Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Vorar hjá fötluðum í vor?

Þau hafa verið að fara nýjar og skemmtilegar leiðir undanfarin misseri til að vekja athygli á aðstæðum sínum, unga fólkið með fötlun. Vel til fundið hjá þeim að vera með tískusýningu og tengja þannig hugtökin tíska og fötlun. Það eru svo mörg hugtök sem við tengjum ekki við fötlun, eins og fatlaðir séu ekki hluti af því sem viðkomandi hugtak nær til. En ég get fullvissað ykkur um að fatlaðir eru nákvæmlega jafn uppteknir af tísku og aðrir; sumir mikið og fylgjast vel með á meðan öðrum er nokk sama. Það eru ýmis tabú - eitthvað sem ekki er rætt - í tengslum við fatlaða. Kynlíf er eitt. Húmor er annað. Auðvitað má .... já beinlínis á að gera grín að fötluðum, rétt eins og öðrum. Þetta er spurning um jafn-rétti; það á að gera jafn-mikið grín að þeim eins og öðrum.

En þau voru ekki bara að gera grín krakkarnir, heldur er þetta liður í réttindabaráttu þeirra. Sú barátta snýst um viðurkenningu, um þátttökurétt í samfélaginu og um stuðning samfélagsins við þá sem fötlunar sinnar vegna geta ekki eða fá ekki að vinna fyrir sínu lífsviðurværi. Samfélagið hefur ákveðið að veita öllum ákveðið afkomuöryggi. Afhverju skerðist það ef tveir fatlaðir einstaklingar hefja sambúð? Þetta er umræða sem er búið að fara í gegnum á mörgum vígstöðum í sambandi við stöðu kvenna (eða maka - fyrir þá sem eru komnir langt í jafnréttishugsun sinni), að þær eigi að njóta sinna óskertu réttinda án tillits til tekna karlanna. Gildir ekki það sama um fatlaða?

Ég veit að víða í heiminum hafa fatlaðir það verr en á Íslandi. En ég er þess jafn fullviss að við getum gert betur og að við höfum efni á því og vonandi félagslega þroska til að gera það. Svo spurningin sem þessi vortískusýning fatlaðra vekur upp er:  Vorar hjá fötluðum í vor? Svarið kemur upp úr kjörkössunum 12. maí.


mbl.is Vortíska fatlaðra í Kringlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmennt fjölmenningarsamfélag í náinni framtíð

Það er merkilegt hversu þjóðin virðist vera með á nótunum um þá þróun sem er að eiga sér stað og hefur verið undanfarinn áratug. Almenningur jafnvel betur en ráðamenn, ef marka má fréttina. Fyrir tíu árum hefði flestum þótt það fásinna að þjóðinn ætti eftir að tvöfaldast á hálfri öld. Nú finnst fólki þetta eðlileg framtíð.

Nú er það mín skoðun að þetta sé jákvæð þróun og að það verði nánast lífsspursmál fyrir okkur að hún haldi áfram. En við verðum líka að bretta upp ermarnar og reyna að halda í algjöru lágmarki þeim mistökum sem við gerum varðandi þá sem flytjast til landsins - þar höfum við fjölmörg víti til að varast frá Evrópu. Ekki síður þurufm við að varast mistök með sambýli kynslóðanna: Meira en fjórðung þjóðarinn er ekki hægt að ýta til hliðar og loka inn á vistheimilum, heldur þurfa eldri borgarar að vera virkari í þjóðfélaginu og mér þykir líklegt að mín kynslóð muni fremur streitast við að hætta að vinna þegar kemur að núgildandi eftirlaunaaldri fremur en við flýtum okkur.

En það eru miklar breytingar framundan ... umrót síðustu ára er það sem mun einkenna samfélagsþróun á Íslandi næstu áratugina. Þetta veit þjóðin og það er gott.

.... treysti því bara að hún hafi þetta í huga í kosningunum eftir mánuð.


mbl.is Íslendingar telja að þeir verði hálf milljón árið 2050
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn áfram - ekkert stopp?

Þeir hafa þótt standa sig vel, áróðursmeistarar Framsóknarflokksins í síðustu kosningum bæði til landsstjórnar og sveitastjórna. Hvað eftir annað hefur flokknum tekist að ná viðunandi niðurstöðu í kosningum, eftir hörmulegt gengi í skoðanakönnunum og þar hefur áróðurinn hjálpað. En ég hef efasemdir um kosningaslagorðið þeirra: Árangur áfram - ekkert stopp!  Ekkert er nefnilega verra en slagorð sem snýst í hönunum á manni. Menn geta skeytt framan við þetta nær hverju sem þeir eru á móti:

Álver áfram - ekkert stopp!
Stóriðja áfram - ekkert stopp!
Ójöfnuð áfram - ekkert stopp!
Kvótakerfið áfram - ekkert stopp!
Einkavinavæðing áfram - ekkert stopp!
og svo auðvitað Framsókn áfram - ekkert stopp!

Nema að menn vilji snúa því við og segja:

Framsókn í frí - segjum stopp!

.... ég segi bara svona.

E.S. Ég má til með að bæta við þessa færslu ... því það er þegar komin á netið vel útfærður útúrsnúningur á þessu slagorði. Endilega skoðið þetta sjálf.


mbl.is Framsóknarmenn boða áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húmorslaus ofstopaþjóð?

Er í lagi með fólk sem bregst svo illa við bráðskemmtilegri háðsádeilu bandarísks prófessors á fáránlega utanríkisstefnu Bandaríkjanna ... að það hringir í manninn til að hundskamma hann og sendir í tölvupósti fúkkyrði og jafnvel beinar morðhótanir? Nei, ég held ekki. Ég get bara vonað að þetta stafi af vel þekktu fljótræði Íslendinga sem gáfu sér ekki tíma til að lesa fréttina og héldu að blessaður maðurinn væri að leggja þetta til í alvörunni. Ég vona líka að hvatirnar hafi ekki verið þær að rísa svona hressilega upp til varnar fyrir utanríkisstefnu Bandaríkjanna - ef það er tilfellið þá hefur mótast hér ofstopafull fylgispekt við núverandi Bandaríkjastjórn sem ég hef áhyggjur af.

... en líklega á maður bara að brosa að þessu öllum saman; háðið var beitt og gott hjá prófessornum og sönnun þess liggur í hinum hörðu viðbrögðum húmorslausra og hörundsárra Íslendinga.

 


mbl.is Biður þjóðina afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona á að skrifa pólitíska satíru

Stórskemmtileg grein hjá prófessornum sem tekur á öllum helstu þáttum í afar vafasamri utanríkispólitík Bandaríkjamanna síðustu árin: Stríðsgleði sem byggir á öðru en köldu mati á staðeyndum, þar sem ráðist er á lönd án viðundandi undirbúnings, herlið sem á í mesta basli með að hitta skotmörk sín þrátt fyrir að vera hið dýrasta og tæknivæddasta í heimi; og síðast ekki síst sá háttur þeirra að réttlæta þetta allt með því að verið sé að gera þetta fyrir þá sem verið er að sprengja. Svo ekki sé nú minnst á fjármál og fjármögnun sem að baki þessu öllu býr; kannski við Íslendingar getum einn daginn hagnast á því að lána Ameríkönum fyrir eins og hálfu stríði. GetLost  Mæli með að menn lesi greinina alla en ekki bara moggafréttina.

Ég auglýsi hér með eftir safaríkri íslenskri pólitískri satíru .... og talandi um það; afhverju er Spaugstofan alltaf í fríi á páskunum. Ég saknaði þeirra á laugardagskvöldið.


mbl.is Nær að sprengja Ísland en Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og góðu áhrifin eru?

Væntanlega þau að auðveldara verður að rækta tré á Íslandi! Er þetta ekki dálítið sjálfhverfur fréttaflutningur? Aðrir fjölmiðlar benda á hið stærra samhengi, sem er að þeir sem þegar eru verst settir á jarðarkringlunni munu verða enn settur. Um þetta má t.d. lesa svolítið vandaðri frétt á vef BBC.

Við þurfum að fara að fá Halldór Þorgeirsson, sem vinnur hjá IPCC - þeirri stofnun sem stendur fyrir þessari vinnu - til að koma til Íslands og kynna okkur niðurstöðurnar. Þá geta sólarbloggararnir rætt við hann trúverðuleika þeirrar kenningar að þetta sé allt sólinni að kenna.


mbl.is Góð og slæm gróðurhúsaáhrif í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Föstudagurinn lannnngi

Það er við hæfi að pínast á föstudaginn langa. Á Filippseyjum láta menn hengja sig upp á kross. Ég hangi á krossi fróðleikstrésins í dag og þjáist. En í því felst líka námið. No pain no gain, segir máltækið. Ætli það þýddi ekki Engin þjáning, engin þekking í mínu tilfelli.

Hóf í reynd doktorsnám í upphafi þessa árs, þótt formleg staðfesting á því hafi ekki borist fyrr en um miðjan mars. Svo ég er formlegur doktorsnemi núna við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Viðfangsefnið er Þekkingareyjan Ísland og mig langar til að skoða betur þá hröðu þróun þekkingarsamfélagsins sem hefur orðið hér síðustu árin og helstu áhrifavaldana þar. En áður en ég leggst í miklar rannsóknir, þarf ég að byggja undir fræðilegan og ekki síst aðferðafræðilegan grunn minn. Mín þjáning á föstudaginn langa felst því í Eigindlegri aðferðafræði eða öllu heldur afritun gagna og ítarlegum útskýringum sem fylgja og kalla á mikinn innslátt og yfirsetu sem fyllir mig óþoli og útþrá. En þetta var mitt val, svo ég skal sitja yfir þessu þar til yfir lýkur - eða ég gefst upp og fer út í göngutúr. Wink


