Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Póstkort frá Berlín

memorial-1Ég fór og skoðaði minnismerkin um myrta gyðinga í Evrópu í dag. Var ögn neikvæður fyrirfram og hugsaði að einungis þjóðverjum dytti í hug að þekja heila ekru með steypuklumpum. En þetta eru ekki bara ferkantaðir klumpar, heldur óreglulegir og sumir hverjir skakkir á gólffleti sem bylgjast, rétt eins og lífið sjálft. Svo fór ég úr sólinni og niður í iður jarðar til að muna og reyna að skilja. Já og til að gráta - en á því átti ég ekki von. Man ekki eftir því áður að hafa staðið á safni og tárast með ókunnugu fólki yfir því sem þar bar fyrir augu.

Mér fannst sýningin sterk og afar áhrifarík í einfaldleika sínum. Hún víkkar verulega sýn manns á helförina gegn gyðingum, sem í mínum huga eins og svo margra eflaust var bundin við útrýmingarbúðir Nasista í Austur-Evrópu. En helförin átti sér stað út um allt og það voru ekki bara allra verstu SS böðlarnir sem tóku þátt í henni, heldur venjulegir karlar út um alla Evrópu. Eiginmenn og feður af mörgum þjóðernum sem skutu með köldu blóði ekki hermenn með fullvæpni, heldur naktar varnarlausar konur og börn þeirra. Menn sem lýstu því stoltir við kvöldverðarborðið hvernig þeir hefðu tekið þátt í drápunum og viðurkenndu að höndin hefði verið óstyrk á rifflinum þegar fyrsti hópurinn var skotinn, en þegar kom að tíunda bílfarminum var höndin stöðug og miðið fumlaust. Einnig þegar börnin voru skotin - stundum fljúgandi í loftinu á leið í vota fjöldagröf.

Það er myndaspyrpa þarna frá Sdolbunov, sem núna er í Úrkaínu, sem sýnir er konum og börnum var smalað ofnan í gil og þeim skipað að afklæðast. Síðan sjást konurnar naktar í biðröð dauðans, haldandi á þann verndandi hátt sem mæður gera um ung börn og láta þau grúfa höfuðið í hálsakot svo þau sjái ekki og viti ekki  hvað bíður. Svo nakin lík eins og saltfiskur breiddur til þerris og eitt barnið hefur risið upp til hálfs - því skotið geigaði. En yfir stendur karlmaður með riffil og ætlar greinilega að hitta í þetta sinn. Hvernig getur nokkur manneskja losnað svo úr tengslum við mennsku sína að geta skotið nakta og varnarlausa konu sem heldur á enn varnarlausara barni?

"Það er annar heimur hér. Það má svo sem kalla hann helvíti, en helvíti Dantes er fáránlega fyndið í samanburði við þennan veruleika. Og við erum vitnin, við sem ekki fáum að lifa." (Chaim Hermann, 6. nóvember 1944).  

Mér leið ekki vel þegar ég kom upp í skæra vorsólina aftur, en ég er glaður ég fór. Við hin sem fáum að lifa í friðsæld og vellystingum þurfum að muna og vita hvað manneskjan er fær um á sínum bestu sem verstu stundum.


Íslandshraðlestin

152440225_58fdffafa0_mÞetta er mín tillaga að íslensku nafni á Iceland Express. Flaug með þeim síðdegis beint til Berlínar og leið eins og í hraðlest allan tímann. Var hæfilega seinn fyrir og því gekk ég beint að innritunarborðinu og þurfti ekkert að bíða. Nóg var skilvirknin í endurnýjarði flugstöð og búið að opna meiripartinn af henni núna. Ferðalagið til Berlínar gekk hratt og fumlaust fyrir sig og nákvæmlega á áætlun.  Það er eiginlega lúxus sem maður er orðinn óvanur að geta flogið beint á endanlegan áfangastað.

