Fólksfjöldaflóra

Ungur svertingi brosir við mér þegar ég kem á ráðstefnustað. Hann er í gestamóttökunni, því það fær enginn að fara inn á vel varða lóð Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna nema með gestapassa. „Ah" segir hann og brosir þegar hann fær vegabréfið mitt í hendur: „Eidur Gudhjonsson"  Ég brosi á móti, jú ég kannast við Eið og hann segir mér í óspurðum fréttum að hann sé ánægður með það að strákur skuli hafa ákveðið að vera áfram hjá Barcelóna. Var ekki pabbi hans að ýta á strákinn að færa sig? Ég segist halda að svo hafi ekki verið - og skýt því að ég hafi verið í barnaskóla með pabbanum. Það finnst honum auðvitað skondið og sendir mig skælbrosandi á ráðstefnuna.

Ég gaf mig á tal rauðbirkin mann sem ég sá að starfar við Columbia háskóla, en við viljum rækta sambandið við þann skóla.. „Ah frá Íslandi", sagði hann: „Og hvar heldur Bobby Fisher sig?" Ég laug því að hann héngi á tilteknu kaffihúsi í Reykjavík. „Og hefur þú teflt við hann þar?" Ég hélt nú ekki - bæði væri að Fisher er ekki mikið fyrir að tefla og svo hitt að ég er það ekki heldur. Hann var bæði vonsvikinn og jafnvel hálf hneykslaður á því að ég tefli ekki - hafði greinilega þá mynd af Íslandi að þar tefli allir.

Ungur maður sem starfar við háskólann í Virginu gaf sig á tal við mig þegar hann sá ég var íslenskur. „Ég er Svíi" byrjaði hann og á fjarskylda frænku sem giftist íslenskum sauðfjárbóna. „Hef ekki ennþá haft mig í að heimsækja hana - en lagar til þess."  Ég spurði hann hvort hann væri amerískur ríkisborgari og svarið var athyglisvert: „Ég er ekki viss um að ég vilji vera amerískur ríkisborgari." Þurfti ekki fleiri orð um það.

Hitti breta sem sagðist eiga nóg af peningum, það væri ekki hans vandamál, þegar ég hafði sagt honum að einn stærsti vandinn hjá okkur væri sá að það væri svo lítið fjármagn fyrir hugmyndastigið, áður en búið er að ganga úr skugga um hvort hægt er að stofna fyrirtæki. Þetta sem kallað er proof of concept stigið. Hann er með 30 mkr. í hvert svona verkefni - ef þeir samþykkja það. Bara einn galli á gjöf Njarðar. Þetta er í tæknigarði í Qatar og verkefnin verða að vinnast þar. Svo ef ég er með góða hugmynd og gott fólk sem vill vinna verkefnið í Qatar!

Borðaði hádegismat með tveimur ekki-ameríkönum sem eru samt búnir að vera hér lengi. Alger tilviljum; ég kom mér út með nestispakkann sem ráðstefnugestir fengu sér og tókst að troða mér við eitt af fáum borðum í garðinum: Meira en 25 stiga hiti og ekki annað hægt en að borða úti. Auðheyrt var að hann er frakki. Búinn að búa og vinna í USA í 30 ár en framburðurinn var óumdeilanlega franskur. Hún var frá Búlgaríu og hreimurinn harður þrátt fyrir 15 ára dvöl hér. Ég spurði hana hvort hún væri ekkert á leiðinni heim eftir allar þær breytingar sem þar eru orðnar. Nei varla hélt hún. Jú það væri mikið af tækifærum þar en hún væri búin að vera of lengi í burtu.

Brosandi bandarísk kona sagði mér að sonur hennar hefði verið á Íslandi nú í september í nokkra daga. Eintóm rigning, en hann var mjög hrifinn. Ég spjallaði líka við hana um pólitík því við urðum samferða spölkorn í neðanjarðarlestinni eftir fyrsta ráðstefnudaginn. Háskólamenn eru yfirleitt frjálslyndir -90% er áætlað - og þeir fylgja yfirleitt demókrötum að máli. Furðulegt að heil stór starfsstétt skuli verða svona pólitískt einsleit - en í Ameríku eru bara tvö grunn viðhorf : menn eru annað hvort frjálslyndir eða íhaldsmenn. Kannski er svolítið erfitt að vera vel menntaður, upplýstur og sannleiksleitandi og jafnframt íhaldsmaður - ég veit það ekki. En of mikil einsleitni í skoðunum er aldrei holl.

.... sem ég segi: Maður er aldrei í vandræðum með að hefja samræður við fólk hér í Ameríku þar sem allir hafa skoðanir og athylgisvert sjónarhorn á lífið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband