillögur á vettvangi ESB um að herða flugöryggi og ræddu sérfræðingar málin í viðkomandi sérfræðinganefnd sem síðan kom fram með tillögur. Meðal þeirra var tillaga um að setja gegnumlýsingartæki á alla flugvelli. Fulltrúi samgönguráðuneytis fékk pata af þessu og áttaði sig strax á að þetta gæti nú verið heldur íþyngjandi eins og það heitir á stofnanamáli. Hann færði því rök fyrir þeirri afstöðu Íslands að setja bæri neðri mörk, því augljóslega ætti þetta ekki við um smærri flugvelli. Ekki voru viðbrögðin nógu jákvæð og þá var gripið til annars konar málflutnings - utan við fundarborðið: Fulltrúum frá Brussel var boðið til Íslands og brunað út á Reykja­víkur­flugvöll. Hér er okkar stærsti flugvöllur sögðu menn og hér er rétt og skylt að huga vel að öryggis­málum og kaupa dýr gegnumlýsingartæki. Síðan var sest upp í vél Flugmálastjórnar og flogið norður á Akureyri. Þetta er nú næst stærsti flugvöllurinn sögðu menn - kannski gætum við fallist á að hér sé rétt að fjárfesta í tækjum og þá sérstaklega m.t.t. þess að svolítil millilandaumferð er þarna. Þaðan lá leiðin á Sauðárkrók og íslendingarnir sögðu; er nú ástæða til að fjárfesta fyrir milljónir hér? Því til áréttingar var næst flogið út Húnaflóann og lent á Gjögri. Voru þá farnar að renna tvær eða jafnvel þrjár grímur á erlendu sendinefndina sem sá að líklega hefðu Íslendingarnir sitthvað til síns máls. Til að reka endahnútinn á röksemdafærsluna var síðan komið við á Rifi á Snæfellsnesi á leiðinni í bæinn, en þar mun vera einn af fáförnustu flugvöllum landsins. Þar segir sagan að hafi byrjað samningar sem enduðu með því að kröfur ESB giltu bara á flugvöllum þar sem umferðin var yfir ákveðnum mörkum. Þessi óvenjulegi málflutningur skilaði þannig þeim árangri sem að var stefnt.

Það er bjargföst sannfæring mín að það gildi á mjög mörgum sviðum evrópusamstarfsins að áhrif okkar hafi ekki verið í neinu samræmi við einhverja höfðatölu heldur í samræmi við framlag okkar, málflutning og hvernig við höfum staðið okkur. Það eru svið þar sem ég efast um að við getum ráðið miklu - þannig munu áhrif okkar á ákvarðanir um heildarfjárlög ESB ekki verða mikil, umfram það að verja vel rökstudda þjóðarhagsmuni okkar. Þar er heldur ekki verið að höndla með mjög mikla hagsmuni okkar; heildarfjárlög ESB geta ekki orðið hærri en sem nemur 1.24% af þjóðarframleiðslu ESB ríkjanna, þannig að umfangið verður aldrei nema mjög lítið brot af almennum opinberum umsvifum.

Ég tel að eitt þeirra sviða sem við gætum vel haft áhrif á langt umfram nokkurn höfðafjölda - sé einmitt sjávarútvegurinn þar sem hagsmunir okkar eru ríkir. Afhverju eru íslensk stjórnvöld ekki búin að bregðast við þeirri beiðni ESB að við sendum til starfa sérfræðinga við sjávarútvegsdeild ESB til undirbúnings endurskoðun á sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins, sem réttilega hefur verið gagnrýn hér á landi. Ég kaupi ekki þau rök að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki efni á að greiða einum eða tveimur sérfræðingum laun eða við megum enga missa til Brussel. Eru stjórnvöld kannski hrædd um að það kæmi í ljós að ef við erum með góð gögn, góðan málflutning, og sanngjarnar og framkvæmanlegar skoðanir, þá yrði á okkur hlustað svo um munar og þar með væri botninn dottinn úr þeirri meginröksemd andstæðinga að ESB aðild að við missum völdin yfir sjávarútveginum? Eða hafa menn ekki meiri trú á sérþekkingu okkar og árangri í stjórnun fiskveiða en svo að þeir þori ekki að flytja hana út? Spyr sá sem ekki veit.

Slide13

Á þessari mynd eru allir punktar í sama lit - á meðan á hinni fyrri vour nokkrir rauðir. Ef við förum af hliðarlínunni og göngum í ESB þá fáum við okkar sæti við borð ráðherraráðsins, sem eitt af þeim fullvalda ríkjum sem þar sitja; við munum geta valið fulltrúa á Evrópuþingið - og þótt þeir verði bara 5 þá munu þeir geta haft áhrif í málaflokkum þar sem við kjósum að beita okkur. Og þá munum við hafa annars konar aðgang að framkvæmdastjórninni og eiga starfsfólk í flestum stjórnarskrifstofum þess. Við munum m.ö.o. eiga rétt til setu við sérhvert fundarborð í Brussel. Ég fæ því ekki með nokkru móti séð að hægt sé að halda því fram með haldbærum rökum að við munum engin áhrif eða völd hafa innan ESB; heldur þvert á móti þá munum við verða valdamesta þjóð í Evrópu ef við göngum inn - miðað við okkar heimsfrægu höfðatölu að sjálfsögðu!

Þá vil ég enda eins og ég byrjaði sem sé á niðustöðum mínum:  

Slide14

Í fyrsta lagi: Það er skoðun mín byggð á margra ára reynslu inní Brusselbjörgum að áhrif á vettvangi ESB ráðast á mörgum sviðum af málflutningi og rökum en ekki stærð landsins sem flytur málið.

Í öðru lagi: Íslendingar hafa haft miklu meiri áhrif í því samstarfi sem við höfum tekið þátt í frá 1994 en höfðatalan segir til um.

Í þriðja lagi: Til að hafa áhrif er æskilegt - en ekki altaf nauðsynlegt - að eiga sæti við borðin þar sem ákvarðanir eru

  • mótaðar af sérfræðingum,
  • undirbúnar af embættismönnum og
  • endanlega teknar af stjórnmálamönnum.

Í fjórða lagi: Ef við göngum í ESB munum við fá sæti við fleiri borð en við sitjum við núna.

Ég vona að mér hafi tekist að sannfæra ykkur um þetta áheyrendur góðir ...

Slide15   

... og þá um leið að ef við göngum í ESB þá munu möguleikar okkar til áhrifa aukast til mikilla muna. Það er svo aftur annað mál að veldur hver á heldur, eins og ég þreytist ekki á að segja: Ef við sinnum þessu illa, sendum fólk sem hefur ekki til þess faglega burði sem fulltrúa okkar til Brussel, fólk sem situr heimóttarlegt og þegjandalegt við fundar­boðin þá munu áhrif okkar ekki aukast. En það er þá ekki ESB eða skipulaginu sem slíku að kenna, heldur okkur sjálfum. Ef við ætlum að hafa áhrif, verðum við að vera góðir málafylgjumenn, koma með góðar röksemdir og mynda bandalög um margvísleg málefni. Við þurfum að forgangsraða málefnum; hvar ætlum við að beita okkur og hvar ætlum við að reiða okkur á önnur ríki. Og síðast en ekki síst, við verðum að temja okkur virka þátttöku í „samstöðu" ákvarðanatöku - þar sem enginn einn ræður. Þrátt fyrir að maður sé kannski heldur svartsýnn á margt í augnablikinu hér á Íslandi, þá bendir a.m.k. reynsla mín til þess að við sem þjóð séum vel fær um að takast á við það verkefni.

Og í þeim bjartsýnisanda vil ég enda þessa tölu á því að bjóða ykkur velkomin á kynningu um evrópusamvinnu sem haldin verður í Háskólatorgi núna á fimmtudaginn. Nú sem aldrei fyrr eiga tækifæri evrópskrar samvinnu erindi við okkur Íslendinga.

Slide16

 


Völd og áhrif í Brussel

Ég byrja árið á því að bjóða lesendum þessa bloggs á erindi um völd og áhrif í Brussel - þar sem ég mun fjalla um reynslu mína af því hvaða áhrif við höfum haft fram til þessa sem þátttakendur í evrópsku samstarfi á fjölmörgum sviðum og velti fyrir mér hvað muni breytast ef við göngum inn.

Auglýsing 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.