Alveg eins og hið gamla þjóðarstolt okkar Flugleiðir er tvítyngt og heitir bæði Flugleiðir og Icelandair, þá finnst mér að Iceland Express eigi að eiga líka íslenskt nafn - og það gæti vel verið Íslandshraðlestin. Það sem ég þekki til þeirra, þá standa þeir undir nafni. Ef ekki, þá blogga ég aftur um þá í lok mánaðrins, því ég þarf að fara þrjá skottúra núna í maí með Íslandshraðlestinni og borga jafn mikið fyrir þá alla eins og einn miða á Saga Class með Flugleiðum.

... svo segi ég eins og Kató gamli; að lokum finnst mér að Íslandshraðlestin ætti að hefja beint flug á Brussel.


10% árangur

Það er til gamall slagari þar sem námsmaðurinn syngur: "Fallinn, með fjóra komma níu".  Kemur upp í hugann þegar hlýtt er á fréttaflutning af niðurstöðu héraðsdóms. Þar  kemur fram sú merkilega hliðarfrétt að ríkið sé dæmt til að greiða 90% af kostnaði verjenda. Sem þýðir þá að dómararnir hafa álitið að 10% af málatilbúnaði hafi átt við nægileg rök að styðjast til að vera réttlætanlegur og þá að 90% hafi verið gönuhlaup í ákæruvaldinu.

Ég sé fyrir mér svalir í borginn (eins og í Boston Legal), þar sem Sigurður Tómas situr í kvöld með wiskey glas í hönd og raular nýjan texta við þennan þekkta slagara:

Fallin, með aðeins einn af tíu
eitt skelfilega skiptið enn.

... ég segi bara svona. Hitt veit ég, að ef ég næði bara 10% árangri í vinnunni minni - myndi ég örugglega missa hana.


mbl.is Dómarnir vissulega vonbrigði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjarni kveður Glitni með reisn

Strákslegur en ærlegur - þannig finnst mér að lýsa megi Bjarna Ármannssyni, þessu undrabarni íslensks fjármálamarkaðar sem hefur vaxið í takt við vöxt fjármálamarkaðarins hér. Hann var að sönnu afar ungur þegar hann tók við stjórnunarstörfum en þau hefur hann leyst vel af hendi. Glitnir - og forverar þess félags - hefur haft þá ímynd síðustu árin að vera traust félag; ekki alveg eins áhættusækið, eins og það heitir á fagmálinu, og KB banki en liprara og sneggra en Landsbankinn. Ímynd bankans er afar tengd forstjóranum og verkefni nýrra eigenda og stjórnenda verður að passa upp á að sú ímynd bíði ekki hnekki. Það kemur hins vegar ekkert á óvart hvernig um þetta er tilkynnt og að Bjarni sjálfur taki þátt í því og muni fylgja eftir þessum breytingum. Það er einhvern veginn í takt við karakterinn.

Þau skipti sem ég hef hitt Bjarna hefur hann komið mér fyrir sjónir sem hress, röskur og hreinskiptinn og hann hefur ekki legið á skoðunum sínum. Mig grunar reyndar að það leynist í honum svolítill kennari og þess vegna gæti leið hans allt eins legið inn á svið stjórnmálanna síðar meir. Líklega hefur hann haft þá ímynd meðal almennings að vera heiðarlegastur af þessara ungu bankastjóra sem ráða svo miklu um líf okkar og velgengi þessa dagana.

Þess vegna hef ég engar áhyggjur af Bjarna - en kannski pínulitar áhyggjur af bankanum; Bjarni mun eflaust fara á hestbak og gera eitthvað sitthvað áður en hann mun aftur láta að sér kveða í íslensku þjóðlífi. En hann mun skjóta upp kollinum í haust og eflaust koma okkur öllum á óvart með því hvar það verður.


mbl.is Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið í kosningaham

Ég hafði ekki tíma til að horfa á Kastljós föstudagskvöldsins - en eftir umfjöllun á blogginu skoðaði ég það á netinu. Einnig einræðu Helga Seljan á fimmtudagskvöldið, sem mér finnst eiginlega hálfu verri, því það er ekki venjan að þar haldi menn einræður, slíkt er gert í fréttatímum en ekki í Kastljósinu. Eins og þetta horfir við mér, þá hefur ritstjóra Kastljósins þótt sem fréttastofan væri ekki starfi sínu vaxin og ákveðið að gera Kastljós að fréttastofu - með afar snautlegum árangri. ... eða hvað?

