Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Kominn úr þagnarbindindi
Föstudagur, 2. mars 2007
Þá er þessu þriggja vikna þagnarbindindi mínu lokið. Það kom ekki til af því að ekkert væri um að vera í þjóðmálaumræðunni sem væri þess virði að koma með athugasemdir um, heldur vegna þess að annir og álag í vinnu og einkalífi voru með þeim óskaupum að eitthvað varð undan að láta. Eitt af því var bloggið - eða blaðrið eins og mér finnst að megi íslenska þetta óþjála orð sem þó er að vinna sér þegnrétt - já það getur ekki verið mjög ofarlega í forgangsröðinni. En ég þakka ykkur sem hafið litið inn á meðan á þagnarbindindinu stóð og lofa bót og betrum og kannski fleiri pistlum en bara athugasemdum við fréttir á moggavefnum.
Það hefði þó verið gaman að blaðra aðeins um þá sérkennilegu múgæsingu sem greip um sig þegar klámhundunum var vísað í burtu í nafni siðgæðis og menn og konur gerðu sig sek um þvílíkan tvískinnung að ekki hefur lengi sést. Þeir sem framleiða kvikmyndir sem felast í því að sprengja fólk í loft upp fá endurgreiðslu á skatti og hafi menn náð sérstökum afrekum eins og búa til subbulegustu og ógeðslegustu ofbeldismynd síðari ára með einum íslenskum strák í - sem nýtur þess heiðurs að vera limlestur og svo sagaður í búta - já þá er mönnum boðið í móttöku í ráðherrabústaðinn og lofaðir fyrir listrænan subbuskap. En ef menn eru klámhundar og framleiða subbulegar myndir með berrössuðu fólki þá eru þeir að sjálfsögðu óvinir ríkisins.
Skopmyndateiknarinn í Fréttablaðinu átti gott innlegg í þessa umræðu: Íslenska ríkið á sér þrjá óvini á síðari árum: Friðsælt Falon Gong fólk frá Kína sem vildi sunda líkamsrækt í mótmælaskyni, aldurhnigna og þunglynda mótorhjólatöffara frá Danmörku og svo framleiðendur á klámefni! Þegar þetta fólk steðjaði að þjóðarvá og venjulegum borgaralegum réttindum var vikið til hliðar og þjóðin brást til varnar.
En nú held ég í svolítið ferðlag til Ameríku þar sem menn eiga sér alvöru óvini og eru líka duglegir við að takast á við þá. Skyldi Íran vera næst á dagskrá spyrja menn í forundran og já svei mér þá ef sókn er ekki bara besta vörnin að mati þarlendra. Bush er eins og ódæll drengur í afmælisboði sem sakaði sessunaut sinn á að stela frá sér köku og lamdi hann í klessu fyrir bragðið. Þegar svo í ljós koma að sessunauturinn var ekki sekur, þá er betra að benda á næsta dreng að saka hann líka um kökustuldinn.
Svo ég ætla að reyna að setja hér inn ef eitthvað fangar athygli mína í þjóðlífi og umræðu í Bandaríkjunum, eða ætti maður kannski að segja Kaliforníu því það fylki er sjöunda stærsta hagkerfi í heimi og að margra mati um margt frábrugðið restinni af Ameríku.
.... við sjáum til
Til hamingju Kristinn - og (ó)Frjálslyndir !
Fimmtudagur, 8. febrúar 2007
Þá er einum liðsmanninum - og kjósandanum - færra í Framsóknarflokknum og sjálfsagt að óska Kristni til hamingju með það að hafa loksins gert upp hug sinn og farið úr flokknum sem ekki vildi hann sökum þess hve ódæll hann var. Getur sjálfsagt sagt eins og Margrét um daginn: "Það var ekki ég sem yfirgaf flokkinn, heldur flokkurinn sem yfirgaf mig."
En (ó)Frjálslyndum bætist nýr og öflugur liðsauki, sem ugglaust verður hampað. Maður sér fyrir sér ráðherraefnin hrannast upp: Addi Kidda Gau verður sjávarútvegsráðherraefni, Magnús varaformaður verður dómsmálaráðherraefni og fær kannski forræði yfir bæði útlendingaeftirliti og landhelgisgæslunni, Jón Magnússon verður félagsmálaráðherraefni flokksins og kemst þar í neytendamálefnin og þá hlýtur Kristinn H. Gunnarsson að vera kandidat í iðnaðarráðuneytið og fá loks að ráða byggðamálunum.
Það verður gaman í stjórnarmyndunarviðræðum í vor ef (ó)Frjálslyndir komast í þá oddaaðstöðu að geta haft úrslitaáhrif á það hvort núverandi stjórnarandstöðuflokkar mynda ríkisstjórn.
![]() |
Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju Lýður !
Miðvikudagur, 7. febrúar 2007
... með að segja sannleikann. Vona bara að bæði forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra hafi verið að hlusta og taki mark á Lýð. Þetta var allt eitt alsherjar fíaskó síðasta sumar; hvernig staðið var að ákvörðuninni og veiðunum, hvernig brugðist var við fullkomlega fyrirsjáanlegri fjölmiðlaumfjöllun og hvernig menn reyna svo að réttlæta vitleysuna með því að auðvitað muni þetta kjöt seljast. Það skiptir engu máli í þessu samhengi að við höfum rétt fyrir okkur - það er allt í lagi að veiða eitthvað úr hvalastofninum og við höfum til þess fullan rétt sem fullvalda þjóð. En aðrar þjóðir hafa líka fullan rétt á að hafa sínar skoðanir, lítt ígrundaðar sem þær kunna að vera. Í þessu máli verða minni hagsmunir að víkja fyrir meiri hagsmunum.
![]() |
Hvalveiðarnar eru fíaskó og skattur ætti að vera 10% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til hamingu vetnisfólk !
Mánudagur, 5. febrúar 2007
Það er full ástæða til að óska bæði stjórnvöldum og þeim sem hafa staðið í stafni í tilraunverkefnum um vetnisvæðingu á Íslandi til hamingju með þann samning sem kynntur var í dag. Með samningnum er verið að tryggja áframhald á merkilegu brautryðjendastari sem Íslensk NýOrka hefur unnið á undanförum árum.
Ísland hefur mjög haft sig í frammi á þessum vettvangi og markað sér stöðu sem land sem rekur sterkan áróður fyrir vetnisvæðingu og ætlar sér stóra hluti í innleiðingu um leið og tæknin er fáanleg. Eins og gagnrýnendur hafa bent á, þá er vetnisframleiðsla ekki ennþá hagkvæm, sé aðeins litið á heimsmarkaðsverð á olíu og því dreifikerfi sem veröldin býr við. En sé litið á umhverfiskostnaðinn, þá fer vetnið að verða æ álitlegri kostur. Við búum að auki við þau forrétindi hér á Íslandi af hafa efni á að framleiða vetni jafnvel þótt eitthvað skorti á hagkvæmnina, því við eigum nóg af endurnýjanlegri orku sem við getum nýtt til að búa til vetni. Okkar vandi er sá að tæknin er enn vanburða og ekki hefur verið hægt að fá vetnisfarartæki; þau hafa verið dýr og markaðurinn fyrr þau er enn of lítill. Við erum því háð því að erlendir aðilar taki við sér og fari að framleiða vetnisbíla.
Reykvíkingar eru orðnir vanir því að sjá vetnisstrætisvagnana. Nú á að bæta um betur og setja af stað 20-30 bílaflota hér. Vonandi verða ekki mörg ár þangað til það verða hundruðir vetnisbíla á götum borgarinnar. Þá getum við gengið í það verkefni að fara að breyta einhverjum að þeim altof mörgu bensínstöðvum sem verið er að halda áfram að reisa - þótt allir viðurkenni að þær séu þegar of margar - í vetnisstöðvar. Og vonandi líður ekki heldur á of löngu þar til búið verður að endurskipuleggja allar opinberar greiðslur fyrir orkunotkun og maður hefur efni á að fá sér vetnisbíl. Ég hlakka til þess dags!
![]() |
Ríkið setur 225 milljónir í vetnisverkefni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nýrri menntaáætlun ESB ýtt úr vör - allir velkomnir
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
1. febrúar ýtum við Íslendingar úr vör nýrri Menntaáætlun Evrópusambandsins með stuttri og skemmtilegri ráðstefnu í Borgarleikhúsinu. Áætlunin felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir Íslendinga sem ég hvet alla lesendur þessarar síðu til að kynna sér - allir eru velkomnir á morgun og þið getið séð dagsrkána á heimasíðu Leonardó. Þar eru einnig upplýsingar um skráningu.
Kvöldið fyrir nýtt upphaf er svolítið eins og gamlárskvöld - maður hugsar til þess sem liðið er:
- Hvern hefði órað fyrir því fyrir 12 árum þegar við ýttum forverum Menntaáætlunarinnar, Leonardó og Sókrates, af stað að 8.500 Íslendingar ættu eftir að nýta sér tækifærin og fá styrki til lengri eða skemmri náms- eða starfsþjálfunardvalar í Evrópu?
- Hvern hefði órað fyrir því að fleiri evrópskir Erasmus nemar myndu koma til Íslands en fara héðan?
- Hverjum hefði dottið í hug að við ættum eftir að standa okkur feikilega vel í samkeppni um góðar hugmyndir að tilrauna- og þróunarverkefnum á sviði starfsmenntunar?
Kvöldið fyrir upphafsráðstefnuna í maí 1995 var ég bjartsýnn og fullur eldmóðs en líka kvíðinn og fullur efasemda um að okkur tækist að virkja menntasamfélagið til þátttöku.
Nú kvöldið fyrir upphaf nýrrar áætlunar á Íslandi er ég bara bjartsýnn ..... og fullviss um að áætluninni verður vel tekið og Íslendingar munu nýta þau tækifæri sem í henni felast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tilrauna- og nýsköpunarverstöðin Ísland
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Um nokkurt skeið hafa margir í íslensku rannsókna- og þróunarumhverfi unnið að því að koma Íslandi á framfæri sem ákjósanlegum vettvangi fyrir framsækna tilrauna- og þróunarstarfsemi þar sem ný tæki, tækni, leiðir og hugmyndir og skipulag væri prófað á raunverulegum markaði hjá heilli þjóð. Eitt slíkt svið þar sem við höfum náð að koma okkur á framfæri sem slíkur tilraunavettvangur er á sviði vetnisvæðingar. Þar búum við að þeirri forgjöf í samkeppni um þróunarvettvang að hafa nóg af endurnýjanlegri orku og jafnvel meira en nóg þannig við getum vel leyft okkur að framleiða vetni úr raforku þótt það sé fremur óhagkvæmt sem stendur vegna þess að það er umhverfisvænna.
Hugmyndir um Íslands sem tilraunasamfélag í notkun upplýsingatækni eru af svipuðum toga. Hér er ekki verið að tala um að við séum að gera tilraunir sem gætu valdið skaða (eins og margir vilja meina um álverstöðina Ísland) heldur er þetta spurning um hvar er kjörlendi til að prófa nýjustu tæki, aðferðir og samskiptalausnir í raunverulegu samfélagi. Það versta sem gerist við slíkar tilraunir eru að ekkert kemur út úr þeim. Það besta sem gerist er að tilraunasamfélagið tekur stökk fram á við.
Þetta er framtíðarsýn æ fleiri Íslendinga: Að Ísland verði nýsköpunarverstöð en ekki auðlyndaverstöð þangað sem menn koma til að (of?)nýta náttúruauðlindir heldur til að gera nýja hluti. Hér er nærtækast að benda á bankana sem fréttaljósið beindist að í dag, ekki síður en að forseta vorum; þeirra útrás og sér í lagi árangur byggir á mikilli nýsköpun og sem felst m.a. í markvissri og merkilegri nýtingu á upplýsingatækni.
Með fundi sínum með Bill Gates og málflutningi eins og fram kemur í fréttinni er Ólafur Ragnar að standa sig í stykkinu við að reyna að efla nýsköpun á Ísland og renna fleiri stoðum undir okkar atvinnu- og þjóðlíf. Hans hlutverk er að opna dyr og bjóða fólki inn. Það er svo undir okkur komið hvort við tökum vel á móti þeim sem koma og nýtum þau tækifæri sem okkur bjóðast.
![]() |
Bill Gates tók vel í boð um að koma til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forseti í útrás
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Hvað á og hvað má forseti Íslands gera? er spurt þessa dagana. Má forsetinn mæta á leiðtogaráðstefnu Microsoft og kynna Ísland fyrir forsvarsmönnum þess fyrirtækis sem ákjósanlegan vettvang? Það held ég nú. Má forsetinn sitja í þróunarráði á Indlandi? Ég held það nú. Það sem meira er, Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið að kynna Ísland og koma íslensku atvinnulífi á framfæri út um allan heim á undanförnum árum. Það kann að vera að utanríkisráðuneytinu þyki hann hafa haft of lítið samráð á stundum en forystumenn atvinnulífs og þekkingarsamfélagsins hafa verið afar ánægðir með hversu bóngóður hann hefur verið og viljugur að koma fram við margvísleg tækifæri víða um lönd.
Forseti Íslands er þjóðkjörinn og kemur því fram fyrir hönd þjóðarinnar ekki síður en stjórnvalda eins og þau eru á hverjum tíma. Þannig hefur Ólafur Ragnar haft vilja og burði til þess að vera fulltrúi atvinnulífs, menningar og menntunar fremur en einvörðungu fulltrúi sjónarmiða stjórnvalda. Í tvígang hefur hann verið endurkjörinn og þar með endurnýjað umboð sitt til að vinna áfram í þeim sjálfstæða anda sem hann hefur mótað.
Ég held það sé á engan hallað þótt fullyrt sé að Ólafur Ragnar hefur verið afar duglegur við það verkefni að vera fulltrúi okkar erlendis og greiða þar götu. Hann hefur verið í takt við tíðarandann og þá miklu útrás sem hefur verið í gangi. Hann er hluti af þeirri útrás. Þannig er hann í takt við sína þjóð og það sem hún tekur sér fyrir hendur. Er það ekki það sem við viljum að þjóðhöfðinginn sé? Í takt við sína þjóð.
![]() |
Ísland kjörinn vettvangur fyrir Microsoft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju "Frjáls"lyndir !
Laugardagur, 27. janúar 2007
Hamingjuóskir til ný- endurkjörsins varaformanns "Frjáls"lynda flokksins og raunar til flokksins alls. Flokkurinn tryggði með flokksþinginu áframhaldandi setu flokksins á hliðarlínunni. Moldviðrið um varaformannskjörið og málflutningur formanns og varaformanns - ásamt viðbótinni við flokinn sem felst í nýju afli (bíddu er þetta ekki hundgamalt varaafl sem enginn vill vita af og er búið að koma sér allstaðar út úr húsi?) - gerir það að verum að flokkuirnn mun eiga sér formælendur fáa, þótt þeir fái auðvitað eitthvað fylgi út á svona málflutning.
Leiðari Morgunblaðsins í dag var afar skýr og athyglisverður - því blaðið er ekki oft með bein tilmæli til flokksmanna í stjórnarandstöðuflokkunum. Skilaboð Moggans voru þau að ef ekki yrði breyting á forystunni, þá myndi enginn annar stjórnamálaflokkur vilja starfa með þeim í ríkisstjórn, hvernig svo sem kjörfylgi þeirra yrði. Ég treysti því að það reynist rétt hjá Mogganum og að Ófrjálslyndir verði fjarri ríkisstjórn hvernig sem kosningar annars fara í vor.
Margrét er svo búin að boða fund á mánudaginn - ég vona að hún fari nú ekki að stofna enn einn flokinn heldur gangi til liðs við flokk sem stendur hjarta hennar nær, Samfylkinguna. Sjáum hvað setur.
![]() |
Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju hugvitsmenn !
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Ég var búinn að koma þeirri skoðun minni á framfæri í palladómi að Áramótaskaupið var gott. En að þar á bæ hefðu menn séð fyrir alvöru starfsstétt sem kannski á eftir að festa sig í sessi í Evrópu, ja á því hafði ég ekki áttað mig. Svo hamingjuóskir dagsins fara eiginlega til þeirra sem að Skaupinu stóðu ekki síður en þeirra hugvitsmanna í Þýskalandi sem segir frá í fréttinni.
Hingað til hefur orðið atvinnumótmælanda kannski verið notað fyrir þá sem eru með svo sterkar skoðanir að þeir eru alltaf til að mæta og mótmæla. En nú fær það nýja merkingu. Þannig getur t.d. verið að næsta sumar fáum hingað til lands eittþúsund atvinnumótmælendur sem einhver samtökin hafa keypt til að mótmæla hvalveiðum (ef við verðum svo óskaup skammsýn að taka þær upp aftur í vor), nú eða frekari álversframkvæmdum ef þær þá komast á dagskrá.
Ég á reyndar ekki von á að margir Íslendingar leggi sig eftir þessu - við eigum jú okkar atvinnufólk á þessu sviði, en heldur trúi ég það myndi taka því fálega að fá borgun fyrir. En kannski það verði eftirspurn hjá Íslendingum eftir erlendum atvinnumótmælendum. Þeir eru a.m.k. miklu mun ódýrari en þreyttar poppstjörnur: Þannig hefði mátt fá 5.000 mótmælendur í einn dag fyrir aurinn sem Elton John fékk fyrir að hita upp í afmælisveislu um síðustu helgi.
![]() |
Þýskir mótmælendur til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju landsliðspiltar !
Mánudagur, 22. janúar 2007
Það koma engir aðrir til greina fyrir hamingjuóskir dagsins en landsliðsdrengirnir okkar. Þótt ég teljist til antisportista, þá fylgdist ég með þessum leik og þetta var hreint ótrúlegt. Varð nett stressaður þegar þeir mistu forystuna niður um þrjú mörk í seinni hálfleik en þeir voru fljótir að vinna það upp aftur. Eftir svona svakalega frammistöðu hlýtur stefnan að vera tekin á heimsmeistaratitilinn: Það er ekkert landslið sem Ísland getur ekki unnið þegar allt gengur upp og menn mæta með þann baráttuanda sem skein úr hverju íslensku andliti í kvöld.
![]() |
Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2007 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)