Póstkort frá Lettlandi

Það er þriðji í vori, sem byrjar samkvæmt áætlun í Lettlandi 21. mars. Menn eru í óða önn að hreinsa garða og tún eftir veturinn. Það er fyrirheit um vor í lofti, þótt ekki sé komið brum á trén og allt sé ennþá grátt og víða eftir að þrífa upp ruslið sem safnaðist fyrir í vetur.

Þannig er líka í lettnesku þjóðlífi; þar er fyrirheit um vor, sem er kannski ekki alveg komið, en það lofar góðu sumri. Ef ... þau eru svolítið mörg efin ennþá. Völdin tæla, spilla og hræða. Það var verið að  handtaka borgarstjóra hafnarborgarinnar fyrir meinta spillingi, hann var tilnefndur sem forsætisráðherraefni bændaflokksins í síðustu kosningum og hafi víst stutt við bakið á öðrum flokki líka. Orðrómur er á kreiki um að lögreglan, eða þau yfirvöld sem standa að handtökunni, séu með lista yfir þá stjórnmálamenn sem nutu góðs af þeim mútum sem borgarstjórinn á að hafa þegið. Taugatitringur í gangi. Ég vona að menntamálaráðherra landsins sé ekki í þeim hópi. Okkur þykir vænt um hana og þá frekar kallinn hennar, sem er samstarfsaðili okkar í evrópuverkefni sem við leiðum.

Valdið er skrýtin skepna. Á fyrri vinnudeginum erum við í höfuðborginni með fund að kynna tillögur að áætlunum um skynsamlega nýtingu á hluta af því fjármagni sem Lettland fær næstu sjö árin úr þróunar- og uppbyggingarsjóðum ESB. Aðalsamstarfsmaður okkar er óöruggur og hræddur finnst okkur, því á fundinum eru fulltrúar fjármálaráðuneytisins - fulltrúar valdsins. Daginn eftir förum við út fyrir Riga og eigum þar fund með fólki frá Zemgale héraðinu. Þá er samstarfsmaður okkar með öllu óhræddur, sjálfsöruggur í fasi og framkomu og ekki í honum þessi afsökunartónn sem okkar fannst furðulegur í gær. Í dag er hann fulltrúi valdsins.

Við erum stödd í sumarhöll rússneskra aðalsmanna frá öldum áður. Þessi bygging er næsta nákvæm eftirmynd af Vetrarhöllinni í Pétursborg, bara tveimur númerum minni og sögð passa inn í hallargarð Vetrarhallarinnar. Á meðan fullt er kynning á lattnesku, skrepp ég út í hallargarðinn, ef hægt er að nota það orð og stika hann þverna og tel; það eru 77 skref þvert yfir. Samanlagt er því höllin all stór - þótt aðrar séu stærri. Ef hún er 70 metrar hver hinna fjögurra álma og einir 15 metrar á þverveginn, með sínar fjórar hæðir, þá eru það nærri 17.000 fermetrar. Líklega meira. Ekki amarlegt sumarslot það.

Höllin hýsir Landbúnaðarháskóla Lettlands og var nánast eina byggingin í Jalgava sem stóð upp eftir seinni heimstyrjöldina. Heimamenn segja mér, næstum því stoltir, að borgin hafi verið notuð eftir seinni heimstyrjöldina til að taka upp sovéskar raunsæismyndir um hetjudáðir hermanna þeirra. Hún var hin fullkomna sviðsmynd, þar sem vart stóð steinn yfir steini.

Höllin er stolt skólans en líka baggi, því það er ekki lítið mál að viðhalda svona byggingu og ógerningur að kynda hana svo vel sé á vetrum. Ég kom hér fyrir rúmu ári og flutti fyrirlestur í rúmlega 10 gráðu  hita. Áheyrendur hópuðustu í kringum tvo rafmagnsofna sem voru í herberginu, en ég var á mínum jakkafötum sem sutlardropa á nefi og þurfi að standa þar og passa mig að skjálfa ekki meðan túlkurinn endurtók allt sem ég sagði á lattnesku. Það var skrýtin reynsla.

En í dag er vor. Ég geng að ánni þar sem þjóðverjar og rússar börðust fyrir rúmum 60 árum og er þakklátur fyrir þann frið sem nú ríkir í þessu landi og annars staðar í Evrópu. Líklega á Evrópusambandið drjúgan þátt í þeim frið. Og líklega mun Evrópusambandið eiga talsverðan þátt í þeirri efnahagslegu og samfélagslegu framþróun sem ég hef fulla trú á að bíði Letta á næstu árum.

Bara ef þeir læra að hætta að óttast valdið og líka að fara vel með það þegar þeim er trúað fyrir því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.