Hvað gengur þeim til, hugsaði maður fyrst, en svo laust niður í kollinn á mér einu mögulegu skýringunni. Ritstjórinn og Helgi eru með þessu að reyna að hjálpa Framsóknarflokknum í kosningunum eftir nokkra daga: Svona umfjöllun, með illa rökstuddum dylgjum, með ómálefnalegum málflutningu og óvanalega dónalegri og hrokafullri framgöngu getur ekki haft annan tilgang en að fá áhorfendur til að finna til samúðar með Jónínu. Ég trúi því a.m.k. ekki að ritstjórinn og Helgi hafi talið sig vera að sinna fréttamennsku, að upplýsa um eitthvað umfram það sem fréttastofan hefði gert eða bæta einhverjum vinkli við. Ég treysti því einfaldlega að hjá Ríkisútvarpinu ohf. starfi ekki svo óhæft fólk.

Svo hér eru tveir vondir skýringarkostir: Annað hvort eru menn að gera nokkuð sem Kastljósið má ekki gera, nefnilega að reyna að hjálpa einum illa stöddum stjórnmálaflokki með svo óvandaðri umfjöllun að menn slá skjaldborg um þann sem fyrir slíku óréttlæti verður, eða þeir eru einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir og gera sig seka um lákúrulegt og óvandað fjölmiðlaeinelti. Hvor kosturinn er nú verri???


Beam me up - Scotty!

Nú öðlast þessi frægasta setning allra Trekkara alveg nýja merkingu! Nú er Scotty kominn upp og getur svona fræðilega séð sótt okkur á sporbaug jarðar. 427039BFræðilega hugsunin var einföld: Tekin var fullkomin þrívíð mynd af viðkomandi, allar frumeindir líkamans síðan leystar upp og skotið sem samþjöppuðum massa og síðan var þeim raðað upp nákvæmlega eins og þrívíddarmyndin sagði fyrir um. Ég hef því smá áhyggjur að ekki nema hluti af ösku Scotty hafi verið sendur á sporbaug. Það þýðir nefnilega að líklega er ekki hægt að raða honum rétt saman aftur. Frown

En er þetta ekki bara til marks um það að á endanum hermir raunveruleikinn eftir listinni. Þeir sem ekki eru búnir að lesa Love Star eftir Andra Snæ, ættu að drífa í því hið snarasta. Hann sá þetta allt fyrir.


mbl.is Scotty skotið út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listina út á götu og fólkið með

mynde_23196Gott framtak hjá hópnum sem stendur að List á landamæra: Færum listina út á götu og látum sem flesta taka þátt. Sem flesta hefur reyndar alveg sérstaka merkingu hér, því eitt markmiðið með þessari listahátíð er að draga fram list þeirra sem ekki komast í meginstrauminn og hljóta sjaldnast viðurkenningu fyrir list sína. Ekki síðri list það en mörg hámenningin, án þess þó ég treysti mér út í miklar listaskilgreiningar ... hef ekki lyst á því, eða þannig.

Sem sagt gott mál hjá þeim og ég vona að sem flestir hafi haldist í hendur hringinn í kringum tjörnina. Eigum við ekki að endurtaka þetta 6. ágúst í árlegri kertafleytingu?


mbl.is Tekið höndum saman umhverfis Tjörnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér líður strax miklu betur

Valgerður Sverrisdóttir er röggsöm kona. Nú er hún búin að tryggja varnir okkar eftir mikið klúður strákanna Davíðs, Halldórs og Geirs, sem leiddi til þess að landið var orðið varnarlaust. Það tók hana ekki langan tíma að ganga frá þessum samningum og þarna er ekki síður litið til samstarfs í öryggismálum á friðartímum - því líklega stafar okkur meiri ógn af stórum olíuskipum á siglingu undan ströndum landsins en óvinveittum þjóðum eða hryðjuverkamönnum. Ég er sérstaklega glaður að hún skuli ekki hafa samið Svía ... það hefði verið vont til afspurnar ef þeir hefðu nú farið að týna kafbátum líka við Íslandsstrendur.
mbl.is Sameiginleg sýn á þróun öryggismála staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Þorsteinn Ingi!

