Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Bjarni kveður Glitni með reisn

Strákslegur en ærlegur - þannig finnst mér að lýsa megi Bjarna Ármannssyni, þessu undrabarni íslensks fjármálamarkaðar sem hefur vaxið í takt við vöxt fjármálamarkaðarins hér. Hann var að sönnu afar ungur þegar hann tók við stjórnunarstörfum en þau hefur hann leyst vel af hendi. Glitnir - og forverar þess félags - hefur haft þá ímynd síðustu árin að vera traust félag; ekki alveg eins áhættusækið, eins og það heitir á fagmálinu, og KB banki en liprara og sneggra en Landsbankinn. Ímynd bankans er afar tengd forstjóranum og verkefni nýrra eigenda og stjórnenda verður að passa upp á að sú ímynd bíði ekki hnekki. Það kemur hins vegar ekkert á óvart hvernig um þetta er tilkynnt og að Bjarni sjálfur taki þátt í því og muni fylgja eftir þessum breytingum. Það er einhvern veginn í takt við karakterinn.

Þau skipti sem ég hef hitt Bjarna hefur hann komið mér fyrir sjónir sem hress, röskur og hreinskiptinn og hann hefur ekki legið á skoðunum sínum. Mig grunar reyndar að það leynist í honum svolítill kennari og þess vegna gæti leið hans allt eins legið inn á svið stjórnmálanna síðar meir. Líklega hefur hann haft þá ímynd meðal almennings að vera heiðarlegastur af þessara ungu bankastjóra sem ráða svo miklu um líf okkar og velgengi þessa dagana.

Þess vegna hef ég engar áhyggjur af Bjarna - en kannski pínulitar áhyggjur af bankanum; Bjarni mun eflaust fara á hestbak og gera eitthvað sitthvað áður en hann mun aftur láta að sér kveða í íslensku þjóðlífi. En hann mun skjóta upp kollinum í haust og eflaust koma okkur öllum á óvart með því hvar það verður.


mbl.is Lárus tekur við af Bjarna sem forstjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósið í kosningaham

Ég hafði ekki tíma til að horfa á Kastljós föstudagskvöldsins - en eftir umfjöllun á blogginu skoðaði ég það á netinu. Einnig einræðu Helga Seljan á fimmtudagskvöldið, sem mér finnst eiginlega hálfu verri, því það er ekki venjan að þar haldi menn einræður, slíkt er gert í fréttatímum en ekki í Kastljósinu. Eins og þetta horfir við mér, þá hefur ritstjóra Kastljósins þótt sem fréttastofan væri ekki starfi sínu vaxin og ákveðið að gera Kastljós að fréttastofu - með afar snautlegum árangri. ... eða hvað?

Hvað gengur þeim til, hugsaði maður fyrst, en svo laust niður í kollinn á mér einu mögulegu skýringunni. Ritstjórinn og Helgi eru með þessu að reyna að hjálpa Framsóknarflokknum í kosningunum eftir nokkra daga: Svona umfjöllun, með illa rökstuddum dylgjum, með ómálefnalegum málflutningu og óvanalega dónalegri og hrokafullri framgöngu getur ekki haft annan tilgang en að fá áhorfendur til að finna til samúðar með Jónínu. Ég trúi því a.m.k. ekki að ritstjórinn og Helgi hafi talið sig vera að sinna fréttamennsku, að upplýsa um eitthvað umfram það sem fréttastofan hefði gert eða bæta einhverjum vinkli við. Ég treysti því einfaldlega að hjá Ríkisútvarpinu ohf. starfi ekki svo óhæft fólk.

Svo hér eru tveir vondir skýringarkostir: Annað hvort eru menn að gera nokkuð sem Kastljósið má ekki gera, nefnilega að reyna að hjálpa einum illa stöddum stjórnmálaflokki með svo óvandaðri umfjöllun að menn slá skjaldborg um þann sem fyrir slíku óréttlæti verður, eða þeir eru einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir og gera sig seka um lákúrulegt og óvandað fjölmiðlaeinelti. Hvor kosturinn er nú verri???


Beam me up - Scotty!

