Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
Kvennakosningar í vor
Laugardagur, 31. mars 2007
Ég sammála þeirri greiningu Einars Más Þorsteinssonar stjórnmálafræðings að konur muni ráða úrslitum í kosningum í vor. Ef það verða breytingar á landsstjórinni þá er það vegna þess að konur hafa kosið öðru vísi en þær gerðu fyrir 4 árum. Við sjáum í þessum tölum að þær leggja annað mat á sum málefnanna og það mun hafa áhrif á hverja þær kjósa. Ef það er rétt sem ég sá í einhverri könnun í vikunni að nærri 60% kvenna muni kjósa Samfylkinguna og Vinstri græna, þá verða væntanlega breytingar.
Kosningabaráttan er hafin núna og það verður gaman að fylgjast með því hvernig flokkarnir bera sig eftir fylgi kvennanna - ég spái því að auglýsingar og áróður muni beinast að þeim.
Margrét: Stjórnmál 21. aldar snúast um mannauð, hugvit og nýsköpun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óska eftir góðhjörtuðum hafnfirðingi til að kjósa fyrir mig - Á MÓTI
Föstudagur, 30. mars 2007
Þar sem ég fæ ekki að kjósa vegna ósýnilegra og óskiljanlegra hreppamarka á höfuðuborgarsvæðinu, óska ég eftir góðhjörtuðum hafnfirðingi sem til tilbúinn að kjósa fyrir mig og börnin mín á móti tillögu um deiliskipulag sem gæfi grænt ljós á stækkun álversins í Straumsvík. Mér finnst nefnilega að málið varði okkur líka. Ég á reyndar fimm börn, þannig að þetta eru svolítið mörg atkvæði - en ég vona að einhverjir hafnfirðingar taki þetta sem brýningu til að mæta að kjörstað og hafna þessari tillögu.
Samkvæmt kosningalögum er bannað að bjóða fé í skiptum fyrir atkvæði og ekki vil ég brjóta lögin. Það læðist hins vegar að manni sú hugsun hvort umfjöllun um tekjur af sköttum og hafnargjöldum og hvað veit maður, sé ekki af sama toga og að bera fé á menn fyrir atkvæði þeirrra og þá ekki síður sú umræða að álverinu verði lokað, verði stækkun ekki samþykkt. En ég treysti því að þar til bær yfirvöld kanni jafn vel hvort Alcan hafi brotið kosningalög með gilliboðum til hafnfirðinga og hvort Spaugstofan hafi nokkuð brotið lögin um álsönginn ... æ ég meina þjóðsönginn.
Taugatitringur fyrir álverskosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sókn er besta vörnin
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Alveg elska ég þessa þjóð mína, sem er staðráðin í því að sókn sé besta vörnin: "Lægra gengi krónu, mikil verðbólga, takmarkaðra aðgengi að lánsfé og gagnrýnin umfjöllun erlendra aðila um íslenskt efnahagslíf virðast því hrökkva af neytendum eins og vatn af gæs." Inn í þetta vantar kannski skuldsetningu þjóðarinnar og það að hér er lánsfé afar dýrt, en hvað með það við áformum samt stórinnkaup!
... svo ég ætti kannski að fylgja minni þjóð, skrattast út og kaupa mér jeppa, fyrst vorið virðist bara ætla að færa okkur meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó???
Íslenskir neytendur aldrei bjartsýnni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Póstkort frá Lettlandi
Sunnudagur, 25. mars 2007
Það er þriðji í vori, sem byrjar samkvæmt áætlun í Lettlandi 21. mars. Menn eru í óða önn að hreinsa garða og tún eftir veturinn. Það er fyrirheit um vor í lofti, þótt ekki sé komið brum á trén og allt sé ennþá grátt og víða eftir að þrífa upp ruslið sem safnaðist fyrir í vetur.
Þannig er líka í lettnesku þjóðlífi; þar er fyrirheit um vor, sem er kannski ekki alveg komið, en það lofar góðu sumri. Ef ... þau eru svolítið mörg efin ennþá. Völdin tæla, spilla og hræða. Það var verið að handtaka borgarstjóra hafnarborgarinnar fyrir meinta spillingi, hann var tilnefndur sem forsætisráðherraefni bændaflokksins í síðustu kosningum og hafi víst stutt við bakið á öðrum flokki líka. Orðrómur er á kreiki um að lögreglan, eða þau yfirvöld sem standa að handtökunni, séu með lista yfir þá stjórnmálamenn sem nutu góðs af þeim mútum sem borgarstjórinn á að hafa þegið. Taugatitringur í gangi. Ég vona að menntamálaráðherra landsins sé ekki í þeim hópi. Okkur þykir vænt um hana og þá frekar kallinn hennar, sem er samstarfsaðili okkar í evrópuverkefni sem við leiðum.
Valdið er skrýtin skepna. Á fyrri vinnudeginum erum við í höfuðborginni með fund að kynna tillögur að áætlunum um skynsamlega nýtingu á hluta af því fjármagni sem Lettland fær næstu sjö árin úr þróunar- og uppbyggingarsjóðum ESB. Aðalsamstarfsmaður okkar er óöruggur og hræddur finnst okkur, því á fundinum eru fulltrúar fjármálaráðuneytisins - fulltrúar valdsins. Daginn eftir förum við út fyrir Riga og eigum þar fund með fólki frá Zemgale héraðinu. Þá er samstarfsmaður okkar með öllu óhræddur, sjálfsöruggur í fasi og framkomu og ekki í honum þessi afsökunartónn sem okkar fannst furðulegur í gær. Í dag er hann fulltrúi valdsins.
Við erum stödd í sumarhöll rússneskra aðalsmanna frá öldum áður. Þessi bygging er næsta nákvæm eftirmynd af Vetrarhöllinni í Pétursborg, bara tveimur númerum minni og sögð passa inn í hallargarð Vetrarhallarinnar. Á meðan fullt er kynning á lattnesku, skrepp ég út í hallargarðinn, ef hægt er að nota það orð og stika hann þverna og tel; það eru 77 skref þvert yfir. Samanlagt er því höllin all stór - þótt aðrar séu stærri. Ef hún er 70 metrar hver hinna fjögurra álma og einir 15 metrar á þverveginn, með sínar fjórar hæðir, þá eru það nærri 17.000 fermetrar. Líklega meira. Ekki amarlegt sumarslot það.
Höllin hýsir Landbúnaðarháskóla Lettlands og var nánast eina byggingin í Jalgava sem stóð upp eftir seinni heimstyrjöldina. Heimamenn segja mér, næstum því stoltir, að borgin hafi verið notuð eftir seinni heimstyrjöldina til að taka upp sovéskar raunsæismyndir um hetjudáðir hermanna þeirra. Hún var hin fullkomna sviðsmynd, þar sem vart stóð steinn yfir steini.
Höllin er stolt skólans en líka baggi, því það er ekki lítið mál að viðhalda svona byggingu og ógerningur að kynda hana svo vel sé á vetrum. Ég kom hér fyrir rúmu ári og flutti fyrirlestur í rúmlega 10 gráðu hita. Áheyrendur hópuðustu í kringum tvo rafmagnsofna sem voru í herberginu, en ég var á mínum jakkafötum sem sutlardropa á nefi og þurfi að standa þar og passa mig að skjálfa ekki meðan túlkurinn endurtók allt sem ég sagði á lattnesku. Það var skrýtin reynsla.
En í dag er vor. Ég geng að ánni þar sem þjóðverjar og rússar börðust fyrir rúmum 60 árum og er þakklátur fyrir þann frið sem nú ríkir í þessu landi og annars staðar í Evrópu. Líklega á Evrópusambandið drjúgan þátt í þeim frið. Og líklega mun Evrópusambandið eiga talsverðan þátt í þeirri efnahagslegu og samfélagslegu framþróun sem ég hef fulla trú á að bíði Letta á næstu árum.
Bara ef þeir læra að hætta að óttast valdið og líka að fara vel með það þegar þeim er trúað fyrir því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.11.2008 kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Til hamingju sjálfstæðismenn !
Fimmtudagur, 22. mars 2007
Svo virðist sem stjórnarandstaðan og allir þeir sem óánægðir eru, séu að taka höndum saman um að tryggja Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi völd. Hverjir græða mest á óánægjuframboðum eins og Íslandshreyfingunni? Sjálfstæðismenn, auðvitað. Hverjir græða mest á innbirgðis átökum og óskýrri framsetningu Samfylkingarinnar? Sjálfstæðismenn, auðvitað. Þeir munu ekki þurfa að heyja neina kosningabaráttu ef fram fer sem horfir. Og þegar Spaugstofan spyr: Hvar er Geir? Þá er svarið bara; hann getur hallað sér aftur í stólnum makindalega og horft á hina alla berast á banaspjótum.
Sem sagt - til hamingju Sjálfstæðismenn!
Ómar formaður og Margrét varaformaður Íslandshreyfingarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Skattstjóri gín yfir gini (staðlinum)
Sunnudagur, 18. mars 2007
Svolítill pistill um ójöfnuð
Eins og önnur hver manneskja á mínum aldri að því er virðist, þá er ég kominn í framhaldsnám við Háskóla Íslands. Væntanlega doktorsnám, þótt þetta sé ennþá svolítið í deiglunni. Þótt ég sé kominn á miðjan aldur finnst mér ég ekkert vera voðalega gamall í tímum - ekki af því ég sé svo unglegur, heldur vegna þess að ég er ekki eini ellismellurinn. Það sama gildi um suma fyrirlesarana. Sat undir fyrirlestri Indriða H. skattstjóra, í áfanga um stjórntæki hins opinbera fyrir nokkrum dögum. Það sýnir prýðilega hversu vel Háskóli Íslands er tengdur íslensku atvinnu- og þjóðlífi að líta á stundakennara og gestafyrirlesara; þeir bestu og fremstu á hverju sviði ... og enginn í svo fínu embætti að honum finnist það fyrir neðan virðingu sína að halda fyrirlestra yfir nemendum Háskóla Íslands.
Hann var með fyrirlestur um skatta og skattapólitík - því hvaða stjórntæki er jú mikilvægara hinu opinbera en skattarnir? Þau eru fá og því sperrti ég við hlustir. Veitti ekki af því skattstjóranum okkar lá afar lágt rómur og svo talaði hann svo hægt til að byrja með að ég átti í vandræðum með að heyra og fylgja þræði. En þess ber að geta að ég er hvor tveggja heyrarlaus á öðru eyra og afar óþolinmóður og því ekki marktækur dómari um þessa hluti. Það læddist reyndar sú grunsemd að mér að hann hafi talað svona hægt af góðri ástæðu; hann er búinn að reyna að tala eitthvert skattalegt vit inn í stjórnvöld svo lengi, án árangurs, að hann er farinn að tala afar hægt í þeirri veiku von að skiljast.
En Skattstjóri var ekki skoðanalaus - því þegar hann var búinn að fara í gegnum margvíslegar skilgreiningar og skýringar komu skoðanir sem vert er að vekja athygli á, því ekki verður annað sagt en þar tali maður með framúrskarandi þekkingu. Sú fyrri lítur að mikill deilu sem geisað hefur milli tveggja þekktra fræðimanna um hvort skattbyrgði þeirri tekjulægri hafi aukist eða ekki - sem um leið er hluti af umræðu um það hversu mikið ójöfnuður hafi aukist í íslensku samfélagi síðasta áratuginn.
Áhrif skatta á tekjudreifingu hafa farið hraðminnkandi" var megin niðurstaða Indriða H. og vel rökstudd með tölum sem sýna m.a. að skattar þess fimmtungs framteljenda sem hafa minnstar tekjur hafa aukist mest hlutfallslega, þannig að áður fengu þeir endurgreiðslu en greiða nú skatta. Raunar hefur hlutfallsleg skattbyrði allra skattgreiðenda aukist - nema þeirra 10% sem hæstar hafa tekjurnar hækkað. Varla fer skattstjóri rangt með opinberar tölur um skattheimtu sem er á hans ábyrgð og hlutfallstölur sem hann hefur allar sjáfur undir höndum.
Af þessu leiðir tvær afar athyglisverðar niðurstöður, sem þó einhverjir hafa verið að reyna að efast um á síðustu vikum. Sú fyrri er að tekjujöfnun hins almenna skattkerfis er orðin langtum minni heldur en hún var fyrir 12 árum síðan." Fram á þetta sýndi skattstjóri m.a. með margvíslegum tölum sem allar sýna að kerfið leikur æ minna hlutverk í því að jafna út kjörin og er það sérstaklega sá hópurinn sem hefur mestar tekjur og þá sérstaklega fjármagnstekjur sem greiðir hlutfallsega æ lægra hlutfall í skatta. Sú breyting hefur aðalega gerst á síðustu þremur árum, eflaust með tilkomu stóraukinna fjármagnstekna.
Ég er raunar sérstaklega stoltur af því að tilheyra þeim fjórðungi fjölskyldna sem leggur hlutfallslega mest til samfélagsins, en það eru hópurinn sem er á tekjubilinu 51-75% en árið 2004 greiddi sá hópur 24.9% heildartekna sinna í skatt á meðan þeir sem voru í efsta fjórðungnum greiddu 24.6% (þótt krónutala efsta fjórðungsins sé auðvitað hærri). Það voru reyndar enn ítarlegri tölur sem sýndu að skatthlutfall allra hjóna hafa lækkað frá 1995 nema þeirra sem hafa samanlagt minna en 4 milljónir á ári. En það vakti athygli mína að hjá hjónum með 50-100 m.kr. á ári hefur breytingin ekki verið mikil. Skrýtið, því hlutfallsleg skattbyrgði þeirra sem eru með meira en 100 m.kr á ári er nær helmingi minni en hún var 1995.
Af þessu leiðir síðan nokkuð augljósa niðurstöðu, sem er sú að ójöfnuður hefur aukist. Þar komum við að gini-nu eða Gini-staðlinum, þar sem skattstjóri lagði fyrir okkur athyglisverðar tölur sem ég er sannfærður um að tveir prófessorar við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands hafa skoðað ofan í kjölinn; í þeim felst að frá 1993 hefur gini-talan sem sýnir (ó)jöfnuð tekna fyrir skatta aukist á Íslandi úr 0,269 í 0,377 eða um þriðjung. Þessi staðall þýðir einfaldlega að ef hlutfallið er 0,0 þá eru allir með fullkomlega sambærilegar tekjur, en ef hlutallið er 1,0 þá er um fullkominn ójöfnuð að ræða. Þetta vita sennilega allir - að ójöfnuður í tekjum hefur aukist. Hitt vita kannski ekki allir að ójöfnuðurinn eftir skatta hefur aukist enn meira, sem má sjá af því að samkvæmt skattstjóra var gini-tala 0,200 árið 1993 eftir skatta en árið 1995 var hún komin í 0,358.
Á mannamáli þýðir þetta allt saman að skattkerfið hefur á undanförnum árum ýtt undir og aukið ójöfnuð, fremur en að draga úr áhrifum á auknum ójöfnuði í tekjudreifingu landsmanna.
En ég er sáttur við mitt og stoltur af því sem ég borga til samfélagsins. Og sáttur við skattstjóra sem kann að lesa úr tölunum sínum. Svo sáttur reyndar að í lok fyrirlestursins, þá gleymdi ég að þakka honum fyrir skattur.is - sem er að mínu mati frábær vefur. Þeim þökkum er hér með komið á framfæri.
Til hamingju Framtíðarlandsfólk !
Sunnudagur, 18. mars 2007
Þetta er vel til fundið og vel fram sett hjá Framtíðarlandinu. Ég mæli með því að menn taki afstöðu og séu þeir sammála þessum sáttmála, þá að skrifa undir. Þetta er nútíma útfærsla á undirskriftarlistum og þar áður bænaskrám sem menn sendu danska kónginum á þeirri tíð. Sérstaklega mæli ég með þingmannasíðunni; sendið endilega áskorun á ykkar fólk.
EN, það er einn mikil munur á þessum sáttmála og bænaskránum gömlu. Það er kosningar innan skamms og þá getum við kosið okkur fulltrúa sem eru sammála þessum sáttmála og boða aðra framtíð en þá að Ísland verði eitt mesta álbræðsluland í heimi. Ég hvet alla til að hugsa sig vel um fyrir næstu kosningar því þær eru óvenju mikilvægar: Í þríþættum skilningi er verið að kjósa um framtíð Íslands - í raun um Framtíðarlandi.
Framtíðarlandið kynnir sáttmála um framtíð Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Póstkort frá Ameríku
Mánudagur, 5. mars 2007
Velkominn til Ameríku! Um leið og maður er kominn upp landganginn þá mætir maður henni í öllu sínu þjóðernisveldi - Ameríku. En nú ber nýrra við og mig eiginlega rekur í rogastans að það fyrsta sem ég sé skuli vera merki um nýja utanríkisstefnu Bandaríkjamanna. Mér mætir á flugvellinum plaggat með íslenska og bandaríska fánanum saman og um leið og ég kem inn á ganginn þar sem landganginum sleppir þá er þar íslenski fáninn, svona eins og til að bjóða mig velkominn. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi sýn mætir mér á erlendri grund og hef ég þó lagst í dálítið af ferðalögum um ævina.
Þegar ég geng áfram ganginn sé ég þjóðfána fleiri ríkja þannig að þetta er til marks um nýja stefnu sem einnig hefur heyrst eitthvað af í fjölmiðlum síðustu daga og vikur. Bandaríkjamenn eru nú að átta sig á því að þeir þurfa á samvinnu og stuðningi annarra þjóða að halda. Stuðningi sem þeir hafa verið að glata hröðum skrefum vegna yfirgangs og einstrengingslegrar utanríkisstefnu. Ekki það ég kvarti sem Íslendingur. Það var hið besta mál að þeir skuli hafa yfirgefið" Miðnesheiðina og misboðið þannig þeim aumkunarverðu íslensku ráðamönnum sem höfðu margsinnis niðurlægt sjálfa sig og þjóðina með tilefnislausum bónferðum til Bandaríkjanna. Ætli það sé ekki dýpsti dalurinn hans Davíðs - þetta sérstaka samband sem hann átti við núverandi Bandaríkjaforseta. Nema ef vera skyldi aðkoma hans að Baugsmálinu sem ég las um í nýju blaði Krónikunni á leiðinni yfir hafið. Þessi nýjasta viðbót við fjölmiðlaflóruna á Íslandi er með áhugaverða kenningu um kveikjuna að þessu máli öllu, ættaða frá lögfræðingi Jóns Ásgeirs, að það sem hafi gert útslagið með að Jón Gerald ýtti málinu öllu af stað hafi verið sú trú hans að Jón Ásgeir hafi reynt við konuna hans. Alveg skal ég trúa að þetta sé rétt (þ.e. að þessi hafi verið trú Jóns Geralds og því hafi hann leitað hefnda) því það væri svo innilega í takt við íslenska sögu og hefð. Hvar konu er skipað til sætis eða hvort maður skýtur kollu getur haft afgerandi áhrif á Íslandssöguna. Því ekki hvort maður reyndi við konu!
Himnakringlan
Ég er kominn í Himnakringluna, hvorki meira né minna. Þegar ég sest inn í hálftóma American Airways vélina og tek mér blað úr sætisvasanum fyrir framan mig á meðan ég bíð eftir því að ferðin þvert yfir Ameríku hefjist, þá held ég á Himnakringlunni (www.skymall.com). Engin smá Kringla sem býður manni að panta ótrúlegt úrval afurða sem ótaldir uppfinningamenn hafa eytt margri andvökunóttinni yfir. Þar sem ég er á leiðinni á ráðstefnu þar sem hittast starfsmenn háskóla í Vesturheimi sem hafa það verkefni að koma tækniþekkingu á framfæri og huga að því að þekking og niðurstöður háskólamanna nýtist sem best á markaði og í samfélaginu almennt, er mér málið skylt og ég fletti með athygli:
Hér er hitavesti sem gengur fyrir rafhlöðum og kæmi sér eflaust vel á köldum veiðidögum og sérhannað box fyrir öll tólf úrin sem flestir eiga. Fyrir gofaranna, þá er lítið leysergeisla tól sem þjálfar mann í að koma golfkúlunni á réttan stað. Maður bara festir það á hausinn á pútternum og hringar snúruna upp skaftið og stingur í samband og fer svo að æfa sig. Að snúran trufli? Naah
Fyrir þá sem hafa nógan tíma (og kunna ensku) þá er hægt að kupa krossgátu sem er rúmlega fjórir fermetrar með 28.000 vísbendingum sem eiga að duga til að fylla út í alla 91.000 reitina sem eru auðir! Fyrir þá sem ferðast mikið er hægt að kaupa ferðlyftingasett ! Það er úr plasti og maður fær þyngdina sko með því að fylla plastið af vatni þegar maður er mættur upp á hótel. Tja, eða maður bara fer á gymið á hótelinu, nú eða drattast bara með níðþungar töskur til að halda sér í formi. Og svo eitthvað sem ég bara verð að prófa ... ljósrænt lyklaborð. Hvað á maðurinn við? Jú sko, þetta er lítið tæki sem sendir leysigeislamynd af lyklaborði niður á hvaða slétt yfirborð sem er en gerir meira en það því maður getur snert" þetta lyklaborð og þannig slegið inn þótt hvar sem er með þá stærð af lyklaborði sem hentar aðstæðum og handarstærð hverju sinni.
Ég segi og skrifa ... velkominn til Ameríku : þar sem allt er til. Og svona eins og til að minna mann á hvað Ameríka er stór þá er flugið frá austurströndinni til San Francisco þangað sem ferð minni er heitið lengra en flugið frá Íslandi til Bandaríkjanna.
Og tungl veður í skýjum þegar við förum í loftið rétt í þann mund sem íslenskri áhugamenn eru að munda sjónauka sína til að fylgjast með tunglmyrkva sem ég missi af í 33.000 fetum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.11.2008 kl. 18:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kominn úr þagnarbindindi
Föstudagur, 2. mars 2007
Þá er þessu þriggja vikna þagnarbindindi mínu lokið. Það kom ekki til af því að ekkert væri um að vera í þjóðmálaumræðunni sem væri þess virði að koma með athugasemdir um, heldur vegna þess að annir og álag í vinnu og einkalífi voru með þeim óskaupum að eitthvað varð undan að láta. Eitt af því var bloggið - eða blaðrið eins og mér finnst að megi íslenska þetta óþjála orð sem þó er að vinna sér þegnrétt - já það getur ekki verið mjög ofarlega í forgangsröðinni. En ég þakka ykkur sem hafið litið inn á meðan á þagnarbindindinu stóð og lofa bót og betrum og kannski fleiri pistlum en bara athugasemdum við fréttir á moggavefnum.
Það hefði þó verið gaman að blaðra aðeins um þá sérkennilegu múgæsingu sem greip um sig þegar klámhundunum var vísað í burtu í nafni siðgæðis og menn og konur gerðu sig sek um þvílíkan tvískinnung að ekki hefur lengi sést. Þeir sem framleiða kvikmyndir sem felast í því að sprengja fólk í loft upp fá endurgreiðslu á skatti og hafi menn náð sérstökum afrekum eins og búa til subbulegustu og ógeðslegustu ofbeldismynd síðari ára með einum íslenskum strák í - sem nýtur þess heiðurs að vera limlestur og svo sagaður í búta - já þá er mönnum boðið í móttöku í ráðherrabústaðinn og lofaðir fyrir listrænan subbuskap. En ef menn eru klámhundar og framleiða subbulegar myndir með berrössuðu fólki þá eru þeir að sjálfsögðu óvinir ríkisins.
Skopmyndateiknarinn í Fréttablaðinu átti gott innlegg í þessa umræðu: Íslenska ríkið á sér þrjá óvini á síðari árum: Friðsælt Falon Gong fólk frá Kína sem vildi sunda líkamsrækt í mótmælaskyni, aldurhnigna og þunglynda mótorhjólatöffara frá Danmörku og svo framleiðendur á klámefni! Þegar þetta fólk steðjaði að þjóðarvá og venjulegum borgaralegum réttindum var vikið til hliðar og þjóðin brást til varnar.
En nú held ég í svolítið ferðlag til Ameríku þar sem menn eiga sér alvöru óvini og eru líka duglegir við að takast á við þá. Skyldi Íran vera næst á dagskrá spyrja menn í forundran og já svei mér þá ef sókn er ekki bara besta vörnin að mati þarlendra. Bush er eins og ódæll drengur í afmælisboði sem sakaði sessunaut sinn á að stela frá sér köku og lamdi hann í klessu fyrir bragðið. Þegar svo í ljós koma að sessunauturinn var ekki sekur, þá er betra að benda á næsta dreng að saka hann líka um kökustuldinn.
Svo ég ætla að reyna að setja hér inn ef eitthvað fangar athygli mína í þjóðlífi og umræðu í Bandaríkjunum, eða ætti maður kannski að segja Kaliforníu því það fylki er sjöunda stærsta hagkerfi í heimi og að margra mati um margt frábrugðið restinni af Ameríku.
.... við sjáum til