Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
Nýrri menntaáætlun ESB ýtt úr vör - allir velkomnir
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
1. febrúar ýtum við Íslendingar úr vör nýrri Menntaáætlun Evrópusambandsins með stuttri og skemmtilegri ráðstefnu í Borgarleikhúsinu. Áætlunin felur í sér fjölmörg tækifæri fyrir Íslendinga sem ég hvet alla lesendur þessarar síðu til að kynna sér - allir eru velkomnir á morgun og þið getið séð dagsrkána á heimasíðu Leonardó. Þar eru einnig upplýsingar um skráningu.
Kvöldið fyrir nýtt upphaf er svolítið eins og gamlárskvöld - maður hugsar til þess sem liðið er:
- Hvern hefði órað fyrir því fyrir 12 árum þegar við ýttum forverum Menntaáætlunarinnar, Leonardó og Sókrates, af stað að 8.500 Íslendingar ættu eftir að nýta sér tækifærin og fá styrki til lengri eða skemmri náms- eða starfsþjálfunardvalar í Evrópu?
- Hvern hefði órað fyrir því að fleiri evrópskir Erasmus nemar myndu koma til Íslands en fara héðan?
- Hverjum hefði dottið í hug að við ættum eftir að standa okkur feikilega vel í samkeppni um góðar hugmyndir að tilrauna- og þróunarverkefnum á sviði starfsmenntunar?
Kvöldið fyrir upphafsráðstefnuna í maí 1995 var ég bjartsýnn og fullur eldmóðs en líka kvíðinn og fullur efasemda um að okkur tækist að virkja menntasamfélagið til þátttöku.
Nú kvöldið fyrir upphaf nýrrar áætlunar á Íslandi er ég bara bjartsýnn ..... og fullviss um að áætluninni verður vel tekið og Íslendingar munu nýta þau tækifæri sem í henni felast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Mér er illa við Dani"
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Íslands ógæfu verður allt að láni ... segir í góðri bók. Hás og niðurbrotinn eftir leikinn sný ég mér til ljóðlistarinnar sem er ein fárra lista sem fær svalað sárri sál á stund sem þessari:
"Mér er illa við Dani og alla kúgun og smán,
sem oss er daglega boðin af þeirra hálfu.
Þetta er misindisþjóð, sem ástundar ofbeldi og rán,
og ætlar sér jafnvel að tortíma landinu sjálfu.
Þeir tóku af oss forðum með tölu hvert einasta skinn,
og töluðu um handrit, er vörðuðu menningu alla.
Það er von að oss gremjist sú meðferð og svíði um sinn,
því síðan er íslenzka þjóðin skólaus að kalla.
Og loks varð hin íslenzka þjóð sem eitt þrautsligað hross,
við þekkjum víst allir þá styrjöld sem Danskurinn háði,
hann þröngvaði kartöfluræktinni upp á oss,
svo allt kom það fram sem Jón heitinn Krukkur spáði.
Við hugðum að vísu, sem hugprúðum mönnum ber,
að hrista af oss varginn og stympast eitthvað á móti.
En til hvers er það, eins og landslagi er háttar hér,
það er hætt við vér dettum og meiðum oss á þessu grjóti. ..."
(Sjálfstæði Íslands eftir Stein Steinarr)
Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tilrauna- og nýsköpunarverstöðin Ísland
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Um nokkurt skeið hafa margir í íslensku rannsókna- og þróunarumhverfi unnið að því að koma Íslandi á framfæri sem ákjósanlegum vettvangi fyrir framsækna tilrauna- og þróunarstarfsemi þar sem ný tæki, tækni, leiðir og hugmyndir og skipulag væri prófað á raunverulegum markaði hjá heilli þjóð. Eitt slíkt svið þar sem við höfum náð að koma okkur á framfæri sem slíkur tilraunavettvangur er á sviði vetnisvæðingar. Þar búum við að þeirri forgjöf í samkeppni um þróunarvettvang að hafa nóg af endurnýjanlegri orku og jafnvel meira en nóg þannig við getum vel leyft okkur að framleiða vetni úr raforku þótt það sé fremur óhagkvæmt sem stendur vegna þess að það er umhverfisvænna.
Hugmyndir um Íslands sem tilraunasamfélag í notkun upplýsingatækni eru af svipuðum toga. Hér er ekki verið að tala um að við séum að gera tilraunir sem gætu valdið skaða (eins og margir vilja meina um álverstöðina Ísland) heldur er þetta spurning um hvar er kjörlendi til að prófa nýjustu tæki, aðferðir og samskiptalausnir í raunverulegu samfélagi. Það versta sem gerist við slíkar tilraunir eru að ekkert kemur út úr þeim. Það besta sem gerist er að tilraunasamfélagið tekur stökk fram á við.