"Upphefðin kemur að utan" er stundum sagt og það á svo sannarlega við um margt sem snýr að vetnismálunum. Þorsteinn Ingi hefur um árabil verið óþreytandi í rannsóknum og ekki síður áróðri fyrir vetnissamfélaginu. Hann hefur á síðustu árum verið einskonar vetnissendiherra okkar á erlendri grund þar sem hann hefur kynnt hugmyndir okkar og hugsjónir um vetnissamfélag á Íslandi um miðja þessa öld. Þetta skiptir okkur meginmáli, því við munum ekki vetnisvæða Ísland nema stórir alþjóðlegir aðilar taki vel við sér og hefji framleiðslu á samgöngutækjum og þrói geymslutækni og innviði. Við erum hins vegar með kjöraðstæður til að bjóða upp á tilraunasamfélag, sem getur og hefur efni á að ganga feti framar en aðrar þjóðir í þessum efnum. Þetta verkefni hefur átt sér samnefnara í Íslenski nýorku sem hefur verið í framvarðarsveitinni með tilraunir og þróun.

Það var svo sannarlega kominn tími á hamingjuóskablogg - og hver betur að því kominn en Þorsteinn Ingi! Ég fyriri mitt leyti mun beita mér fyrir því að sett verði upp sérmerkt bílastæði hér við Tæknigarð, þar sem aðeins verður hægt að leggja vistvænum vetnisbílum.


mbl.is Þorsteinn: Mun hugsanlega kaupa mér vetnisbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórgóð könnun hjá bjartsýnni þjóð!

Samtök atvinnulífsins eiga hrós skilið fyrir að standa að þessari könnun þar sem skyggnst er lengra inn í framtíðina en menn oftast gera. mbl.is finnst það helst fréttnæmt að yfirgnæfandi meirihluti telur að við verðum komin inn í ESB þá - eða þrír af hverjum fjórum. Mér þykir ekki síður merkilegt að samkvæmt könnunni telja rúmlega 60% Íslendinga að við verðum á toppnum hvað varðar lífsgæði eftir 43 ár. Það lýsir bjartsýnni þjóð, sem hefur trú á sjálfri sér og gerir um leið ráð fyrir því að vera komin í ESB. Sýnir það ekki bara enn og aftur að þjóðin er raunsærri og framsýnni en margir stjórnmálamenn í þessu máli?

Þessi könnun er reyndar áhugaverð fyrir marga hluti aðra en spurningu um ESB aðild. Aðferðafræði hennar er skemmtileg, þar sem annars vegar er almenningur spurður og hins vegar var handvalinn hópur áhrifavalda, en þar í hópi er alþingismenn, stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja, auk fólks úr menningu og listum. Um flesta hluti er góður samhljómur milli þessara tveggja hópa, en ég vek athygli á tveimur atriðum þar sem mikið ber á milli.

Áhrifavaldar telja mun líklegra en almenningur að konum eigi eftir að fjölga mikið í forystustörfum. Það sem verra er, að samkvæmt kynningu á aðalfundi samtakanna í dag, er minnst trú á að þarna muni verða miklar breytingar meðal yngsta aldurshópsins. Það er því verk að vinna að efla sjálfstraust og þor með yngsta fólksins.

Hitt atriðið lítur að ótta manna við að breytt aldurssamsetning þjóðarinn muni kalla yfir okkur margvísleg vandamál og sér í lagi aukna skattheimtu. Meirihluti almennings gerir ráð fyrir að skattar muni hækka en áhrifavaldar hafa meiri trú á getu lífeyriskerfisins til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir. Hér er því verk að vinna við að skýra betur þá fjárfestingu sem þegar er til staðar í íslenska hagkerfinu og sem getur staðið undir verulegum fjárfestingumm og velferðarútgjöldum í framtíðinni.

... það sem uppúr stendur er þó bjartsýnin. Hún verður ekki af okkur skafin. W00t


mbl.is Flestir telja að Ísland verði komið í ESB árið 2050
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband