Færsluflokkur: Ferðalög
Bongóblíða í Brighton
Sunnudagur, 7. desember 2008
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bréf frá Brighton
Sunnudagur, 19. október 2008
Í ljósi hamfara í íslensku efnahagslífi ætla ég að byrja að tjá mig aftur hér á Moggablogginu, þótt umfang og umgjörð þessara hamfara sé með þeim hætti að mann setji hljóðan. En Einar Már rithöfundur hefur rétt fyrir sér - við eigum að ræða málin og taka afstöðu, ekki vera í einhverju póstmódernísku afstöðuleysi.
Ég ætla líka að segja aðeins frá lífi mínu sem doktorsnemi við Sussex háskóla nú fram til jóla og deila með ykkur þeim hugrenningum sem leita á mann við það að dvelja mitt á meðal óvinarins. Ég kom hingað til Brighton nokkrum dögum áður en hamfarirnar höfust af fullum krafti. Þurfti að finna mér húsnæði og koma mér fyrir í algerri óvissu með gjaldeyrismál, en það reddaðist allt". Ég er búinn að koma mér fyrir í lítilli íbúð í eldgömlu húsi niðri í miðbæ og horfi útum stofugluggann minn á bílastæðahús aðal Kringlunnar hér í borg. Ekki að sjá að hér sé skollin á kreppa ef marka má fólksfjöldann sem var að versla nú í dag á sunnudegi. Mér hefur tekist að ná í gjaldeyri með því að taka lítið í einu út af debet kortinu mínu - það er það eina sem virkar ennþá. En það dugar og ég hef nóg að bíta og brenna og hef litlar áhyggjur af eigin högum eftir að mér tókst að greiða húsaleiguna fyrir tímann sem ég verði hér. Mér hefur heldur ekki verið hent út úr neinum búðum eða að mér veist, svo að öllu samlögðu þá amar ekkert að hjá mér.
Það er skrítið að vera Íslendingur í Englandi núna. Kannski er bara skrýtið að vera Íslendingur þessa dagana. Aldrei fyrr hefur mér fundist ég eins niðurlægður. Aldrei fyrr hef ég verið í þeirri aðstöðu erlendis að beinlínis skammast mín fyrir hvaðan ég kem. Þvert á móti hef ég oft notið þeirra forréttinda að vera fulltrúi Íslands á erlendri grund í evrópsku samstarfi og hef alltaf verið giska stoltur af minni þjóð og mínu fólki. En nú er ég hnýpinn og niðurlútur eins og kannski þjóðin þegar ég mæti vorkunarfullu tilliti hjá því fólki sem kemst að því hvaðan ég er. Umfjöllunin um Ísland hefur verið með ólíkindum í breskum fjölmiðlum eins og vel hefur komið fram á Íslandi. Framkoma forsætisráðherra Breta var auðvita fordæmalaus og forkastanleg en við skulum ekki halda eitt augnablik að hún hafi verið algerlega ástæðulaus.
Það var svo til að núa salti í sárin að fá háðuglega útreið í kosningum til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. En átti í alvörunni einhver von á að við myndum ná kjöri þegar því hafði verið rækilega komið til skila í alþjóðlegum fjölmiðlum að Ísland væri gjaldþrota? Varla. Við verðum að átta okkur á því að við erum öllu trausti rúin á alþjóðlegum vettvangi akkúrat núna. Hér skiptir ekki öllu máli hvort það vantraust er verðskulað eða ekki - traustið er farið og við þurfum að endurvinna það. Slíkt tekur tíma og kallar á að við séum trúverðug. Það höfum við ekki verið í augum umheimsins og þar komum við að því sem mér finnst vera kjarni vandamálsins: Alger skortur á fagmennsku.
Það er sama hvar okkur ber niður, allstaðar mætir okkur amatörismi. Hrikalegast hefur auðvitað verið að horfa upp á Seðlabankastjóra sem er ekki starfi sínu vaxinn en er samt ekki látinn taka pokann sinn. En það er nú efni í sér pistil. Nú eða hvernig haldið var á samskiptum við alþjóðlega fjölmiðla þessa daga þegar þjóðarskútan sigldi í strand. Enginn talsmaður ríkisstjórnarinnar sem fjölmiðlar gátu rætt við, enginn faglegur fjölmiðlafulltrúi, ekkert teymi þrautþjálfaðra áróðursmeistara að reyna að lágmarka skaðann - nei eintómt áhugamannaleikhús.
Ég íhugaði það um stund á þessum fyrstu dögum þegar óvissan var sem mest hvort ég ætti að hætta við þessa námsdvöl mína hér í Bretlandi og koma mér bara strax heim. Ég ákvað að halda mínu striki því fjárhagslega afkoma mín og minna var ekki í hættu og ég hafði ekkert sérstakt hlutverk við þær björgunaraðgerðir sem nú standa yfir. Starfið mitt er í góðum höndum þeirrar sem leysir mig af og þótt það hafi komið upp vandamál því við höndlum mikið með evrur þá hefur það allt verið leyst farsællega. Ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt að sem flestir haldi sínu striki og láti þessar hamfarir hafa eins lítil áhrif á áætlanir sínar og kostur er. Eftir allar hamfarir heldur lífið áfram, líka eftir þessar hamfarir.
Um helgina hef ég síðan íhugað hvort ég eigi nokkuð að koma heim aftur. Fumið og ráðaleysið - já þessi skortur á fagmennsku á flestum sviðum gerir það að verkum að manni fallast hendur. Er ekki bara best að forða sér frá þessu sökkvandi skipi og neita að taka þátt í að greiða skuldir sem ég ber enga ábyrgð á að hafa stofnað til? En ég ætla að halda mínu striki hér líka. Mitt verkefni verður að stuðla að því að stefnumótun í grunndvallarþáttum þekkingarsamfélagsins á Íslandi verði faglegri - þ.e. stefnumótun í menntun, rannsóknum og nýsköpun. Um þetta fjallar doktorsrannsóknin mín og það er síst minni þörf fyrir slíkt framlag eftir þessar hamfarir en fyrir.
Síðan ber maður kannski einhverja ábyrgð eftir opinbera þögn og afstöðuleysi. Ég hef unnið að því í sautján ár að greiða götu Íslendinga í evrópsku samstarfi í menntun og rannsóknum og það samstarf hefur reynst gjöfult og jákvætt. Ég hef því orðið mikla reynslu af evrópsku samstarfi og þekki innviði sambandsins betur en margur annar. Mér ber því að taka þátt í þeirri umræðu sem nú hefur fengið aukinn þunga. Þótt mér hafi ekki fundist rétt fram til þessa að tjá mig opinberlega um aðildarumsókn vegna þess að ég er í forsvari fyrir einni af landskrifstofum ESB á Íslandi þá hef ég nú skipt um skoðun. Svo nú tek ég opinbera og einarða afstöðu til þess að Ísland á að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það á að gera strax.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Póstkort frá Feneyjum
Sunnudagur, 21. október 2007
Annir og internetleysi hafa komið í veg fyrir blog - en leið mín lá til Feneyja þar sem ég sótti haustfund félagsskapar þeirra sem fást við tækiyfirfærslu frá háskólum í Evrópu. Þetta er þriðja árið sem ég mæti og þegar farið að spyrja hvort ekki verði haldinn fundur á Íslandi. Vonandi árið 2010 svara ég - þegar risinn verður alvöru Vísindagarður á Íslandi.
Kom síðast til Feneyja fyrir aldarfjórðungi. Fátt hefur breyst - nema ég auðvitað og aðstæður mínar og afstaða. Tók þá viturlegu ákvörðun að gista á hóteli stutt frá Markúsartorginu, fremur en einu af ráðstefnuhótelunum upp á þurra landi. Fyrir vikið þurfti ég að labba mikið og enduruppgötvaði Feneyjar ... sem hafa þetta tímaleysi sem maður finnur á fáum stöðum. Hlustaði á fjárbæra strengjasveit flytja Árstíðirnar eftir Vivaldi og heimsótti safn sem er tileinkað þessum syni borgarinnar sem hlaut mjög takmarkaða upphefð í borginni í lifenda lífi - en heldur nafni hennar á lofti í dag.