Nú öðlast þessi frægasta setning allra Trekkara alveg nýja merkingu! Nú er Scotty kominn upp og getur svona fræðilega séð sótt okkur á sporbaug jarðar. 427039BFræðilega hugsunin var einföld: Tekin var fullkomin þrívíð mynd af viðkomandi, allar frumeindir líkamans síðan leystar upp og skotið sem samþjöppuðum massa og síðan var þeim raðað upp nákvæmlega eins og þrívíddarmyndin sagði fyrir um. Ég hef því smá áhyggjur að ekki nema hluti af ösku Scotty hafi verið sendur á sporbaug. Það þýðir nefnilega að líklega er ekki hægt að raða honum rétt saman aftur. Frown

En er þetta ekki bara til marks um það að á endanum hermir raunveruleikinn eftir listinni. Þeir sem ekki eru búnir að lesa Love Star eftir Andra Snæ, ættu að drífa í því hið snarasta. Hann sá þetta allt fyrir.


mbl.is Scotty skotið út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listina út á götu og fólkið með

mynde_23196Gott framtak hjá hópnum sem stendur að List á landamæra: Færum listina út á götu og látum sem flesta taka þátt. Sem flesta hefur reyndar alveg sérstaka merkingu hér, því eitt markmiðið með þessari listahátíð er að draga fram list þeirra sem ekki komast í meginstrauminn og hljóta sjaldnast viðurkenningu fyrir list sína. Ekki síðri list það en mörg hámenningin, án þess þó ég treysti mér út í miklar listaskilgreiningar ... hef ekki lyst á því, eða þannig.

Sem sagt gott mál hjá þeim og ég vona að sem flestir hafi haldist í hendur hringinn í kringum tjörnina. Eigum við ekki að endurtaka þetta 6. ágúst í árlegri kertafleytingu?


mbl.is Tekið höndum saman umhverfis Tjörnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér líður strax miklu betur

Valgerður Sverrisdóttir er röggsöm kona. Nú er hún búin að tryggja varnir okkar eftir mikið klúður strákanna Davíðs, Halldórs og Geirs, sem leiddi til þess að landið var orðið varnarlaust. Það tók hana ekki langan tíma að ganga frá þessum samningum og þarna er ekki síður litið til samstarfs í öryggismálum á friðartímum - því líklega stafar okkur meiri ógn af stórum olíuskipum á siglingu undan ströndum landsins en óvinveittum þjóðum eða hryðjuverkamönnum. Ég er sérstaklega glaður að hún skuli ekki hafa samið Svía ... það hefði verið vont til afspurnar ef þeir hefðu nú farið að týna kafbátum líka við Íslandsstrendur.
mbl.is Sameiginleg sýn á þróun öryggismála staðfest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumardagurinn fyrsti í grilli

gas-barbeque-grillsÍ tilefni sumarkomu dreif ég í að þrífa grillið eftir að við komum úr Fjölskyldugarðinum í Laugardal þar sem dóttirin yngsta tók þátt í blokkflaututónleikum. Mest myndaði tónlistarviðburður sumardagsins fyrsta trúi ég. Flestir okkar foreldranna höfðu vit á að taka bara ljósmyndir og vera ekki með video. Mikið er ég annars glaður að foreldrar mínir voru ekki með myndbandsupptökutæki þegar ég var níu ára og spilaði á blokkflautu fyrir fullum sal af fólki upp í Breiðholti. En sem sagt, í gær var fyrsti í grilli hjá mér - heldur seinna en hjá sumum nágranna minna.

Vekur upp spurninguna, hvað er það með okkur mannfólkið og grillin? Afhverju eru menn - ja þetta eru nú frekar karlmenn - svona heillaðir af grillum? Af því að grilla? Ég er mikið fyrir að grilla og hef í gegnum árin pælt svolítið í þessu. Svo hér er mín snöggsoðna mannfræðilega skýring: Samfélag manna mótaðist í kringum eldinn; það fór ekki margt merkilegt að gerast með þróun mannskepnunnar fyrr en við lærðum á eldinn, svo við eldstæðið hefur siðmenningin þróast. Þar höfum við sest niður að loknu dagsverki og hitað villibráðina sem við bárum í bú fyrir margt löngu. Við karlarnir sjálfsagt meira en konurnar, sem gátu ekki bara starað í eldinn eins og þar væri svarið við tilgangi lífsins að finna því þær þurftu að sinna ungviðinu og gátu ekki verið eins annars hugar og við.

Já við karlarnir höfum í árþúsundir setið og horft í eldinn. Þessi stund er djúpt greipt í sál okkar og grillið er tengingin sem við höfum við þessa fjarlægu fortíð. Grillið og svo þessi örfáu skipti sem við fáum að verða drengir aftur og kveikja alvöru bál.

Sem sagt: Gleðilegt (grill)sumar.


Til hamingju Þorsteinn Ingi!

"Upphefðin kemur að utan" er stundum sagt og það á svo sannarlega við um margt sem snýr að vetnismálunum. Þorsteinn Ingi hefur um árabil verið óþreytandi í rannsóknum og ekki síður áróðri fyrir vetnissamfélaginu. Hann hefur á síðustu árum verið einskonar vetnissendiherra okkar á erlendri grund þar sem hann hefur kynnt hugmyndir okkar og hugsjónir um vetnissamfélag á Íslandi um miðja þessa öld. Þetta skiptir okkur meginmáli, því við munum ekki vetnisvæða Ísland nema stórir alþjóðlegir aðilar taki vel við sér og hefji framleiðslu á samgöngutækjum og þrói geymslutækni og innviði. Við erum hins vegar með kjöraðstæður til að bjóða upp á tilraunasamfélag, sem getur og hefur efni á að ganga feti framar en aðrar þjóðir í þessum efnum. Þetta verkefni hefur átt sér samnefnara í Íslenski nýorku sem hefur verið í framvarðarsveitinni með tilraunir og þróun.

Það var svo sannarlega kominn tími á hamingjuóskablogg - og hver betur að því kominn en Þorsteinn Ingi! Ég fyriri mitt leyti mun beita mér fyrir því að sett verði upp sérmerkt bílastæði hér við Tæknigarð, þar sem aðeins verður hægt að leggja vistvænum vetnisbílum.


mbl.is Þorsteinn: Mun hugsanlega kaupa mér vetnisbíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórgóð könnun hjá bjartsýnni þjóð!

Samtök atvinnulífsins eiga hrós skilið fyrir að standa að þessari könnun þar sem skyggnst er lengra inn í framtíðina en menn oftast gera. mbl.is finnst það helst fréttnæmt að yfirgnæfandi meirihluti telur að við verðum komin inn í ESB þá - eða þrír af hverjum fjórum. Mér þykir ekki síður merkilegt að samkvæmt könnunni telja rúmlega 60% Íslendinga að við verðum á toppnum hvað varðar lífsgæði eftir 43 ár. Það lýsir bjartsýnni þjóð, sem hefur trú á sjálfri sér og gerir um leið ráð fyrir því að vera komin í ESB. Sýnir það ekki bara enn og aftur að þjóðin er raunsærri og framsýnni en margir stjórnmálamenn í þessu máli?

Þessi könnun er reyndar áhugaverð fyrir marga hluti aðra en spurningu um ESB aðild. Aðferðafræði hennar er skemmtileg, þar sem annars vegar er almenningur spurður og hins vegar var handvalinn hópur áhrifavalda, en þar í hópi er alþingismenn, stjórnendur opinberra stofnana og fyrirtækja, auk fólks úr menningu og listum. Um flesta hluti er góður samhljómur milli þessara tveggja hópa, en ég vek athygli á tveimur atriðum þar sem mikið ber á milli.

Áhrifavaldar telja mun líklegra en almenningur að konum eigi eftir að fjölga mikið í forystustörfum. Það sem verra er, að samkvæmt kynningu á aðalfundi samtakanna í dag, er minnst trú á að þarna muni verða miklar breytingar meðal yngsta aldurshópsins. Það er því verk að vinna að efla sjálfstraust og þor með yngsta fólksins.

Hitt atriðið lítur að ótta manna við að breytt aldurssamsetning þjóðarinn muni kalla yfir okkur margvísleg vandamál og sér í lagi aukna skattheimtu. Meirihluti almennings gerir ráð fyrir að skattar muni hækka en áhrifavaldar hafa meiri trú á getu lífeyriskerfisins til að standa undir þeim kostnaði sem fylgir. Hér er því verk að vinna við að skýra betur þá fjárfestingu sem þegar er til staðar í íslenska hagkerfinu og sem getur staðið undir verulegum fjárfestingumm og velferðarútgjöldum í framtíðinni.

... það sem uppúr stendur er þó bjartsýnin. Hún verður ekki af okkur skafin. W00t


mbl.is Flestir telja að Ísland verði komið í ESB árið 2050
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Only in USA?

Sem háskólaborgari og manneskja er ég harmi sleginn og get vart ímyndað mér þá skelfingu sem svona atburður er. Samkvæmt fréttum var fólki stillt upp og það skotið eins og um aftöku væri að ræða. Ungt fólk mestmegnis sem mætti í skólann þann daginn til að fræðast og taka þátt í samfélagi þar sem einu átökin eru átök hugmyndanna og einu sárin sem menn hljóta eru álitshnekkir og sært sjálfsálit. Ungt fólk sem með réttu átti sér einskis ills von og framtíðina fyrir sér.

Um leið læðast að manni óþægilegar spurningar. Fyrir nokkrum árum hefði ég kannski fullyrt að svona nokkuð gæti bara gerst í Bandaríkjunum. Ásamt mörgum öðrum horfði ég á Bowling for Columbine og fannst hún áhrifamikil birtingarmynd á mjög djúpstæðri þverstæðu í bandarískri þjóðarsál - sjálfsagt meðal annars vegna þess að ég bjó um nokkurra ára skeið í Kanada. Ég er svosem ennþá þeirrar skoðunar að það sé mjög margt að hjá bandarísku þjóðinni þar sem þúsundir manna deyja á hverju ári af skotsárum og þar sem hlutfallslegur fjöldi fanga er slíkur að ef hið sama væri upp á teningnum á Íslandi væri hér stór fangelsisbær með yfir 1.000 íbúa.

En nú set ég spurningamerki við þá fullyrðingu að svona lagað geti aðeins gerst í Bandaríkjunum. Þegar hefur komið upp tilfelli á Bretlandi. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér, en kannski er það bara spurning um tíma hvenær einhver í umhverfi sem stendur okkur miklu nær missir vitið og hefur aðföng og aðstæður til að vinna voðaverk og eins og unnið var í Virginíu í dag.


mbl.is Bush harmi sleginn vegna fjöldamorðanna í tækniskólanum í Virginíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími forystukvenna að renna upp í evrópskum stjórnmálum?

Það er víðar en á Íslandi sem menn segja að nauðsynlegt sé að fá konu til að koma jafnaðarmannastjórn að völdum. Víst er að ekki er vanþörf á að ræsta rækilega út í frönskum stjórnmálum. Þar í landi hafa menn fullkomnað stjórnunarhætti hinna innvígðu og innmúruðu og klætt gamal og spillt lénskipulag í lýðræðislegan búning. Aldurhnignir karlar í reykmettum herbergum hafa ráðið ríkjum og lengi lengi hefur ríkt stöðnun á mörgum sviðum í frönsku atvinnulífi og samfélagi. Þar þarf að opna upp stjórnkerfið, gera það gagnsærra, sannfæra Frakka um að tími sé til kominn að gera margvíslegar og rótækar breytingar og gera samfélagið allt sveigjanlegra. það hafa hægrimenn, sem verið hafa lengi við völd í Frakklandi, ekki getað gert. Til þess þarf frjálslyndan jafnaðarmann og kannski er Segolene Royal nógu frönsk til að sannfæra þjóð sína um að hún sé rétta konan í verkið.

... hvað ætli það sé annars langt í það að maður sjái mynd frá leiðtogafundi ESB þar sem helmingur eru konur?  Mikið væri það gaman - ég tala nú ekki um ef þar í hópi væri líka íslensk kona.


mbl.is Royal og Sarkozy hnífjöfn samkvæmt nýrri könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband