Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Til hamingju Bjarni !
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Bjarni Harðarson er ótvíræður sigurvegari þessa prófkjörs. Hér kemur ný og svolítið öðruvísi rödd inn í stjórnmálin. Gerist nú Framsóknarflokkurinn fjörlegur og forn, myndi einhver segja. Suðurkjördæmið ætlar að halda á lofti þjóðlegum hefðum og dygðum í komandi kosningum. En Bjarni er fersk rödd og segir það sem honum býr í brjósti. Varla getur nokkur maður efast um að þar fer drengur góður sem er með hjartað á réttum stað þótt talandinn kunni að bera hann ofurliði á stundum. Ritlipur og auðvitað góður bloggari.
Það liggur við að maður verði að bæta við þessar hamingjuóskir: Til hamingju Sunnlendingar með stöðu ykkar á flestum framboðslistum. Sem aftur þýðir að Reyknesingar hafa misst enn einn þingmanninn - því miðað við skoðanakannanir er nú óvíst að Framsókn fái meira en tvo þingmenn í Suðurkjördæmi. En með svona prófkjörsþátttöku - hver veit?
![]() |
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Ólafur !
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Þetta er kannski svolítið síðbúin afmæliskveðja til Ólafs Ólafssonar, sem hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær þannig að varla fór framhjá nokkrum landsmanni. En það eru fleiri hamingjuóskir við hæfi í tengslum við þetta:
Það er líka hægt að óska Ólafi til hamingju með dýrasta upphitunarnúmer sem flutt hefur verið til landsins. Mikið held ég þeir Bubbi og Bo hafi verið kátir með að láta Elton John hita upp fyrir sig.
Þá er ekki síður hægt að óska afmælisbarninu tilvonandi til hamingju með tilkomumikið PR klúður. Að birtast borinbrattur að morgni dags og tilkynna að maður sé að gefa milljarð til góðra mála - ah ja sko ekki að gefa allan milljarðinn, heldur bara ávöxtunina af honum, því Ólafur og frú halda fullri stjórn yfir því í hverskonar ávöxtun hann er settur í og eflaust munu þau fara með atkvæðisrétt góðgerðarsjóðsins í þeim hlutfélögum þeirra sem fjárfest verður í. Sem sagt og burtséð frá öllum fyrirvörum, það er drjúgt góðverk að morgni að gefa frá sér ávöxtun af heilum milljarði sem verður vel á annað hundrað milljónir á ári ef vel gengur. Það er ekki síður drjúgt að halda partý að kvöldi fyrir sig og sína fyrir sömu upphæð. Seinni athöfnin gerir að engu þá fyrri í augum almennings og gerir hana eiginlega verri en enga. Sem sagt meiriháttar PR klúður.
Sem leiðir mig að þriðju hamingjuóskunum - til Spaugstofunnar fyrir frábæran þátt sem við landsmenn horfðum á akkúrat á sömu stundu og melódíudrottningin söng fyrir veislugesti Ólafs. Svona veisluhöld eru í okkar þjóðfélagslega samhengi fyrst og fremst kjánaleg. Spaugstofan er oft næm á tilfinningar þjóðar sinnar og ég er alveg viss um að einhverjir veislugesta í gærkvöldi hafa fengið svolítið óbragð í munninn undir söngnum og tilgerðarlegum búningaskiptum sem sagt var frá í fréttum í kvöld. Ef þau hjónin meina eitthvað með því að styrkja afar þarfa uppbyggingu í Afríku, þá hefði fyrir þóknun gleraugnagláms verið hægt að byggja einhverja skóla til viðbótar í Afríku og kaupa glerlistaverk fyrir afganginn og senda til Eltons. Ég er næsta viss um að veislugestum hefði þótt alveg nógu flott að fá bæði Bo og Bubba.
Síðustu hamingjuóskirnar fara síðan aftur til Ólafs - fyrir að hafa pissað lengst í þessari kjánalegu pissukeppni um tilgangslausustu og mest óviðeigandi partýhöld ársins. Við skulum bara vona að Ólafur hafi komið af stað annarskonar og betri pissukeppni meðal nýríkra Íslendinga þar sem menn keppast við að gefa sem mest til góðgerðarmála og samfélagsuppbyggingar innanlands sem utan. Ef það verður niðurstaðan er þetta alveg viðundandi fórnarkostnaður.
![]() |
Elton John á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Valgerður !
Fimmtudagur, 18. janúar 2007
Það er svo sannarlega ástæða til að óska Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, til hamingju með framgöngu hennar í dag. Ræða hennar í Háskóla Íslands vakti verðskuldaða athygli og fól í sér fleiri en eina frétt - allar jákvæðar að mínu mati.
Í fyrsta lagi er það hin nýja ásýnd utanríkisþjónustunnar sem birtist í því að hún hefur markvisst viljað fjölga konum og auka hlut þeirra í þjónustunni og ætlar nú að fjölga enn og senda á ófriðvænlegri svæði. Gott mál.
Í öðru lægi birtist hin mýkri ásýnd með merkilegum hætti í orðum ráðherrans - sem ég kýs að kalla tilvitnun dagsins: " Það andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom er ekki það vinnulag sem ég vil viðhafa. Raunar verð ég að játa að mér hefur oft fundist pukur af þessu tagi fremur einkenna karlana, sem hafa tilhneigingu til að leiða málin til lyktar í reykfylltum bakherberjum." Ekki bara gott mál, heldur fygldi hún því eftir með því að aflétta leynd af viðaukum við varnarsamninga, sem kannski var aldrei ástæða til að leyna. Þeir voru strax orðinir fréttaefni í 10 fréttum sjónvarpsins og verða eflaust næstu daga. Vaskleg framganga hennar í þessu er til fyrirmyndar. Það verður fróðlegt að sjá hvort "strákarnir" í ríkisstjórninni eru sáttir við þetta útspil.
Í þriðja lagi kom hún því skýrt til skila að Ísland sé og eigi að vera herlaust land og við breyttar aðstæður eigum við að móta okkar eigin öryggis- og varnarmálastefnu. Ekki verður betur séð af ýmsum fréttum síðustu daga en talsverð vinna sé í gangi í þá veru.
Valgerður er vel að hrósinu komin og það kveður við nýjan tón í utanríkisráðuneytinu. Með komu Valgerðar þangað er enn eitt vígi karlrembunnar í íslenskri stjórnsýslu fallið. Ennþá eru þó forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið eftir (svo ekki sé minnst á ráðuneyti sjávarútvegs og kannski einhver fleiri). Falla fleiri slík vígi að loknum næstu kosningum?
![]() |
Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Margrét !
Miðvikudagur, 17. janúar 2007
![]() |
Margrét Sverrisdóttir sækist eftir sæti varaformanns Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju Ágúst !
Mánudagur, 15. janúar 2007
Það er full ástæða til að óska nafna mínum til hamingju með nýtt starf og óska honum velfarnaðar í starfi sínu sem rektor á Bifröst. Þá rætist sá draumur hans að fá að stýra sérstökum viðskiptaskóla - en hann var eindreginn talsmaður þess að skipta Háskóla Íslands upp í nokkra skóla. Er reyndar líklegt að sú verið raunin innan nokkurra ára. Er ekki að efa að hann mun taka duglega til hendinni og skólinn dafna áfram undir hans forystu.
Hjá Háskóla Íslands geta menn verið stoltir yfir því trausti sem aðrir skólar sýna skólanum að sækja til hans rektorar sína. Þess er skemmst að minnast að Svafa Grönfeldt er að taka við sem rektor Háskólans í Reykjavík, en hún var einnig búin að vera starfsmaður Háskóla Íslands, ásamt fleiri störfum, til margra ára. Hún sagði hins vegar upp starfi sínu um leið og það lá fyrir, enda kannski ekki góð latína að vera rektor í einum skóla og í leyfi frá þeim næsta.
Ég er annars að hugsa um hvort ég eigi ekki að halda úti bloggi sem byrja öll á "Til hamingju ..." þetta er nefnilega þriðja skiptið sem ég nota þennan tiltil. Það eru næg tilefni til að óska mönnum og málefnum til hamingju. Þannig hefði í dag verið hægt að óska Ríkisendurskoðun til hamingju með að ganga hratt og vel til verka í að kíkja á Byrgisbókhaldið, sérstökum ríkissaksóknara fyrir litskrúðugt og skemmtilegt málfar í sóknarræðu sinni fyrir Hæstarétti í dag, krónunni fyrir að hafa styrkt sig í sessi og kvikmyndinni Börn sem var að fá útnefningu í dag fyrir að vera í hópi bestu mynda ársins 2006 að mati evrópskra kvimyndaspekinga. Bara nokkuð góður vetrardagur á Íslandi.
![]() |
Ágúst Einarsson settur í embætti rektors á Bifröst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Háskóli Íslands stefnir hátt
Laugardagur, 13. janúar 2007
Talsverð umfjöllun hefur orðið um samning menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands í fjölmiðum og á vefsíðum landsins. Fjallað var um menntamálin almennt í pólitíkin á Stöð 2, föstudagskvöldið 12. janúar og sérstaklega um samning Háskóla Íslands og menntamálaráðuneytisins. Jafnframt var fjallað um möguleika skólans á að komast í fremstu röð í fréttum Stöðvar 2. Í báðum þáttum var vitnað í blogghöfund og því rétt að vekja athygli á þessum þáttum og ekki síður ítarlegra viðtali sem birtist á visir.is undir fyrirsögninni Háskólinn stefnir hátt.
Vitnað hefur verið í viðbrögð starfsmanna bæði Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík sem hafa lýst vonbriðgum með þennan samning. Þau viðbrögð eru um margt skiljanleg, en þó er vert að halda til haga að fjárhagsvandi Háskólans á Akureyri stafar af því að hann fór um skeið fram úr fjárheimildum. Ég get verið sammála því að fjárveitingar til kennslu voru of litlar - bæði til Háskólans á Akureyri og til Háskóla Íslands - en sá síðarnefndi fór samt ekki framúr. Með Háskólann í Reykjavík hefur ítrekað verið á það bent að hann fái í senn sömu fjárveitingu per nemenda og ríkisháskólarnir en innheimti um leið skólagjöld.
Þessu til viðbótar má svo benda á að Háskóli Íslands hefur dregið vagninn í íslensku háskólastarfi og þeir samningar sem við hann eru gerðir um kennslu og rannsóknir hafa verið viðmið hinna háskólanna. Því er ekki ólíklegt að þessi samningur muni til lengri tíma skila sé í auknum fjárveitingum til hinna háskólanna einnig. Á síðustu árum hefur fjármagn til samkeppnissjóða verið aukið og mun sú aukning vonandi halda áfram á næstu árum. Við sem erum bjartsýn á framtíðina getum því litið svo á að framundan sé áframhaldandi uppbygging og vöxtur í ærði menntun, rannsóknum og nýsköpun - sem ég trúi að muni skipta mestu um framtíð okkar á þessari þekkingaröld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Háskóli Íslands !
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Það er full ástæða til að óska menntamálaráðherra og háskólarektor til hamingju og þeim hópi fólks sem hefur staðið að þessari samningagerð. Með samningnum eru stjórnvöld að leggja fram fé sem gerir skólanum mögulegt að koma betur til mót við þær væntingar sem samfélagið hefur til Háskóla Íslands.
Það er sérstök ástæða til að óska Kristínu Ingólfsdóttur, háskólarektor, til hamingju með þennan samning. Hún hratt af stað stefnumótunarvinnu innan Háskólans sem hefur skilað þeim árangri að nú liggur fyrir skýr markmiðssetning í einstökum og mælanlegum þátttum. Þessi vinna var unnin í samræðu við stjórnmálaumhverfið þannig að nú er um það sátt að hátt skuli stefnt á næstu árum. Um leið og sú sátt var til staðar, var einnig til staðar skilningur á því að til að ná árangri þurfi að leggja í nauðsynlega fjárfestingu til að ná markmiðunum.
Nú er veigamiklu markmiði náð, að tryggja fjárhagslegt rekstrarumhverfi skólans til næstu fimm ára. Framundan er mikil vinna og uppbyggingu hjá háskólasamfélaginu. Til hamingju með daginn háskólafólk.
![]() |
Nýr samningur skapar forsendur fyrir að HÍ komist í fremstu röð í heiminum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.1.2007 kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Matarverð er málið - kannski kosningamálið ?
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Það er aldeilis að lítil frétt á mbl.is sem var ættuð frá dönsku Hagstofunni hefur undið uppá sig. Morgunblaðið skrifar leiðara um málið í dag og helstu stjórnmálaleiðtogar eru spurðir álits. Hagstofa Íslands hefur svarað kalli mínu og veitir greinargóðar upplýsingar í Morgunblaðinu í dag - auðvitað á stofnunin að vera virk í svona umræðu.
Morgunblaðið er á því að matarverðið eigi að vera kosningamál í ár og bendir kjósendum á að nú líði senn að því að þeir fái tækifæri til "að minna stjórmálamenn á að neytendur, skattgreiðendur og kjósendur eru sama fólkið." hummm hvern á ég þá að kjósa spyr maður kannski sjálfan sig, og Mogginn er hjálpsamur að vanda og ræðir við stjórnmálaleiðtogana.
Byrjum á framsóknarmönnunum tveimur: "Þarna er um hlutfallslegan samanburð á algerlega ósambærilegum löndum að ræða" segir formaður Framsóknarflokksins, sem getur ekki hætt að kenna og segja okkur hvað er rétt og rangt. Og hinn framsóknarmaðurinn er einnig á þeirri skoðun að þetta sé hálfgerður dónaskapur í Mogganum að vera að fjalla um málið og til óþurftar hjá evrópskum hagstofum að stunda þennan óraunhæfa samanburð: ""Ég er þeirrar skoðunar að allar viðmiðanir við meðalverð [í Evrópuríkjunum] séu óraunhæfar, enda sjáum við t.d. að Danir eru langt fyrir ofan það" sagði Steingrímur J. Sigfússon." Sem sagt við eigum bara að sætta okkur við þetta. Ekki hugnast mér það.
Sjálfstæðisráðherrann notar tækifærið til að minna kaupmenn landsins á að standa nú með flokknum sínum í stóru barbabrellunni korteri fyrir kosningar: "Þessi niðurstaða undirstrikar hversu mikilvægt það er að fyrirætlanir okkar um lækkun matvælaverð ... takist vel til segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra." Ég vona að það gangi vel hjá þeim og matarreikningur minn og allra hinna lækki raunverulega - en afhverju var þetta ekki hægt fyrr en tveimur mánuðum og nokkrum dögum fyrir kosningar. Þið afsakið þótt ég sé svolítið tortrygginn.
Stjórnarandstöðuleiðtoginn Ingibjörg Sólrún - sem fór mikinn í minkapels í matvörubúðum í ljósvakamiðlum í gær - leggur áherslu á að lækka tollana: "Það er ekki hægt að líta fram hjá því, að innflutningstollar eru mjög stór þáttur í okkar haá matarverði." Það er skemmtileg ekki-tilviljun að Mogginn vekji athygli á þessari tilvitnun í hana, því þarna er blaðið sammála: "Það er engin tilviljun að hæsta matvælaverðið í Evrópu [sé] á Íslandi, í Noregi og Sviss, sem eru þau lönd sem leggja mestar hömlur á viðskipti með landbúnaðarvörur. Það mun lækka verð að draga úr þeim hömlum."
Humm er Mogginn nokkuð í framboði? Ég sé ekki betur og gæti bara sem best hugsað mér að kjósa Styrmi sem er farinn að berjast fyrir lækkun matarverðs og alls þess aukakostnaðar sem á okkur auma landsmenn leggst vegna þess að við erum að burðast með okkar eigin gjaldmiðil. En meira um evruna síðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2007 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að þekkja sína þjóðarsál
Þriðjudagur, 9. janúar 2007
Enn og aftur er maður minntur á mikilvægi þess að þekkja sína þjóðarsál þegar maður les forsíðufrétt Blaðsins í dag. Það hefur yfirleitt haft þveröfug áhrif á Íslendinga ef þeim er hótað einhverju. Alcan hótar því að loka Álverinu í Straumsvík ef Hafnfirðingar leyfa ekki stækkun Álversins. Ég trúi að þetta hafi þveröfug áhrif á Hafnfirðinga og okkur hin líka.
Sem taktík er þetta óskynsamlegt ... fyrir nú utan það að vera næstum alveg örugglega ósatt. Rekstur Álversins hefur aldrei gengið eins vel og síðustu tvö árin, þökk sé háu heimsmarkaðsverði á áli. En lækki heimsmarkaðsverðið þá lækkar líka raforkuverðið - svo Alcan er gulltryggt með ódýrasta raforkuverð sem það á kost á. Að þeir hætti rekstri á hagkvæmri einingu þar sem raforkuverð er lægst af öllum þeirra einingum. Trúlegt
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hvar er Hagstofa Íslands þegar kemur að fréttaflutningi?
Mánudagur, 8. janúar 2007
Það er engin frétt að hér sé dýrast að búa af öllum Evrópuríkjum. Þetta vitum við og þess vegna geta menn meira að segja farið í innkaupaferðir til Danmerkur - sem þó er Evrópusambandsríkja dýrast. Það sem mér finnst athyglisvert við þessa frétt er að hún kemur frá dönsku hagstofunni. Hvar er Hagstofa Íslands þegar kemur að svona fréttaflutningi? Finnst þeim það ekki áhugavert að hér sé mesta dýrtíð allra okkar samanburðarlanda? Eða er það ekki í þeirra verkahring að senda frá sér tölfræðilegan samanburð af þessum toga sem gefur auðvitað tilefni til hápólitískra ályktana. Því tölurnar tala sínu máli - og hér er málið skýrt: Það er dýrt að búa á Íslandi. Stóra spurningin er auðvitað afhverju?
PS ... ég sé að Mogginn er að standa sig og setur þessa frétt á forsíðu (daginn eftir að þetta birtist á netinu). Auðvitað er það rétt fréttamat hjá Mogganum að verðlagið hér sé forsíðuefni. Nú legg ég til að Mogginn birti forsíðufrétt á hverjum degi fram að kosningum til að minna okkur á að við búum við mestu dýrtíð á Íslandi. Hann gæti svo birt daglega nýjar tölur, t.d. í tengslum við lækkun á virðisaukaskatti og verið með spennandi vangaveltur um hverju sé nú um að kenna.
![]() |
Verð á vörum og þjónustu 46% hærra hér að jafnaði en í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.1.2007 kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)