Fór svo í langan göngutúr eftir morgunhljóðum götum borgarinnar á sunnudegi áður en ferðalag lífsins hélt áfram og kom við í íslenska sýningarskálnum - eins og ég held að sé yfirleitt sagt; en þetta er enginn skáli, heldur heilmikið hús þar sem unnið er að endurbótum en fyrsta hæðin er fyrir sýningu Steingríms Eyfjöðs. Sérstakt þema sem mér fannst rétt að lýsa í ljóði:
Tví ær ingur
Fann íslenska huldukind í Feneyjum
þar var jata, hey, vatn og salt
frá Vegagerðinni
komið um langan veg
Opið út að síkinu stóra
gestir geta komið bæði landleið og sjóleið
ég kom landleiðina fyrstur þennan sunnudagsmorgun
þegar ég heimsótti tvíæringinn
í fyrsta sinn
Huldu maður einn á ferð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Póstkort frá Washington
Föstudagur, 5. október 2007
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sund lauga líf
Föstudagur, 29. júní 2007
Það er að sjálfsögðu búin að vera ný og merkileg upplifun fyrir fjölskylduna að hafa sína eigin sundlaug í garðinum - eiginlega er réttara að segja að hún sé hluti af húsinu, því sundlaugar hér eru allar í beinu framhaldi af veröndinni, sem aftur er í beinu framhaldi af stofu og eldhúsi. Þá eru þær alltaf innan verndarsvæðis - þ.e. umhverfis þær og vel yfir er burðargrind sem sett er skordýranet á. Á stórum og dýrum húsum getur þetta netvirki verið sex metrar að hæð og dekkað alveg heila hlið hússins. Auðvitað sleppur eitt og eitt kvikyndi inn fyrir en við höfum nær ekkert verið bitin hér og lítið orðið vör við skordýr.
Allir fjölskyldumeðlimir hafa verið duglegir við að nýta sér sundlaugina ... kannski enginn þó eins mikið og sá yngsti sem fer í hana í oft á dag milli þess sem hann horfir sæll á Cartoon network og vinnur í sínum Legó smíðum. Þá dagana það er að segja sem við erum ekki á þvælingi. En við erum búin að vera mikið heima við eins og planið gerði ráð fyrir og líkað það vel.
Einn helsti kosturinn við einkasundlaug er sá að hún lokar aldrei. Ég hef farið snemma að morgni og löngu eftir miðnætti og það er svolítill fílingur í því að vera einn í nóttinni með stjörnurnar fyrir ofan fjótandi í svalri lauginni. En mesta fjörið er þegar það eru laugarpartý og krakkarnir henda hvort öðru út í ... stundum í öllum fötunum og m.a.s. pabbinn hefur fengið að fljúga út í laugina. Bara gaman eins og Emblan segir, sem hefur auðvitað mestu sundlaugarreynsluna af okkur öllum en fílar þetta þó í tætlur. Svo til að documentera þetta fyrir okkur og ykkur, þá setti ég inn nokkrar myndir af sundlaugarsvamli hjá okkur í Flórídaalbúmið.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Morgunmatur í Ameríku
Mánudagur, 25. júní 2007
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Of heitt til að blogga
Mánudagur, 25. júní 2007
Þessi hluti heimsins varð ekki almennilega byggilegur fyrr en menn fundu upp rafmagn og í framhaldi af því loftkælingu. Þess vegna hefur ekki verið mikið um bogg - hver getur bloggað í yfir þrjátíustiga hita? Þannig er nefnilega mál með vexti að netið virkar ekki inní húsinu heldur bara úti í apabúrinu eins og við köllum það. Menn og konur hafa þar kraft til að skoða ýmislegt en ekki skrifa mikið. Á daginn það er. Svo sofa menn þreyttir á kvöldin sem skiljanlegt er.
En áður en um lýkur verðum við að koma veiðisögum á framfæri ... margar saklausar rækjur hafa látið lífið til að við fengum að veiða þann helling sem hér hefur veiðst - mest þó af óvinsællum gaddasnapper sem er samt góður á grillið ef menn sleppa við að gaddana. Lifandi rækjur er eina beitan sem eitthvað virkar hér.
Og svo má maður til með að fjalla um Ameríska fjölmiðla og hvað þar er fjallað um og hvað er ekki fjallað um. En börnin hafa fengið að ráða svolítið ríkjum í sjónvarpsheimi ... baráttan er stundum um CN eða CNN og má ekki milli sjá hvor stöðin stendur sig betur/verr í endurtekningum og innihaldslausu efni.
En meira um það og ameríska eldhúsið síðar (þegar kólað hefur ögn) ... því matur er eitthvað sem stendur manni nærri þegar maður dvelur hér í gnægtarlandinu þar sem borðaðar eru pönnukökur og bláber á hverjum morgni.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sjáðu eyðið - þarna brann ég
Fimmtudagur, 21. júní 2007
Fjölskyldan var orðin tilbúin í frekari ferðalög og í gær - 20. júní - var farið í dagsferð á bátnum. Samkvæmt ráðleggingjum Captain Ron, sem tók mig í tveggja tíma skemmri skírn í siglingum og umsjón báta á sunnudaginn, var ákveðið að fara að eyjunni Captiva, sem er lítil eygja norðan við Sanabel. Þangað er bara hægt að fara á bát. Nyrðri hluti eyjunnar er merkilegur fyrir þær sakir að þar gekk fellibylurinn Catharine - sem lagði New Orliens næstum í rúst - fyrst á land. Og ummerkin má enn sjá. Krafturinn var slíkur að fellibylurinn hreinsaði burt um 400 metra breiðan kafla af eyjunni og tók allt sem þar var, ekki trjástúfur eftir. Svo mikill var krafturinn að það myndaðist eyði sem nú skilur að norður og suðurhluta eyjunnar. Með tímanum hefur sjórinn að mestu fyllt upp í það en þar liggur en dálítil læna sem hægt er að vaða og þar er hægt að fiska. Það fylgdi líka sögunni að þarna væri gott að skelja. Skelja" er nýtt sagnorð sem ég tek eftir enskunni, því eins og við tölum um að fiska, þegar við erum á höttunum eftir fiskum, þá má tala um skelja þegar maður er á höttunum eftir skeljum.
Ferðalagið þangað tók drjúgan tíma því leiðin var löng og á sumum köflum þurfa menn að fara hægt út af sækúnum sem hér búa. Lögreglan stoppaði okkur einu sinni og Óðinn og Ásdís Sól fengu í verðlaun ókeypis ís á McDonald fyrir að vera í björgunarvestum sem er skylda fyrir yngri en 7 ára. Við þurfum líka að stoppa og taka bensín og allt var þetta nýtt fyrir okkur.
Þrátt fyrir vandræði með dýptarmælinn - sem er mikilvægur því víða eru miklar grynningar og þótt aðalleiðir séu vel merkar þá þurfum við að víkja út af þeim til að komast til Captiva og fara reyndar út á sjálfan Mexíkóflóann. Það var smá ævintýri hjá mér að koma fjölskyldunni allri í land án þess að festa bátinn í fjörunni en það tókst. Ekki gekk heldur alveg nógu vel að festa akkerið úti sem hélt bátnum og endaði það með því að ég kafaði út og rak akkerið niður í sandinn á tæplega þriggja metra dýpi. Þá var hann líka vel festur og við gátum tekið til við að borða nestið okkar og skelja.
Þarna koma fáir og við höfuðum eyðið næstum útaf fyrir okkur. Tveir hundar komu í heimsókn og hrelldu Óðinn aðeins og svo fylgdumst við með ákveðnum veðimanni sem var á sundskýlunni og óð í sjó upp undir axlir í veðimennskunni. Mælirinn okkar sýndi að hitastigið á sjónum væri 87 á farinheit sem er um 30 gráður. Ekki kalt þótt manni þætti þetta bara fínt og tæki ekkert eftir brennandi sólinni sem grillaði okkur öll í rólegheitum þrátt fyrir að dágóð sólarvörn hafi verið á alla borin.
Að loknu góðu stoppi á ströndinni voru allir orðnir dasaðir og við drifum okkur af stað. Tókst eftir smá villing að finna veitingastað sem mælt var með við okkur - en hann var þá lokaður! En við fundum annan stað í norður Captívu þar sem var opið og við gátum fengið eitthvað að borða og kælt okkur niður. Stemmingin í eyjunni var svipuð og í Hrísey, því þarna er engir bílar, heldur notast menn við golfbíla til að komast á milli. Eyjan er heldur ekki stór - líklega á stærð við Hrísey, bara mjórri og lengri.
Það var ansi dasaður og sólbrunninn mannskapur sem koma heim níu tímum eftir að lagt var að af stað - rétt í rökkurbyrjun og mátti ekki seinna vera, því ekki er gott að vera á ferðinni í myrki á þessum bát og erfitt að rata nema fyrir þaukunnuga. Öllum var hent í sundlaugin til að þrífa af fólki saltið og svo var borinn á Aloa Vera áburður á alla - enda allir brunnir þótt í mismiklu mæli væri. Sem sagt hinn fullkomni dagur á ströndinni .... og allir svo þreyttir um kvöldið að börn og unglingar sofnuðu óumbeðin snemma.
Ég er núna búinn að læra að búa til myndaalbúm hér á moggabloggi og bæti þar inn nýjum myndum úr Flórídaferð eftir nennu fyrir þá sem vilja fylgjast með þessu ferðalagi okkar og hvernig okkur miðar með það meginmarkmið að verða kaffibrún og úthvíld fyrir lok mánaðarins.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Póstkort frá Flórída
Miðvikudagur, 20. júní 2007
"Bráðum kemur ekki betri tíð" söng Ragga Gísla hér um árið og það á líklega við hér í Flórída - því betri getur tíðin ekki orðið. Hiti og blíða alla daga nema þegar þrumuveður hellast yfir okkur með úrhellisrigningu eins og hún gerist mest.
Ferðasagan kemur seinna, en í stuttu máli þá hefur allt gengið samkvæmt áætlun. Fyrsti hluti sumarfrísins er yfirstaðinn. Við tókum fjóra daga í að kanna alla fjóra Disney garðana - og eru nokkrar myndir komnar hér á síðuna því til sannindna. Síðan var verslan svolítið og tekið á móti Emblunni og um helgina síðustu var skipt um íverustað og við færðum okkur frá Orlandó til Cape Coral. Í samræmi við ferðaáætlun var tekin hvíld hér ... enda taka fjórir dagar í Disney og tveir í verslun talsvert á.
Hér í Villa Foster í Cape Coral höfum við allt til alls og höfum því ekki haft neina þörf fyrir að vera á fartinni, nema auðvitað að fara út á bátnum sem fylgir húsinu og synda í lauginni sem er bæði stærri og dýpri en myndirnar gáfu tll kynna. Svo er líka nettenging hér - þannig að við erum komin í samband við umheiminn aftur. Eftir þrjá daga í hvíld, sundlaugarsvamli og rólegum fiskveiðum, sem skiluðu talsvert meiru en ég átti von á, er mannskapurinn orðinn úthvíldur, hæfilega röndóttur á kroppinn og tilbúinn að takast á við ný ævintýr. .... en meira um þau síðar.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Póstkort frá Írlandi
Föstudagur, 25. maí 2007
Sinn er siður í landi hverju. Maður lærir það alltaf betur og betur. Sit ráðstefnu hér í Ennis á Írlandi um svæðisbundna nýsköpun og rannsóknasamstarf, sem tengist verkefni sem við höfum verið að stýra og felur í sér aðstoð við Pólland og Lettland. Í gærkvöldi að lokinni formlegri dagskrá ætlaði ég að koma mér fyrir á hótelbarnum og fylgjast með kosningasjónvarpi - því í gær voru haldnar þingkostningar á Írlandi. En viti menn, ekkert kosningasjónvarp! Enginn spenningur, ekki einu sinni útgönguspár.
Írar eru pollrólegir þegar kemur að kosningum. Þeir safna saman kjörgögnum og byrja svo að telja þau í rólegheitunum daginn eftir. Og talningin er allt annað mál. Ég var rétt í þessu að koma frá því að horfa á sjálfa talninguna. Nei ekki í sjónvarpi, heldur sjálfa talninguna í þessu kjördæmi, því hún fer fram hér á hótelinu. Hér eru fleiri tugir manna að fylgjast með talningunni, sem fer fram í stórum sal með góðu svæði fyrir eftirlitsmenn flokkanna og fyrir almenning. Fyrstu töllur er væntanlegar innan skamms, en í morgun birtu írskir fjölmiðlar útgönguspár. Þær gera ekki ráð fyrir mikilum breytingum. Stærsti flokkur forsætisráðherrans Fianna Fáil virðist ætla að halda sínu fylgi og þótt fylgi samstarfsflokks hans í ríkistjórn hafi minnkað, jafnvel verulega, gera útgönguspár ráð fyrir að ríkisstjórnin haldi velli með 3% mun. En kannski verður meirihlutinn of lítill og Bertie Ahern þarf að finna nýjan samstarfsflokk.
Í öllu falli búast menn ekki við miklum breytingum og vilja kannski ekki miklar breytingar. Írar hafa það gott og hafa kannski aldrei haft það betra. Fólk frá nýju aðildarríkjunum flykkist hingað til að vinna þannig að af er það sem áður var þegar írar fóru út um allar jarðir til að finna einhverja vinnu. Maður finnur það líka á fólkinu hér, það er uppsveifla í gangi, fólk er almennt jákvætt og í góðum málum. Ég hitti reyndar einn íra á barnum í gærkvöldi sem var hræddur um að mikill fjöldi iðnaðarmanna yrði til þess að laun írskra iðnaðarmanna muni fara lækkandi. Kunnuglegt áhyggjuefni. Það er býsna margt sameiginlegt finnst mér með þessum eyjum tveim - enda finnst mér ég aldrei vera í framandi landi þegar ég er hér. Ég vona að írum finnist þeir líka vera á heimavelli þegar þeir koma til Íslands.
Ferðalög | Breytt 25.11.2008 kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)