Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Brandari eða yfirbreiðsla?

Þessi ummæli eins reyndasta saksóknara í efnahagsbrotamálum hljóta að kalla á spurningu sem er svolítið óþæileg fyrir síðustu ríkisstjórn og þá Sjálfstæðismenn sérstaklega sem fóru með þennan málaflokk. Hvort voru þeir menn sem ákváðu - eftir hreint ótrúlega umþóttunartíma - að hafa embættið, umsvif þess og fyrirkomulag með þeim hætti sem ákveðið var a) skelfilega einfaldir og því ekki starfi sínu vaxnir, eða b) beinlínis og vitandi vits að gera rannsóknina eins máttlitla og mögulegt er.

Ef svarið er a), þá getum við þó glaðst yfir því að þeir eru ekki lengur í aðstöðu til að ráða þessum málum og við erum a.m.k. komin með faglegan erlendan ráðgjafa - sem vonandi leiðir til þess að ráðinn verði alvöru saksóknari með alvöru reynslu við hliðina á þessum prúða pilti ofan af Skaga. Ef svarið er b), þá verður bara enn meira sem embætti hins sérstaka saksóknara þarf að rannsaka.


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjustefna með slæmum afleiðingum

Stefán Ólafsson var mjög góður á þessum fundi. Hann var kannski ekki að segja margt nýtt nema í lokin. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2007 og þá sérstaklega eftir 1995, jókst ójöfnuður í landinu í þeim skilningi að þeir sem hæstu tekjurnar höfðu fengu æ stærri hlut af heildartekjunum og nærri tvöfölduðu sinn hlut. Allt í boði skýrrar og yfirlýstrar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessu þarf að halda til haga í komandi kosningum; það var ekki fólkið sem brást, heldur er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn tefldi fram og sú frjálshyggjutilraun sem hann fékk að gera með íslenskt samfélag, meginskýring þeirra ófara sem íslenskt samfélag rataði í.

Samhliða æ meiri ójöfnuði í tekjum manna var skattkerfinu breytt þannig að það ýtti undir og magnaði þennan ójöfnuð þannig að þeir tekjulægstu greiddu æ hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta og þeir tekjuhæstu æ lægra hlutfall. Þetta sýndi síðan Indriði enn betur fram á í sínum fyrirlestri. Það sem var nýtt - fyrir mig a.m.k. - var að þessi þróun stöðvaðist árið 2007 og var snúið við árið 2008 þegar Samfylkingin var komin í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Stóra verkefnið framundan hjá jafnaðarmönnum er að leiðrétta þessa öfugþróun - alveg sérstaklega hvað varðar jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Ég fyrir mitt leyti skorast ekkert undan því að taka á mig auknar skattbyrgðar.


mbl.is Hrunin frjálshyggjutilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

fólk = Davíð og Geir

Þetta er athyglisverð rassskelling á núverandi og fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins; þeir hefðu að ósekju mátt benda á hið augljósa að fólkið sem mest brást voru formennirnir Davíð og Geir. Davíð þó öllu meir ef marka má skýrsluna. Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðismenn að hefja eigin endurreisn á því að viðurkenna þetta og segja opinberlega. Tímasetningin er varla nein tilviljum heldur; Davíð loksins kominn úr Svörtuloftum þar sem hann hefur gert hver mistökin á fætur öðrum á stuttum ferli Seðlabankastjóra og Geir á leiðinni í veikindafrí.

En í þessu felst svolítið mikið sjálfsafneitun að segja að ekkert hafi verið rangt í stefnunni; Sjálfstæðismenn hafa haldið um stjórnartaumana síðan 1991 og á þeim tíma hefur samfélagið allt þróast á máta sem við í dag erum að endumeta því það kom í ljós að eitthvað mikið var að. Það var ekki bara að nokkrir kallar gerðu mistök og nokkrir aðrir sem reyndust of gráðugir, heldur dönsuðu alltof margir með í kringum gullkálfinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn sló taktinn í þeim dansi. Það þarf hann að horfast í augu við og viðurkenna. Fyrr er honum ekki treystandi til að koma aftur að stjórn landsins.


mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband