Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fólksfjöldaflóra

Ungur svertingi brosir við mér þegar ég kem á ráðstefnustað. Hann er í gestamóttökunni, því það fær enginn að fara inn á vel varða lóð Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna nema með gestapassa. „Ah" segir hann og brosir þegar hann fær vegabréfið mitt í hendur: „Eidur Gudhjonsson"  Ég brosi á móti, jú ég kannast við Eið og hann segir mér í óspurðum fréttum að hann sé ánægður með það að strákur skuli hafa ákveðið að vera áfram hjá Barcelóna. Var ekki pabbi hans að ýta á strákinn að færa sig? Ég segist halda að svo hafi ekki verið - og skýt því að ég hafi verið í barnaskóla með pabbanum. Það finnst honum auðvitað skondið og sendir mig skælbrosandi á ráðstefnuna.

Ég gaf mig á tal rauðbirkin mann sem ég sá að starfar við Columbia háskóla, en við viljum rækta sambandið við þann skóla.. „Ah frá Íslandi", sagði hann: „Og hvar heldur Bobby Fisher sig?" Ég laug því að hann héngi á tilteknu kaffihúsi í Reykjavík. „Og hefur þú teflt við hann þar?" Ég hélt nú ekki - bæði væri að Fisher er ekki mikið fyrir að tefla og svo hitt að ég er það ekki heldur. Hann var bæði vonsvikinn og jafnvel hálf hneykslaður á því að ég tefli ekki - hafði greinilega þá mynd af Íslandi að þar tefli allir.

Ungur maður sem starfar við háskólann í Virginu gaf sig á tal við mig þegar hann sá ég var íslenskur. „Ég er Svíi" byrjaði hann og á fjarskylda frænku sem giftist íslenskum sauðfjárbóna. „Hef ekki ennþá haft mig í að heimsækja hana - en lagar til þess."  Ég spurði hann hvort hann væri amerískur ríkisborgari og svarið var athyglisvert: „Ég er ekki viss um að ég vilji vera amerískur ríkisborgari." Þurfti ekki fleiri orð um það.

Hitti breta sem sagðist eiga nóg af peningum, það væri ekki hans vandamál, þegar ég hafði sagt honum að einn stærsti vandinn hjá okkur væri sá að það væri svo lítið fjármagn fyrir hugmyndastigið, áður en búið er að ganga úr skugga um hvort hægt er að stofna fyrirtæki. Þetta sem kallað er proof of concept stigið. Hann er með 30 mkr. í hvert svona verkefni - ef þeir samþykkja það. Bara einn galli á gjöf Njarðar. Þetta er í tæknigarði í Qatar og verkefnin verða að vinnast þar. Svo ef ég er með góða hugmynd og gott fólk sem vill vinna verkefnið í Qatar!

Borðaði hádegismat með tveimur ekki-ameríkönum sem eru samt búnir að vera hér lengi. Alger tilviljum; ég kom mér út með nestispakkann sem ráðstefnugestir fengu sér og tókst að troða mér við eitt af fáum borðum í garðinum: Meira en 25 stiga hiti og ekki annað hægt en að borða úti. Auðheyrt var að hann er frakki. Búinn að búa og vinna í USA í 30 ár en framburðurinn var óumdeilanlega franskur. Hún var frá Búlgaríu og hreimurinn harður þrátt fyrir 15 ára dvöl hér. Ég spurði hana hvort hún væri ekkert á leiðinni heim eftir allar þær breytingar sem þar eru orðnar. Nei varla hélt hún. Jú það væri mikið af tækifærum þar en hún væri búin að vera of lengi í burtu.

Brosandi bandarísk kona sagði mér að sonur hennar hefði verið á Íslandi nú í september í nokkra daga. Eintóm rigning, en hann var mjög hrifinn. Ég spjallaði líka við hana um pólitík því við urðum samferða spölkorn í neðanjarðarlestinni eftir fyrsta ráðstefnudaginn. Háskólamenn eru yfirleitt frjálslyndir -90% er áætlað - og þeir fylgja yfirleitt demókrötum að máli. Furðulegt að heil stór starfsstétt skuli verða svona pólitískt einsleit - en í Ameríku eru bara tvö grunn viðhorf : menn eru annað hvort frjálslyndir eða íhaldsmenn. Kannski er svolítið erfitt að vera vel menntaður, upplýstur og sannleiksleitandi og jafnframt íhaldsmaður - ég veit það ekki. En of mikil einsleitni í skoðunum er aldrei holl.

.... sem ég segi: Maður er aldrei í vandræðum með að hefja samræður við fólk hér í Ameríku þar sem allir hafa skoðanir og athylgisvert sjónarhorn á lífið.


Fangelsisfræði

Stundum rekst maður á tölfræði sem gerir mann kjaftstopp. Þetta er úr Washington Post:

"An August 2003 Bureau of Justice Statistics analysis shows that 32 percent of black males born in 2001 can expect to spend time in prison. That is up from 13.4 percent in 1974. By contrast, 17.2 pecent of Hispanics and 5.9 percent of whites born in 2001 are likely to end up in prison."

Þetta er öllu meira sérkennilegt þegar ég segi frá því að tölurnar eru í dálki sem heitir "The Fact Checker" og þarna er verið að skamma tvo demókrata sem sækjast eftir útnefningu flokksins í forsetakosningunum fyrir að gera of mikið úr vandamálinu og fara rangt með staðreyndir. Sérstaklega var verið að skamma Obama fyrir að segja að það væri fleiri ungir svertingar í fangelsum heldur en framhalds- og háskólum. Það er rangt - það eru "bara" um 200.000 svertingjar á aldrinum 18-24 ára í fangelsi á meðan það eru um 530.000 í námi!  

En ef að sú staðreynd að þriðji hver svartur strákur fæddur árið 2001 á von á að lenda í fangelsi er ekki til marks um verulegt vandamál, tja þá veit ég ekki hvað vandamál er.


Hernaðarfræði

Flaug til Washington í gær og lenti við hliðina á Peter nokkrum, sem var að koma úr tveggja vikna fríi í Skotlandi með konunni. Peter þessi er hermaður en kominn á eftirlaun og við náðum vel saman í spjalli, því hann var í forsvari fyrir rannsóknardeild á vegum hersins í læknisfræði. Var búinn að vera lengi með vinnuaðstöðu hinum megin við götuna þar sem ég verð að funda næstu daga hjá National Institute of Health.

Það er svo gaman að tala við Ameríkana - þeir eru ekki málhaltir og hafa skoðanir á öllu. Og Peter var ekkert að skafa utanaf því þegar kom að bandaríska hernum. Þetta er peningasóun, alger peningasóun og kemur í veg fyrir að bandaríkjamenn geti sinnt þeim brýnu verkefnum sem þarf að sinna heimafyrir - og þar voru honum eðlilega heilbrigðismál hugleikin. Ég sýndi honum forsíðufrétt í einu íslensku blaðanna þar sem sagt er frá því að nú er í fyrsta sinn sérmerktur liður fyrir útgjöld til varnarmála. „Ekki koma ykkur upp her - haldið ykkar striki og takið ykkur Svisslendinga til fyrirmyndar" sagði hann en var dálítið skemmt þegar ég sagði honum að þetta væru nú bara tæplega 10 milljón dollarar sem í þetta færu hjá okkur.

Og svo fórum við að tala um hernaðarfræði og afhverju bandaríska hernum gengi svona illa. Þarna var kall með þrjátíu ára reynslu sem sagði einfaldlega að herinn væri gagnslaus núna: Hann er ennþá miðaður við kalda stríðið og það er eins og menn hafi ekkert lært. Margir í Bandaríkjunum spyrja sig „af hverju lærðum við ekkert á Vietnam?" Það er ekki hægt að sigra léttan og dreifan her sem svífst einskis og gerir leiftursóknir en hverfur svo jafnharðan aftur inn í skóginn eða fjallahlíðar. Þetta ættu bandaríkjamenn að vita betur en aðrar þjóðir því það var með þessu aðferðum sem þeir sigruðu breska herinn á sínum tíma. Þeir ættu því að vera sérfræðingar í þess háttar hernaði en eru það ekki. Þess í stað eru þeir hálf móðgaðir - eins og bretar voru forðum - þegar menn beita þessum aðferðum og kalla alla hryðjuverkamenn. „Nei þetta er ekki að gera sig" sagði kallinn.

Niðurstaðan af samræðu okkar var þessi: Ameríkanar verða á endanum sigraðir með þeirra eigin aðferðafræði skæruhernaðar - óvinurinn, hver svo sem hann nú er, mun læðast aftan að þeim og koma frá hlið og menn munu ekkert skilja hvað gerðist.   


Upprisinn - en ekki á fullum krafti

Eftir tíu daga pillukúr er talsvert farið að réttast úr mér og ég get staðið uppréttur án þess að vera með sérstakt belti um mig miðjan. Get þó ekki sagt að þetta hafi gert mér neitt gott. Fullur dagskammtur af parkódíni gerir mann sljóan, framtakslausan og dapran. Vonandi er þetta að rjátlast af mér - er allavega mættur í vinnuna og byrjaður að ráðasta á það sem þarf að klára áður en seinni hálfleikur í sumarfríi tekur við.

Það er líka rólegt á þjóðlífsvígstöðvunum og því hefur ekki verið mikil ástæða til að vera að kommentera á málefni líðandi stundar. Má þó til með að nefna tvö mál.

Annað er verð á áfengi. Kannski er þetta bara populismi hjá stjórnmálamönnum sem vita að fólk er þessa dagana að bölsóttast yfir verðinu á guðaveigunum með grillmatnum - en vonandi kemur eitthvað út úr þessu og verðlag verður samræmt því sem það er annars staðar á N-Evrópusvæðinu. Neyslustýring gegnum verð virkar ekki nema þá helst í vitlausa átt. Þá er bara að minna viðskiptaráðherra og annað gott fólk á þetta þegar kemur að þingstörfum í haust; það væri ekki amarleg jólagjöf að lækka áfengisgjaldið svolítið í byrjun desember.

Hitt er utanríkisráðherrann okkar. Nú strax er það byrjað að gerast sem mörg okkar óttuðust og er kannski algerlega óumflýjanlegt. Þegar fólk fer í þetta embætti fær það tækifærifæri til að kynnast heiminum á annan og nánari hátt en flest okkar. Og allar venjulegar manneskjur sjá að þessu stóru geopólitísku mál eru miklu stærri og alvarlegri en okkar vandamál og menn fyllast áhuga og eldmóði að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið. Maður þarf eiginlega að vera eitthvað skrýtinn til að þetta gerist ekki. Og nú hefur Ingibjörg Sólrún fengið að kynnast af eigin raun einu af þessum stóru málum sem hafa áhrif á svo margt í stórríkjapólitíkinni og þá mun hún sjá viðfangsefni og vandamál hér á Íslandi í nýju ljósi. Hún er líka nýkomin frá Afríku þar sem vandamálin og viðfangsefnin virðast næstum óleysanleg. Vangaveltur um hátt áfengis- eða matvælaverð verða óskaup hjáróma gagnvart hungri og alvöru eymd. Kröfur um einstaklingsherbergi á elliheimilum hljóma ekki mjög brýnar þegar maður er nýkominn frá landi þar sem fæstir ná því að komast á elliár og elliheimili eru nær óþekkt fyrirbæri. Svo það er bara mannlegt að sjónarhornið og áherslurnar breytist. Við verðum bara að vona að Ingibjörg Sólrún gleymi ekki sínu sögulega hlutverki í íslenskri pólitík, þótt að veraldarsviðið sé vissulega bæði stærra og meira spennandi.


Er eggið farið að kenna hænunni (að reikna)?

Ég heyrði ekki betur en Árni væri að segja Davíð að setjast nú niður að reikna þetta allt uppá nýtt og væri m.a.s. að gefa honum nýja formúlu til að reikna eftir: Minni tekjur af sjávarútvegi = minni þensla = minni þörf fyrir (afar) háa stýrivexti. Sem sagt skilaboðin frá unganum sem eitt sinn var í egginu sem Davíð lá á voru þessu: Hættu nú þessari þrjósku Davíð og lækkaðu vextina!
mbl.is Árni M. Mathiesen: „Enginn verðmiði á mótvægisaðgerðum ríkisins"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of heitt til að blogga

Þessi hluti heimsins varð ekki almennilega byggilegur fyrr en menn fundu upp rafmagn og í framhaldi af því loftkælingu. Þess vegna hefur ekki verið mikið um bogg - hver getur bloggað í yfir þrjátíustiga hita?  Þannig er nefnilega mál með vexti að netið virkar ekki inní húsinu heldur bara úti í apabúrinu eins og við köllum það. Menn og konur hafa þar kraft til að skoða ýmislegt en ekki skrifa mikið. Á daginn það er.  Svo sofa menn þreyttir á kvöldin sem skiljanlegt er.

En áður en um lýkur verðum við að koma veiðisögum á framfæri ... margar saklausar rækjur hafa látið lífið til að við fengum að veiða þann helling sem hér hefur veiðst - mest þó af óvinsællum gaddasnapper sem er samt góður á grillið ef menn sleppa við að gaddana. Lifandi rækjur er eina beitan sem eitthvað virkar hér.

Og svo má maður til með að fjalla um Ameríska fjölmiðla og hvað þar er fjallað um og hvað er ekki fjallað um. En börnin hafa fengið að ráða svolítið ríkjum í sjónvarpsheimi ... baráttan er stundum um CN eða CNN og má ekki milli sjá hvor stöðin stendur sig betur/verr í endurtekningum og innihaldslausu efni.

En meira um það og ameríska eldhúsið síðar (þegar kólað hefur ögn) ... því matur er eitthvað sem stendur manni nærri þegar maður dvelur hér í gnægtarlandinu þar sem borðaðar eru pönnukökur og bláber á hverjum morgni.


Póstkort frá Flórída

"Bráðum kemur ekki betri tíð" söng Ragga Gísla hér um árið og það á líklega við hér í Flórída - því betri getur tíðin ekki orðið. Hiti og blíða alla daga nema þegar þrumuveður hellast yfir okkur með úrhellisrigningu eins og hún gerist mest.

Ferðasagan kemur seinna, en í stuttu máli þá hefur allt gengið samkvæmt áætlun. Fyrsti hluti sumarfrísins er yfirstaðinn. Við tókum fjóra daga í að kanna alla fjóra Disney garðana - og eru nokkrar myndir komnar hér á síðuna því til sannindna. Síðan var verslan svolítið og tekið á móti Emblunni og um helgina síðustu var skipt um íverustað og við færðum okkur frá Orlandó til Cape Coral. Í samræmi við ferðaáætlun var tekin hvíld hér ... enda taka fjórir dagar í Disney og tveir í verslun talsvert á. 

Hér í Villa Foster í Cape Coral höfum við allt til alls og höfum því ekki haft neina þörf fyrir að vera á fartinni, nema auðvitað að fara út á bátnum sem fylgir húsinu og synda í lauginni sem er bæði stærri og dýpri en myndirnar gáfu tll kynna. Svo er líka nettenging hér - þannig að við erum komin í samband við umheiminn aftur. Eftir þrjá daga í hvíld, sundlaugarsvamli og rólegum fiskveiðum, sem skiluðu talsvert meiru en ég átti von á, er mannskapurinn orðinn úthvíldur, hæfilega röndóttur á kroppinn og tilbúinn að takast á við ný ævintýr.  .... en meira um þau síðar.  


Farinn í fríííí

Já sumarfríið kemur snemma í ár. Er farinn með umtalsverðan hluta af fjölskyldunni í frí til Flórída næstu þrjár vikurnar. Fyrst í skemmtigarðana á Orlandó svæðinu og síðan niður að ströndinni Mexíkóflóamegin. Stefnir í stanslausa blíðu og einstaka þrumstorma og regnskúri. Allir fullir tilhlökkunar og kannski náum við að blogga einhverjar ferðasögur og senda nokkur póstkort frá Ameríku. Ef ekki, þá teysti ég því að þið hafið það öll gott á Íslandi ... já og gleðilega þjóðhátíð!

Golfsumarið hafið

Þá er golfsumarið hafið ... seint og um síðir hjá mér. Reyndar tók ég smá forskot á sæluna í Þorlákshöfn í síðustu viku, en ég mátti þakka fyrir að fjúka ekki á haf út, svo það telst eiginlega ekki með. Sumarið hófst á því að keppa í fyrstu umferð í bikarkeppni Flatmaga, sem er golfklúbbur Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Þar sit ég í skólastjórn og er því gjaldgengur í klúbbinn. Í fyrra sigraði ég bikarkeppnina - sem er útsláttarkeppni eins og nafnið ber með sér - sjálfum mér og (sumum) öðrum að óvörum. Þá er náttúrlega málið að endurtaka sigurinn í ár. Skemmst er frá því að segja að ég komst áfram eftir fyrstu umferð og hafði sigur 8-7, eins og ég lærði á golfmáli í dag. Það þýðir víst að ég var búinn að vinna átta holur þegar sjö holur voru eftir (þ.e. eftir elleftu holu) og þar með átti andstæðingurinn sér ekki viðreisnar von. Ég spilaði á 36 punktum - sem ég er afar stoltur af í upphafi sumars og þýðir að ég kem vel undan vetri. 2 hola á Hlíðavelli

Stoltastur er ég af því að hafa parað aðra braut vallarins uppí Mosfellsbæ sem reynist mönnum oft erfið. Upphafið lofar góðu - nú er bara að taka nokkra æfingahringi á meðan á Ameríkudvölinni stendur og mæta svo öflugur til leiks í júlí. Nánar um árangur í annarri umferð síðar.


Til hamingju Þorsteinn Ingi - og Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Það er skammt stórra högga hjá Þorsteini Inga sem nú er staddur í Rússlandi til að veita móttöku einni æðstu viðurkenningur sem Íslendingur hefur fengið fyrir vísinda- og nýsköpunarstarf. Nú tekur hann við sem forstjóri nýrrar og miðstöðvar þar sem sameinast undir einum hatt tæknirannsóknir og nýsköpunarstuðningur. Það er afar ánægjulegt að geta bloggað hér aftur hamingjuóskir til Þorsteins Ings - en það eru bara nokkrar vikur síðan ég óskaði honum til hamingju með upphefðina að utan. Nú kemur upphefðin að innan - eða heiman - og því er ekki síður ástæða til að óska væntanlegu starfsfólki stofnunarinnar til hamingju.

Þá er einnig við hæfi að óska iðnaðarráðherra til hamingju með faglegt val - hér er tæpast um pólitíska skipun að ræða - heldur verið að fá til starfa mann með mikla reynslu á þessu sviði. Þá gleðjumst við háskólamenn einnig yfir þeir yfirlýsingum ráðherrans í dag að hann vilji sjá Nýsköpunarmiðstöðina í Vatnsmýrinni í nábýli við háskólana. Ef svo fer að Nýsköpunarmiðstöð Íslands verður hluti af Vísindagörðum Háskóla Íslands, sem hafist verður handa við að byggja í upphafi næsta árs, er búið að leiðrétta söguleg mistök sem voru gerð fyrir mörgum áratugum. Nú sem aldrei fyrr en þörf á samstarfi og samstilltu átaki allra þeirra sem sinna vísindum, tækniþróun og nýsköpun. Þorsteinn Ingi er rétti maðurinn til að leiða slíkt samstarf.


mbl.is Þorsteinn Ingi Sigfússon ráðinn forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.