Ólafur Ragnar - alltaf í útrás

Enn er Ólafur Ragnar á ferðinni við að koma Íslandi á kortið. Það eru rétt um tveir mánuðir síðan ég bloggaði um forseta í útrás og hann virðist óþreytandi við að kynna okkur og koma okkur á kortið þegar kemur að loftlagsmálum. Ég hef tekið undir þá framtíðarsýn sem hann setti fram í áramótaávarpi sínu og sé ekki betur en í Ohio í gær hafi hann verið að fylgja eftir því sem lofaði að sinna þar.

"Ísland sem tilraunastofna í hnattrænum lausnum." Hljómar nokkuð skynsamlega. Það getur verið hlutverk forseta Íslands að vera með sýn á framtíðina, jafnvel þótt bara rétt um helmingur þjóðarinnar sé kominn á sömu skoðun. En hinn helmingurinn er þó farinn að tala um umhverfisvæn álver ... það er allavega í áttina.


mbl.is Íslenskir háskólar gera samninga við Ohio-háskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig framtíð viljum við?

Það er við hæfi að viðamikil skýrsla sérfræðinefndar Sameinuðu þjóðanna skuli koma út á föstudaginn langa. Sjálfsagt engin tilviljun heldur. Það er þó full djúpt í árina tekið að draga þá ályktun að mannkynið sé með mengun sinni búið að krossfesta sjálft sig. En við erum í vondum málum ... það eru fréttirnar í þeim upplýsingum öllum sem nú koma frá vísindasamfélaginu. Ekki við verðum í vondum málum er við gerum ekki eitthvað róttækt, heldur við erum í vanda stödd.

Sem Íslendingur getur maður kannski verið nett kærulaus. Hvað með það þótt hlýni? Það verður bara lífvænlegra á Íslandi; sumarið og gróðurtíminn lengist og mannlífið braggast að sama skapi. Hér verður allt orðið skógi vaxið milli fjalls og fjöru aftur eftir tvö hundruð á og landbúnaður þrífst sem aldrei fyrr. Það er ekki laust við að maður taki þátt í þessari tilhlökkun, þótt með samviskubiti sé.

En það er önnur hlið á þessu, sem svolítið er farið að örla á og sem ég er ekki par hrifin af. Rökin eru á þá leið að með öllum þeim skógi sem hér er pláss til að græða upp og verður æ auðveldara eftir því sem hlýnar, gætum við síðan leyft okkur að byggja enn fleiri álver. Ég heyrði ekki betur en húsvíkingar væru að hugsa á þessum nótum. Framlag okkar til þess hvernig tekið verður á loftlagsmálunum á alþjóðvettvangi verður að bjóðast til að nota alla okkar endurnýjanlegu orku til að framleiða ál og annan iðnvarning - af því það verður allt svo vistvæn mengun!

Það sem gerir næstu vikur svo skemmtilegar er að það verður tekist á um alvöru mál í íslenskri pólitík næstu 40 dagana. Hvað sem fólki kann að finnast um þessi flokksbrot og upphlaup af ýmsum toga, þá er núna spurt: Hvernig framtíð viljum við?

... vonandi velta sem flestir því fyrir sér áður en þeir taka ákvörðun um hvern þeir kjósa í kosningunum í vor.


mbl.is Loftslagsbreytingar ógna lífi hundruð milljóna manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju hafnfirðingar .... (og þó)

Hafnfirðingar höfnuðu stækkun í kosningum sem vöktu athygli fyrir mikla þátttöku og það hversu hnífjafnar fylkingarnar voru. Í þessu felst varnarsigur fyrir þá sem voru á móti stækkuninni, en ekki meira en það nema fyrir þá sem voru á móti því einu að stækkunin yrði í Hafnarfirði. Fyrir þá sem eru á móti álversvæðingunni þá var þetta enginn sigur, því nú tvíeflast Suðurnesjamenn og kom fram í fréttum í kvöld að áætlunum verður kannski flýtt þar og byrjað að bræða strax eftir þrjú ár. Þar verða engar kosningar og þar virðist meirihluti bæjarbúa vera áfram um að fá álver. Það sama gildir á Húsavík - þannig að kannski eiga hamingjuóskir dagsins að fara til suðurnesjamanna og húsvíkinga.

Fyrir þá sem berjast fyrir nýrri sýn á íslenskt atvinnulíf og annars konar notkun á okkar verðmætu orku var þetta bara varnarsigur. Kannski örlítið meira. Kannski verður þjóðarsátt um að leyfa bara eina virkjun í viðbót og að svo skuli hætt. Svona eins og þegar alkinn segir, æ bara eitt fyllerý enn og svo er ég farinn á Vog!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband