Færsluflokkur: Bloggar
smá klapp á bakið ... á mbl.is
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Sjónvarpsfréttir mbl.is vinsælar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Næst síðasti dagur ársins 2008
Þriðjudagur, 30. desember 2008
Á næst síðasta degi ársins sest ég stundum niður og lít yfir farinn veg. Maður er gjarnan of upptekinn á sjálfan gamlársdag til þess. Þetta er jafnframt svona afmælisfærsla, því ég bloggaði fyrst þennan dag fyrir tveimur árum. Hér kemur matið á árinu 2008 og fyrst er það sem mestu skiptir börnin sjálf.
Sá elsti, Unnar Steinn, plummar sig vel í starfi hjá CCP. Hann er núna búinn að vera þar í tvö ár og er ánægður með starfið og ber þar ábyrgð á gagnagrunni leiksins sem afkoma fyrirtækisins hvílir á - svo við höfum ekki miklar áhyggjur af því að hann haldi ekki vinnunni. Sá næst elsti, þótt litlu muni, Hjörtur, heldur sínu striki í náminu og stefnir á að ljúka prófi í nútímafræðum frá Háskólanum á Akureyri næsta vor. Hann er í góðum málum og búinn að dvelja síðan síðla sumars í Mexíkó og taka þar eina önn við fínan tækniháskóla sem metin er að fullu sem hluti af náminu fyrir norðan. Hann eyðir áramótunum með kærustunni í Suður Ameríku svo það væsir ekki um hann.
Elsta dóttirin hún Embla lifir viðburðarríku lífi sem aldrei fyrr. Það voru henni vonbrigði að komast ekki á Ólympíuleikana í Peking í sumar - en það var ekki við hana að sakast; hún gerði sitt besta og er efst á heimslistanum í eini grein og í top tíu í tveimur öðrum. Málið er bara að það eru svo fáar konur sem keppa í þessum fötlunarflokk að það var ekki blásið til keppni nema í einni grein - sem vill svo til að er hennar lakasta. En í stað þess að láta þetta á sig fá hefur hún snúið sér að öðrum áhugamálum og flutti á árinu fyrirlestra við helstu háskóla landsins um þá áskorun sem fötlun er og einnig um kynjafræði og fötlun. Það má eiginlega segja að hún sé orðin fastur fyrirlesara bæði fyrir norðan og við Háskóla Íslands. Ekki slæmt hjá 18 ára stelpu sem enn er í framhaldsskóla.
Þau yngstu tvö eru líka á góðu róli á sinni þroskagöngu. Ásdís Sól þroskast hratt og gekk bara vel á sínum fyrstu samræmdu prófum og stóð sig frábærlega í íslensku. Hún les, hannar, teiknar og skapar alla daga og dreymir nú um að verða í senn fræg leikkona og rithöfundur. Sá yngsti Óðinn-sen er hins vegar ákveðinn í því að verða vísindamaður og fer ekkert í grafgötur með það að stæðrfræði og þess háttar sé nú lítið mál fyrir hann. Hann var valinn í skólalið Ísaksskóla í skák og keppti á sínu fyrsta skákmóti á árinu og fékk líka gula beltið í karate undir lok ársins. Ekki slæmt hjá 7 ára gutta.
Öll eru því börnin upptekin hvert á sinn heilbrigða hátt og öll í góðum málum. Er það mikil gæfa fyrir okkur foreldrana sem að þeim stöndum. Eftir því þarf maður að muna þegar vonbrigði og reiði ríkja innra vegna ástandsins í þjóðlífinu og með frammistöðu stjórnmálamanna sem maður trúði á. Börnin hafa svo sannarlega ekki brugðist, heldur þvert á móti eru gleðigjafar sem við erum stolt af.
Af okkur sjálfum segir kannski mest af vinnu - enda er það nú svo með fólk á miðjum aldri með börn á öllum aldri og í krefjandi störum að þetta er tvennt er svotil allt lífið. Huldan heldur áfram á góðu róli sem framkvæmdastjóri hjá Starfsmennt, sem hélt áfram að vaxa og dafna undir hennar stjórn. Hjá henni ber líklega hæst á þeim vettvangi að hafa fengið Starfsmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir ávallt. Árið gekk líka vel hjá Rannsóknaþjónustunni og þeim verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Svo vel að allt var í stakasta lagi þegar ég kom til baka úr 10 vikna námsleyfi til Bretlands. Ég get lítið kredit tekið fyrir það annað en að hafa valið gott fólk með mér og verið heppinn í starfsmannahaldi.
Persónulega stendur námsleyfið uppúr fyrir margra hluta sakir. Það voru mikil forréttindi að fá að kúpla sig út úr daglegu lífi að mestu í 10 vikur og lifa lífi námsmanns og geta einbeitt sér að því að læra það sem mig skorti uppá fræðilegan grunn. Um leið voru þetta harla óvenjulegir tímar til að vera fjarri fjölskyldu og starfi svo lengi - en þó ekki svo fjarri með alla miðla aðgengilega á neti og netsíma sem kostar lítið sem ekkert og hefur gerbreytt öllum samskiptum milli landa. Ég hef ekki í annan tíma legið svona mikið á netinu! Það gat líka verið óþægileg reynsla að vera íslendingur í Bretlandi - eins og þegar aðstoðarrektor Sussex háskóla kom sérstaklega til mín því hann vissi þjóðerni mitt frá fyrri fundi okkar til að segja mér að háskólinn ætti 3,5 milljónir punda inná Icesave reikningi. Hvað gat maður annað gert en orðið óskaup vandræðalegur og reynt að tafsa einhverjar afsakanir.
Þrátt fyrir þessar annarlegu aðstæður þá gekk námið samkvæmt áætlun og nú í árslok er ég búinn að halda þá áætlun sem ég gerði fyrir tveimur árum þegar ég var samþykktur sem doktorsnemi við Háskóla Íslands. Nú er ég búinn að ljúka öllum formkröfum sem gerðar voru og fól m.a. í sér að ljúka 45 gömlum einingum eða einu og háflu ári í fullu námi. Fyrir utan námsleyfi í haust hef ég gert þetta samhliða fullu starfi - svo ég er sáttur. Nú er bara" doktorsritgerðin sjálf eftir - en ég áforma að vera kominn með heildaruppkast í lok næsta árs.
En lífið er ekki eintóm vinna; við höfum líka haft tök á að fara í frí og skemmta okkur. Ber þar hæst tvær ferðir. Önnur til Danmerkur þar sem við dvöldum bæði í Kaupmannahöfn og hjá Molbúunum og líkaði það vel. Því miður gleymdist myndavélin í þeirri ferð en sú varð ekki raunin þegar við gerðum mikla og góða reisu á Vestfirðina sem skörtuðu sínu fegursta fyrir okkur. Fengum við slíka blíðu að elstu menn muna vart annað eins á Patreksfirði. Er þessu gerð skil í sérstöku myndaalbúmi hér á blogginu.
Á heildina litið var þetta gott ár fyrir mig og mína nærfjölskyldu. Vel gekk í vinnu hjá okkur sambýlingunum og börnin döfnuðu öll og þroskuðust vel. Við lentum ekki í neinum hremmingum sem orð er á gerandi við bankahrunið. Góðærið ærði okkur ekkert og fór eiginlega að mestu framhjá okkur því við keyptum hvorki hús, bíla né hjólhýsi og ekki einu sinni flatskjá og tókum fyrir vikið hvorki verðtryggð lán né í evrum. Við erum því að vona að kreppan fari jafn hljóðlaust hjá garði eins og góðærið gerði.
... ég enda á þessum jákvæðum nótum. Ég ákvað rétt fyrir jólin að haga mér eins og strúturinn um hátíðarnar og stinga höfðinu í sandinn um stund og útiloka öll þau óskaup og ósvinnu sem eru í gangi allt í kringum okkur. Það verkefni bíður næsta árs að opna almennilega augun og ákveða hvað maður getur gert í því. Þangað til 2009 gengur í garð ætla ég að njóta þess um stund að þetta var gott ár fyrir mig og mína.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú geta jólin komið
Mánudagur, 22. desember 2008
Þá er námsdvöl í Bretlandi lokið og fyrstu dagarnir á Íslandi voru svo snarpir að ekki var tími til að setjast niður og blogga fyrr en nú þegar allt er orðið tilbúið fyrir jólin. Nú mega þau ganga í garð velkomin sem þau eru nú alltaf.
Það var gott að koma í vinnuna aftur af því að þar hafði verið haldið vel á öllum spilum og spöðum þann tíma sem ég var í leyfi. En það var vitaskuld fjölmargt sem beið mín m.a. fundur í stjórn Rannsóknaþjónustunnar og einnig í Hugverkanefnd - sem er merkilegt fyrirbæri. Jólafundurinn með stjórn og starfsfólki var góður - en við höfum haft þann háttinn á nú nokkur síðustu ár að hittast saman og fara yfir þau markmið sem sett eru í starfsáætlun í upphafi árs og meta hvernig hefur til tekist. Árangurinn í ár er góður - þau verkefni þar sem árangur ræðst fyrst og fremst af frammistöðu okkar gengu vel, en það sem ekki tókst var oft háð ytri aðstæðum.
Það líka gott að koma í venjulegt heimilislíf aftur eftir einveruna í Brighton og fjölskyldan tók vel á móti mér. Reyndar gerði konan sér ferð til Brighton að sækja mig og hjálpa mér með farangurinn heim - og það kom sér vel því mörg reyndust kílóin vera þegar við tékkuðum okkur inn og var þó handfarangur minn sá þyngsti sem ég hef nokkurntíma tekið með mér. En við áttum tvo góða daga saman eftir lokaprófið mitt áður en haldið var heim og nutum þess að vera í ró og næði.
Nú er allt frágengið sem nauðsynlega þarf að gera í vinnunni: áramótafærslur, tilkynningar og bréf allt farið út og á heimilinu er búið að kaupa allar jólagjafir og pakka þeim flestum inn og setja upp og skreyta jólatréð - svo þetta getur ekki verið betra hvað undirbúninginn varðar. Svo ég er að hugsa um að taka mér jólafrí að mestu leyti frá blessaðri kreppunni og tjá mig ekki um fjárlagafrumvarpið og annað sem á mér brennur að sinni. Ég finn ekki nógu helbláan lit í litapalletu moggabloggsins til að tjá mig. Ég geri mér líka betur grein fyrir því nú þegar ég hef getað tekið púlsinn á þjóðinni með beinni hætti en hægt er í fjarlægð að það eru næstum allir ósáttir. Ég velti því fyrir mér í hvaða farveg þessi "frústrasion" fer þegar hátíðarnar eru að baki. Eitt er víst - að við munum fá að lifa áhugaverða tíma í íslenskum stjórnmálum á næstu misserum.
Bloggar | Breytt 23.12.2008 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bongóblíða í Brighton
Sunnudagur, 7. desember 2008
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggleysi í önnum doktorsnáms og starfa
Mánudagur, 24. september 2007
Ég hef ekki litið inn á eign bloggsíðu í margar vikur - næstum búinn að gleyma henni - en sé að einhverjir hafa verið að kíkja í heimsókn. Ykkur bið ég bara afsökunar á þessu langa bloggleysi og ber við hefðbundnum haustönnum. Svo hef ég líka verið ögn að hugsa um "ritstjórnarstefnuna" á þessu bloggi ... er eiginlega ekki alveg viss um hver hún er. Var eiginlega búinn að ákveða að vera svolítið meira persónulegur en hér í upphafi og vera minna að viðra skoðanir mínar á mönnum og málefnum. Það er nóg af skoðunum í samfélaginu og fullt af fólki að halda þeim á lofti. En er samt eitthvað feiminn við að verða of persónulegur, því maður hefur samskipti við ansi marga í gegnum starfið og á þeim vígstöðvum vill maður halda ákveðinni fjarlægð. Svo það er hinn gullni meðalvegur í þessu eins og öðru; svo fjölskyldu og vinum lofa ég einhverjum fréttaskotum úr lífsbaráttunni en einnig gæti ég notað þennan vettvang til að orða einhverjar hugsanir og skoðanir sem spretta af því sem ég er að lesa og hugsa um þessar vikurnar.
Ein ástæða annanna er nefnilega sú að ég er á fullu í doktorsnámi þessa haustönn. Tek þrjá kúrsa til prófs og svo einn leskúrs sem ég vona einnig að ég nái að klára fyrir áramót. Þetta er allt tilkomið vegna þess að ég kem úr heimspekideild en ætla að taka doktorspróf í stjórmálafræði við félagsvísindadeild og því þurfti ég að uppfylla kröfur deildarinnar. Lenti í því að tvö námskeið voru á sama tíma og lausnin var sú að ég tek annað námskeiðið í fjarnámi. Algjör snilld. Sat nú um helgina og hlutstaði á þá fyrirlestra sem ég hef ekki getað sótt og undirbjó próf sem verður í vikunni. Er eiginlega ennþá betra en að sitja fyrirlestrana sjálfa, því það er hægt að gera annað á meðan - t.d. að elda matinn - eða þá spóla til baka þegar kennarinn gerist sérstaklega spakur. HÍ var fyrir nokkrum dögum að semja um kaup á nýjum hugbúnaði vegna svona upptakna á fyrirlestrum sem á að gera þetta enn einfaldara og þægilegra og vonandi verður sem mest af fyrirlestrum gert aðgengilegt fyrir alla nemendur í framtíðinni. Ég hef engar áhyggjur af því að kennararnir verði óþarfir - þótt færri mæti í salinn til að hlusta á þá. Hlutverk þeirra mun breytast kannski, en um leið verða gagnvirkara og jafnvel meira gefandi fyrir þá sjálfa.
... sem sagt önnin leggst vel í mig, þetta verður bara stutt og snarpt og maður verður sjálfsagt feginn þegar törnin verður búin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Latte!
Þriðjudagur, 21. ágúst 2007
Mikið óskaplega var ég feginn með niðurstöðuna úr kaffiprófinu sem allir eru að taka þessa dagana: Ég er sem sé Latte, sem merkir: "Þú ert skapstór og íhaldsamur einstaklingur sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Undir vissum kringumstæðum leyfirðu þér að prófa nýjungar, en þó aðeins að vel athuguðu máli. ... Þú samanstendur af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk." Ef niðurstaðan hefði verið önnur, hefði ég líklega ekki sagt frá þessu.
Samkvæmt Matthildi hómópata þá á ég helst hvorugt að drekka, kaffi eða mjólk. Svo ég held það lýsi mér ágætlega að Latte er minn uppáhaldskaffidrykkur og hefur verið um nokkurra ára skeið. Það er alger unaður að útbúa sér stóran Latte og setjast svo út í garðhús eða í stóra stólinn í stofunni um helgar og lesa blöðin. Það er minn tími.
Mér tókst ekki að vista "vottorðið" um að ég væri Latte rétt inn í þessa færslu - en ef þú vilt taka prófið þá er það á slóðinni: http://www.froskur.net/annad/kaffi/
Þessi færsla er líka til marks um það að þriggja vikna blogg fríi er lokið og jafnframt að sú ritstjórnarstefna sem tók yfir í sumar verður áfram í gildi: sem sé meira um persónulegt blogg og hversdagsfrásagnir og minna um stjórnmál og samfélag - nema þegar sá gálinn er á manni eða samfélagsmál hrópa á athygli.
Bloggar | Breytt 23.8.2007 kl. 17:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Frægðarsól
Mánudagur, 30. júlí 2007
Rock Off - gerið þið svo vel:
http://youtube.com/watch?v=kuLHYRXlZYE
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Upprisinn - en ekki á fullum krafti
Föstudagur, 20. júlí 2007
Eftir tíu daga pillukúr er talsvert farið að réttast úr mér og ég get staðið uppréttur án þess að vera með sérstakt belti um mig miðjan. Get þó ekki sagt að þetta hafi gert mér neitt gott. Fullur dagskammtur af parkódíni gerir mann sljóan, framtakslausan og dapran. Vonandi er þetta að rjátlast af mér - er allavega mættur í vinnuna og byrjaður að ráðasta á það sem þarf að klára áður en seinni hálfleikur í sumarfríi tekur við.
Það er líka rólegt á þjóðlífsvígstöðvunum og því hefur ekki verið mikil ástæða til að vera að kommentera á málefni líðandi stundar. Má þó til með að nefna tvö mál.
Annað er verð á áfengi. Kannski er þetta bara populismi hjá stjórnmálamönnum sem vita að fólk er þessa dagana að bölsóttast yfir verðinu á guðaveigunum með grillmatnum - en vonandi kemur eitthvað út úr þessu og verðlag verður samræmt því sem það er annars staðar á N-Evrópusvæðinu. Neyslustýring gegnum verð virkar ekki nema þá helst í vitlausa átt. Þá er bara að minna viðskiptaráðherra og annað gott fólk á þetta þegar kemur að þingstörfum í haust; það væri ekki amarleg jólagjöf að lækka áfengisgjaldið svolítið í byrjun desember.
Hitt er utanríkisráðherrann okkar. Nú strax er það byrjað að gerast sem mörg okkar óttuðust og er kannski algerlega óumflýjanlegt. Þegar fólk fer í þetta embætti fær það tækifærifæri til að kynnast heiminum á annan og nánari hátt en flest okkar. Og allar venjulegar manneskjur sjá að þessu stóru geopólitísku mál eru miklu stærri og alvarlegri en okkar vandamál og menn fyllast áhuga og eldmóði að leggja sitt af mörkum til að bæta ástandið. Maður þarf eiginlega að vera eitthvað skrýtinn til að þetta gerist ekki. Og nú hefur Ingibjörg Sólrún fengið að kynnast af eigin raun einu af þessum stóru málum sem hafa áhrif á svo margt í stórríkjapólitíkinni og þá mun hún sjá viðfangsefni og vandamál hér á Íslandi í nýju ljósi. Hún er líka nýkomin frá Afríku þar sem vandamálin og viðfangsefnin virðast næstum óleysanleg. Vangaveltur um hátt áfengis- eða matvælaverð verða óskaup hjáróma gagnvart hungri og alvöru eymd. Kröfur um einstaklingsherbergi á elliheimilum hljóma ekki mjög brýnar þegar maður er nýkominn frá landi þar sem fæstir ná því að komast á elliár og elliheimili eru nær óþekkt fyrirbæri. Svo það er bara mannlegt að sjónarhornið og áherslurnar breytist. Við verðum bara að vona að Ingibjörg Sólrún gleymi ekki sínu sögulega hlutverki í íslenskri pólitík, þótt að veraldarsviðið sé vissulega bæði stærra og meira spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Póstkort úr bælinu
Föstudagur, 13. júlí 2007
Þegar lífið slær mann út um stundarsakir þarf maður að fara í allt annan hrynjanda en maður er vanur. Þegar maður liggur í rúminu og getur sig eiginlega ekki hrært þá fer maður í annan gír og hlustar á umhverfishljóðin, öskukallana, börnin sem ganga framhjá og umferðarnið í fjarska, stundum sírenur en mestu þó fjarlægur niður og svo hlustar maður á Gufuna - gömlu góðu Gufuna sem er alltaf þarna fyrir mann þegar á þarf að halda.
Ég er búinn að liggja flatur í fjóra sólahringa eftir að hafa tognað illa í baki og mitt í verkjartöflumókinu hef ég hlustað á sögu af finnskum dreng og á gamlan upplestur Nóberlsskáldsins, óþolandi nútímatónlist og yndislegan jazz og svo óteljandi stutta fréttatíma að ekki sé nú minnst á veðurfréttir og dánartilkynningar frá upphafi til enda. Ég held ekki að þetta séu ellimerki - þegar maður er ekki alveg í fjórða gírnum þá vill maður ekki hlusta á það tempó sem er á flestum hinum útvarpsstöðvunum; maður er ekkert rosalega hress og fílar fátt í botn - allra síst ýkta og ofurhressa útvarpsþuli. Neib þá hentar Gufan. Kannski eru þeir bara nokkuð margir sem hentar betur hrynjandinn í Gufunni en í síbyljunni svo ég vona að þrátt fyrir hlutafélagavæðingu haldist sá hrynjandi.
Það var annars svolítið hlálegt að fá sér far í sjúkrabíl í sólskininu upp á bráðamóttöku fyrr í vikunni. Konan linnti ekki látum fyrr en ég samþykkti að hitta lækni og þar sem ég gat engan vegin verið nema í hnipri útafliggjandi varð það að ráði að fá sjúkrabíl. Hef ekki þurft að nýta mér þá þjónustu í hart nær fjörutíu ár - en þá var líka sól í minningunni. Eins gott svosem að ég var drifinn uppá spítala því auðvitað var mín eigin sjúkdómsgreining röng. Þetta var sem betur fer ekkert innvortis heldur bara slæmt tilfelli af tognun í baki sem getur farið illa með skrifstofublækur sem leggjast í skurðargröft um helgar. Lækningin sú ein að éta verkjalyf og vöðvaslakandi og reyna svo að hreyfa sig innan sársaukamarka - sem eins og allir vita eru fremur lág hjá karlpeningi.
Allavega á fjórða degi er ég farinn að ganga ögn um, en boginn eins og nírætt gamalmenni. Heil vinnuvika farin í þetta hugsa ég bölvandi og er orðinn ansi óþreyjufullur eftir að komast í minn venjulega gír. Ætli það séu ekki nokkuð skýr merki þess að ég sé að hressast.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvers dags líf
Fimmtudagur, 5. júlí 2007
Þá er sumarfíi í Flórída lokið og við tekur hversdagslífið sem er ekki alltof heitt og felur ekki í sér neinar sundlaugar, svo dags daglega. Það er dálítið erfitt að stilla sig aftur inn á hrynjandi hversdagslífsins og sitja við skrifborðið allan daginn. Stóðst ekki mátið og svindlaði aðeins í gær og dreif mig í golf en náði hvorki því markmiði að sigra félaga minn né lækka í forgjöf. Þetta má líklega skrifa á þá staðreynd að ég lét bátsferðir og sundlaugasull ganga fyrir því að spila golf í Ameríku. Það er líka tæplega hægt að spila þegar hitinn er kominn vel yfir 30 gráður.
Það er annars merkilegt hvað maður getur vanið sig af fréttum ... a.m.k. yfir sumarmánuðina. Ég saknaði þess lítt að sjá ekki fjölmiðla í þrjár vikur og hef ekki haft mikla þörf fyrir að lesa blaðabunkann sem beið þegar heim kom. Ég hugsa að hann fari ólesinn af minni hálfu í endurvinnslu. Af þessu leiðir líka mun minn þörf fyrir að tjá sig um málefni líðandi stundar. Kannski hefur svona lítið verið að gerast eða kannski er manni bara nokk sama. En kannski er þetta líka til margs um maður hafi meira en nóg að gera í vinnu og einkalífi og hafi ekki tíma til að básúna neitt opinberlega.
En ég bætti við nýjum blogg-vin í dag þótt ég sé ekki mikið í því: Evrópusamtökin eru sem sé tekin að blogga og er það hið besta mál. Hvet alla til að kíkja í heimsókn þangað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)