Þetta er framtíðarsýn æ fleiri Íslendinga: Að Ísland verði nýsköpunarverstöð en ekki auðlyndaverstöð þangað sem menn koma til að (of?)nýta náttúruauðlindir heldur til að gera nýja hluti. Hér er nærtækast að benda á bankana sem fréttaljósið beindist að í dag, ekki síður en að forseta vorum; þeirra útrás og sér í lagi árangur byggir á mikilli nýsköpun og sem felst m.a. í markvissri og merkilegri nýtingu á upplýsingatækni.
Með fundi sínum með Bill Gates og málflutningi eins og fram kemur í fréttinni er Ólafur Ragnar að standa sig í stykkinu við að reyna að efla nýsköpun á Ísland og renna fleiri stoðum undir okkar atvinnu- og þjóðlíf. Hans hlutverk er að opna dyr og bjóða fólki inn. Það er svo undir okkur komið hvort við tökum vel á móti þeim sem koma og nýtum þau tækifæri sem okkur bjóðast.
Bill Gates tók vel í boð um að koma til Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forseti í útrás
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Hvað á og hvað má forseti Íslands gera? er spurt þessa dagana. Má forsetinn mæta á leiðtogaráðstefnu Microsoft og kynna Ísland fyrir forsvarsmönnum þess fyrirtækis sem ákjósanlegan vettvang? Það held ég nú. Má forsetinn sitja í þróunarráði á Indlandi? Ég held það nú. Það sem meira er, Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið að kynna Ísland og koma íslensku atvinnulífi á framfæri út um allan heim á undanförnum árum. Það kann að vera að utanríkisráðuneytinu þyki hann hafa haft of lítið samráð á stundum en forystumenn atvinnulífs og þekkingarsamfélagsins hafa verið afar ánægðir með hversu bóngóður hann hefur verið og viljugur að koma fram við margvísleg tækifæri víða um lönd.
Forseti Íslands er þjóðkjörinn og kemur því fram fyrir hönd þjóðarinnar ekki síður en stjórnvalda eins og þau eru á hverjum tíma. Þannig hefur Ólafur Ragnar haft vilja og burði til þess að vera fulltrúi atvinnulífs, menningar og menntunar fremur en einvörðungu fulltrúi sjónarmiða stjórnvalda. Í tvígang hefur hann verið endurkjörinn og þar með endurnýjað umboð sitt til að vinna áfram í þeim sjálfstæða anda sem hann hefur mótað.
Ég held það sé á engan hallað þótt fullyrt sé að Ólafur Ragnar hefur verið afar duglegur við það verkefni að vera fulltrúi okkar erlendis og greiða þar götu. Hann hefur verið í takt við tíðarandann og þá miklu útrás sem hefur verið í gangi. Hann er hluti af þeirri útrás. Þannig er hann í takt við sína þjóð og það sem hún tekur sér fyrir hendur. Er það ekki það sem við viljum að þjóðhöfðinginn sé? Í takt við sína þjóð.
Ísland kjörinn vettvangur fyrir Microsoft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Til hamingju "Frjáls"lyndir !
Laugardagur, 27. janúar 2007
Hamingjuóskir til ný- endurkjörsins varaformanns "Frjáls"lynda flokksins og raunar til flokksins alls. Flokkurinn tryggði með flokksþinginu áframhaldandi setu flokksins á hliðarlínunni. Moldviðrið um varaformannskjörið og málflutningur formanns og varaformanns - ásamt viðbótinni við flokinn sem felst í nýju afli (bíddu er þetta ekki hundgamalt varaafl sem enginn vill vita af og er búið að koma sér allstaðar út úr húsi?) - gerir það að verum að flokkuirnn mun eiga sér formælendur fáa, þótt þeir fái auðvitað eitthvað fylgi út á svona málflutning.
Leiðari Morgunblaðsins í dag var afar skýr og athyglisverður - því blaðið er ekki oft með bein tilmæli til flokksmanna í stjórnarandstöðuflokkunum. Skilaboð Moggans voru þau að ef ekki yrði breyting á forystunni, þá myndi enginn annar stjórnamálaflokkur vilja starfa með þeim í ríkisstjórn, hvernig svo sem kjörfylgi þeirra yrði. Ég treysti því að það reynist rétt hjá Mogganum og að Ófrjálslyndir verði fjarri ríkisstjórn hvernig sem kosningar annars fara í vor.
Margrét er svo búin að boða fund á mánudaginn - ég vona að hún fari nú ekki að stofna enn einn flokinn heldur gangi til liðs við flokk sem stendur hjarta hennar nær, Samfylkinguna. Sjáum hvað setur.
Magnús Þór kjörinn varaformaður Frjálslynda flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju hugvitsmenn !
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Ég var búinn að koma þeirri skoðun minni á framfæri í palladómi að Áramótaskaupið var gott. En að þar á bæ hefðu menn séð fyrir alvöru starfsstétt sem kannski á eftir að festa sig í sessi í Evrópu, ja á því hafði ég ekki áttað mig. Svo hamingjuóskir dagsins fara eiginlega til þeirra sem að Skaupinu stóðu ekki síður en þeirra hugvitsmanna í Þýskalandi sem segir frá í fréttinni.
Hingað til hefur orðið atvinnumótmælanda kannski verið notað fyrir þá sem eru með svo sterkar skoðanir að þeir eru alltaf til að mæta og mótmæla. En nú fær það nýja merkingu. Þannig getur t.d. verið að næsta sumar fáum hingað til lands eittþúsund atvinnumótmælendur sem einhver samtökin hafa keypt til að mótmæla hvalveiðum (ef við verðum svo óskaup skammsýn að taka þær upp aftur í vor), nú eða frekari álversframkvæmdum ef þær þá komast á dagskrá.
Ég á reyndar ekki von á að margir Íslendingar leggi sig eftir þessu - við eigum jú okkar atvinnufólk á þessu sviði, en heldur trúi ég það myndi taka því fálega að fá borgun fyrir. En kannski það verði eftirspurn hjá Íslendingum eftir erlendum atvinnumótmælendum. Þeir eru a.m.k. miklu mun ódýrari en þreyttar poppstjörnur: Þannig hefði mátt fá 5.000 mótmælendur í einn dag fyrir aurinn sem Elton John fékk fyrir að hita upp í afmælisveislu um síðustu helgi.
Þýskir mótmælendur til sölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju landsliðspiltar !
Mánudagur, 22. janúar 2007
Það koma engir aðrir til greina fyrir hamingjuóskir dagsins en landsliðsdrengirnir okkar. Þótt ég teljist til antisportista, þá fylgdist ég með þessum leik og þetta var hreint ótrúlegt. Varð nett stressaður þegar þeir mistu forystuna niður um þrjú mörk í seinni hálfleik en þeir voru fljótir að vinna það upp aftur. Eftir svona svakalega frammistöðu hlýtur stefnan að vera tekin á heimsmeistaratitilinn: Það er ekkert landslið sem Ísland getur ekki unnið þegar allt gengur upp og menn mæta með þann baráttuanda sem skein úr hverju íslensku andliti í kvöld.
Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 28.1.2007 kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Bjarni !
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Bjarni Harðarson er ótvíræður sigurvegari þessa prófkjörs. Hér kemur ný og svolítið öðruvísi rödd inn í stjórnmálin. Gerist nú Framsóknarflokkurinn fjörlegur og forn, myndi einhver segja. Suðurkjördæmið ætlar að halda á lofti þjóðlegum hefðum og dygðum í komandi kosningum. En Bjarni er fersk rödd og segir það sem honum býr í brjósti. Varla getur nokkur maður efast um að þar fer drengur góður sem er með hjartað á réttum stað þótt talandinn kunni að bera hann ofurliði á stundum. Ritlipur og auðvitað góður bloggari.
Það liggur við að maður verði að bæta við þessar hamingjuóskir: Til hamingju Sunnlendingar með stöðu ykkar á flestum framboðslistum. Sem aftur þýðir að Reyknesingar hafa misst enn einn þingmanninn - því miðað við skoðanakannanir er nú óvíst að Framsókn fái meira en tvo þingmenn í Suðurkjördæmi. En með svona prófkjörsþátttöku - hver veit?
Hjálmar Árnason hættir í stjórnmálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Ólafur !
Sunnudagur, 21. janúar 2007
Þetta er kannski svolítið síðbúin afmæliskveðja til Ólafs Ólafssonar, sem hélt upp á fimmtugsafmælið sitt í gær þannig að varla fór framhjá nokkrum landsmanni. En það eru fleiri hamingjuóskir við hæfi í tengslum við þetta:
Það er líka hægt að óska Ólafi til hamingju með dýrasta upphitunarnúmer sem flutt hefur verið til landsins. Mikið held ég þeir Bubbi og Bo hafi verið kátir með að láta Elton John hita upp fyrir sig.
Þá er ekki síður hægt að óska afmælisbarninu tilvonandi til hamingju með tilkomumikið PR klúður. Að birtast borinbrattur að morgni dags og tilkynna að maður sé að gefa milljarð til góðra mála - ah ja sko ekki að gefa allan milljarðinn, heldur bara ávöxtunina af honum, því Ólafur og frú halda fullri stjórn yfir því í hverskonar ávöxtun hann er settur í og eflaust munu þau fara með atkvæðisrétt góðgerðarsjóðsins í þeim hlutfélögum þeirra sem fjárfest verður í. Sem sagt og burtséð frá öllum fyrirvörum, það er drjúgt góðverk að morgni að gefa frá sér ávöxtun af heilum milljarði sem verður vel á annað hundrað milljónir á ári ef vel gengur. Það er ekki síður drjúgt að halda partý að kvöldi fyrir sig og sína fyrir sömu upphæð. Seinni athöfnin gerir að engu þá fyrri í augum almennings og gerir hana eiginlega verri en enga. Sem sagt meiriháttar PR klúður.
Sem leiðir mig að þriðju hamingjuóskunum - til Spaugstofunnar fyrir frábæran þátt sem við landsmenn horfðum á akkúrat á sömu stundu og melódíudrottningin söng fyrir veislugesti Ólafs. Svona veisluhöld eru í okkar þjóðfélagslega samhengi fyrst og fremst kjánaleg. Spaugstofan er oft næm á tilfinningar þjóðar sinnar og ég er alveg viss um að einhverjir veislugesta í gærkvöldi hafa fengið svolítið óbragð í munninn undir söngnum og tilgerðarlegum búningaskiptum sem sagt var frá í fréttum í kvöld. Ef þau hjónin meina eitthvað með því að styrkja afar þarfa uppbyggingu í Afríku, þá hefði fyrir þóknun gleraugnagláms verið hægt að byggja einhverja skóla til viðbótar í Afríku og kaupa glerlistaverk fyrir afganginn og senda til Eltons. Ég er næsta viss um að veislugestum hefði þótt alveg nógu flott að fá bæði Bo og Bubba.
Síðustu hamingjuóskirnar fara síðan aftur til Ólafs - fyrir að hafa pissað lengst í þessari kjánalegu pissukeppni um tilgangslausustu og mest óviðeigandi partýhöld ársins. Við skulum bara vona að Ólafur hafi komið af stað annarskonar og betri pissukeppni meðal nýríkra Íslendinga þar sem menn keppast við að gefa sem mest til góðgerðarmála og samfélagsuppbyggingar innanlands sem utan. Ef það verður niðurstaðan er þetta alveg viðundandi fórnarkostnaður.
Elton John á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju Valgerður !
Fimmtudagur, 18. janúar 2007
Það er svo sannarlega ástæða til að óska Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, til hamingju með framgöngu hennar í dag. Ræða hennar í Háskóla Íslands vakti verðskuldaða athygli og fól í sér fleiri en eina frétt - allar jákvæðar að mínu mati.
Í fyrsta lagi er það hin nýja ásýnd utanríkisþjónustunnar sem birtist í því að hún hefur markvisst viljað fjölga konum og auka hlut þeirra í þjónustunni og ætlar nú að fjölga enn og senda á ófriðvænlegri svæði. Gott mál.
Í öðru lægi birtist hin mýkri ásýnd með merkilegum hætti í orðum ráðherrans - sem ég kýs að kalla tilvitnun dagsins: " Það andrúmsloft leyndarhyggju, sem áður var ríkjandi gagnvart þjóð, Alþingi og utanríkismálanefnd þegar að varnarmálum kom er ekki það vinnulag sem ég vil viðhafa. Raunar verð ég að játa að mér hefur oft fundist pukur af þessu tagi fremur einkenna karlana, sem hafa tilhneigingu til að leiða málin til lyktar í reykfylltum bakherberjum." Ekki bara gott mál, heldur fygldi hún því eftir með því að aflétta leynd af viðaukum við varnarsamninga, sem kannski var aldrei ástæða til að leyna. Þeir voru strax orðinir fréttaefni í 10 fréttum sjónvarpsins og verða eflaust næstu daga. Vaskleg framganga hennar í þessu er til fyrirmyndar. Það verður fróðlegt að sjá hvort "strákarnir" í ríkisstjórninni eru sáttir við þetta útspil.
Í þriðja lagi kom hún því skýrt til skila að Ísland sé og eigi að vera herlaust land og við breyttar aðstæður eigum við að móta okkar eigin öryggis- og varnarmálastefnu. Ekki verður betur séð af ýmsum fréttum síðustu daga en talsverð vinna sé í gangi í þá veru.
Valgerður er vel að hrósinu komin og það kveður við nýjan tón í utanríkisráðuneytinu. Með komu Valgerðar þangað er enn eitt vígi karlrembunnar í íslenskri stjórnsýslu fallið. Ennþá eru þó forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið eftir (svo ekki sé minnst á ráðuneyti sjávarútvegs og kannski einhver fleiri). Falla fleiri slík vígi að loknum næstu kosningum?
Konur í friðargæslunni sendar til Afganistan, Balkanskaga og Líberíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)