Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Moggablogg tekið í notkun aftur

Ég hef ekki notað bloggið hér á mbl.is síðan um mitt sumar 2009 af mörgum ástæðum. Ég vildi þó ekki loka því alveg þar sem ég var búinn að leggja í svolitla vinnu við að setja inn myndir og ættingjar og vinir hafa stundum kíkt hér í heimsókn sé ég á flettingum - því ég hef vísað í þessa síðu á snoppu.

Ég hef nú gefið kost á mér í kosningum til stjórnlagaþings og því ætla ég að virkja þetta svæði aftur og hafa myndirnar sem fyrr opnar öllum almenningi. Jafnframt mun ég setja inn efni tengt framboði mínu, eftir efnum og ástæðum til að ná til þess lesendahóps sem hér rekur inn nefið fremur en á snoppu.

Kosningar til stjórnlagaþings eru persónukjör - fólkið í landinu velur 25 einstaklinga sem það treystir í þetta verkefni. Vitaskuld mun afstaða frambjóðenda í nokkrum lykilmálum skipta máli, en það er breið samstaða um hluta af þeim breytingum sem gera þarf. Því mun valið að nokkru leyti snúast um traust á frambjóðendum. Því finnst mér eðlilegt að svara þeim spurningum sem til mín kann að vera beint og hafa opið hér fyrir því sem ég hef áður bloggað og fyrir myndasafninu sem sýnir óskaup venjulegan Íslending í leik og starfi.


Loksins, loksins

Þetta er söguleg stund og afar jákvætt að Íslendingar stigi loksins loksins þetta skref að sækja um aðild. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við hefum átt að fara inn með Svíum og Finnum - en betra er seint en aldrei. Á næstu 3-4 mánuðum þurfa íslenskri embættismenn að semja vönduð svör við þeim spurningum sem lagðar verða fram þannig að eiginlegar aðildarviðaræður geti hafist strax eftir áramót. Ég hef enga trú á öðru en að þær muni ganga vel og meginlínur verði farnar að skýrast í árslok 2010. Þá mun hin eiginlega og "upplýsta" evrópuumræða fara af stað á Íslandi.

Til hamingju Samfylkingarfólk að hafa haft frumkvæði og forgöngu í þessu máli.


mbl.is Afhenti Svíum aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér þarf ekkert að skoða - heldur framkvæma og það hratt

Sem einarður stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar er ég algerlega miður mín eftir þetta viðtal við Evu Joly í kvöld. Ég hélt í einfeldni minni að auðvitað væri þessi ríkisstjórn búin að setja aukinn kraft í þá rannsókn sem ákveðin var af Sjálfstæðismönnum ... svo ekki sé nú minnst á að setja til verka fagmenn sem hafa reynslu og kunna til verka. Það var ekki bara Spaugstofunni ljóst þegar núverandi "sérstakur" saksóknari var ráðinn að hann hafði hvorki reynslu né burði til að valda verkinu. Þess vegna var hann valinn af Sjálfstæðismönnum.

Ríkisstjórnin hefur nú þessa frægu 48 tíma til að bregðast við .... setja fjármagn sem nemur a.m.k. einni skilanefnd í rannsóknina og ráða þangað fullt af hæfu fólki - hér þarf ekkert að skoða né heldur íhuga; aðgerðaleysi er það sama og skýr yfirlýsing um að vilja ekki að sannleikurinn komi fram. Og síðan þarf að setja núverandi ríkissaksóknara á eftirlaun. Ég kýs að trúa því - þar til annað kemur í ljós - að frá þessu verði gengið innan tveggja daga; hér þarf enga skoðun, lagaflækjur né langlokur, bara einfaldlega pólitískan vilja til að gera það sem er rétt í þessu máli.


mbl.is Skoða þörf á auknum útgjöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju Ísland ...

... með fyrstu meirihlutastjórn tveggja vinstri flokka
... með norræna velferðastjórn
... með öfluga framvarðarsveit íslenskra kvenna í ríkisstjórn
... með ítarlegan og vel unninn málefnasáttmála
... með væntanlega umsókn um aðild að ESB
... með væntanlegar stjórnkerfisumbætur og stjórnlagaþing
... með réttlátari tíma í vændum.

Það var viðeigandi að kynna þessa ríkisstjórn í Norræna húsinu á Mæðradaginn; táknrænt gildi þess slær tóninn fyrir starf þessarar ríkisstjórnar sem við öll eigum svo mikið undir.


mbl.is Ný ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil vonbrigði

Það eru mikil vonbrigði ef niðurstaða málsins verður sú að þetta mál verður tekið af dagskrá - en undirstirkar um leið sterkustu rökin fyrir því að koma á stjórnlagaþingi sem setur nýjar leikreglur fyrir íslenskt lýðræði. Alþingi getur ekki tekið ákvarðanir um grundvallarbreytingar miðað við núverandi fyrirkomulag.

Skömm sjálfstæðismanna í þessu máli er mikil. Þeir hafa nú hröklast frá völdum eftir að hafa stjórnað öllu í 18 og skilja eftir sig sviðna jörð, en finnst samt sæma að beita öllum lákúrum í bókinni til að stöðva lögfestingu á þjóðareign náttúruauðlinda og koma í veg fyrir aukna möguleika á þjóðaratkvæðagreiðslum. Það eru aum örlög flokks sem kennir sig við sjálfstæði að vera ekki við neitt hræddari en þjóð sína.

Ég hafði vonast til að Jóhanna og Steingrímur myndu neyða þá til að tala sig hása um málið fram á kosningadag, til að tryggja að fylgi þeirra verði örugglega nógu lítið á næsta kjörtímabili til að unnt verði að koma á Stjórnlagaþingi þrátt fyrir þeirra andstöðu. En kannski er það rétt sem kom fram í þinginu í gær að gríman er fallin. Ég þekki m.a.s. nokkra góða og flokksbundna Sjálfstæðismenn sem hafa ákveðið að sitja heima á kjördag af skömm yfir framgangi FLokksins á síðustu vikum.


mbl.is Stjórnarskrá ekki breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brandari eða yfirbreiðsla?

Þessi ummæli eins reyndasta saksóknara í efnahagsbrotamálum hljóta að kalla á spurningu sem er svolítið óþæileg fyrir síðustu ríkisstjórn og þá Sjálfstæðismenn sérstaklega sem fóru með þennan málaflokk. Hvort voru þeir menn sem ákváðu - eftir hreint ótrúlega umþóttunartíma - að hafa embættið, umsvif þess og fyrirkomulag með þeim hætti sem ákveðið var a) skelfilega einfaldir og því ekki starfi sínu vaxnir, eða b) beinlínis og vitandi vits að gera rannsóknina eins máttlitla og mögulegt er.

Ef svarið er a), þá getum við þó glaðst yfir því að þeir eru ekki lengur í aðstöðu til að ráða þessum málum og við erum a.m.k. komin með faglegan erlendan ráðgjafa - sem vonandi leiðir til þess að ráðinn verði alvöru saksóknari með alvöru reynslu við hliðina á þessum prúða pilti ofan af Skaga. Ef svarið er b), þá verður bara enn meira sem embætti hins sérstaka saksóknara þarf að rannsaka.


mbl.is Gagnrýnir fámenna rannsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálshyggjustefna með slæmum afleiðingum

Stefán Ólafsson var mjög góður á þessum fundi. Hann var kannski ekki að segja margt nýtt nema í lokin. Á valdatíma Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2007 og þá sérstaklega eftir 1995, jókst ójöfnuður í landinu í þeim skilningi að þeir sem hæstu tekjurnar höfðu fengu æ stærri hlut af heildartekjunum og nærri tvöfölduðu sinn hlut. Allt í boði skýrrar og yfirlýstrar stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessu þarf að halda til haga í komandi kosningum; það var ekki fólkið sem brást, heldur er sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn tefldi fram og sú frjálshyggjutilraun sem hann fékk að gera með íslenskt samfélag, meginskýring þeirra ófara sem íslenskt samfélag rataði í.

Samhliða æ meiri ójöfnuði í tekjum manna var skattkerfinu breytt þannig að það ýtti undir og magnaði þennan ójöfnuð þannig að þeir tekjulægstu greiddu æ hærra hlutfall af tekjum sínum í skatta og þeir tekjuhæstu æ lægra hlutfall. Þetta sýndi síðan Indriði enn betur fram á í sínum fyrirlestri. Það sem var nýtt - fyrir mig a.m.k. - var að þessi þróun stöðvaðist árið 2007 og var snúið við árið 2008 þegar Samfylkingin var komin í stjórn með Sjálfstæðismönnum. Stóra verkefnið framundan hjá jafnaðarmönnum er að leiðrétta þessa öfugþróun - alveg sérstaklega hvað varðar jöfnunarhlutverk skattkerfisins. Ég fyrir mitt leyti skorast ekkert undan því að taka á mig auknar skattbyrgðar.


mbl.is Hrunin frjálshyggjutilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

fólk = Davíð og Geir

Þetta er athyglisverð rassskelling á núverandi og fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins; þeir hefðu að ósekju mátt benda á hið augljósa að fólkið sem mest brást voru formennirnir Davíð og Geir. Davíð þó öllu meir ef marka má skýrsluna. Það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðismenn að hefja eigin endurreisn á því að viðurkenna þetta og segja opinberlega. Tímasetningin er varla nein tilviljum heldur; Davíð loksins kominn úr Svörtuloftum þar sem hann hefur gert hver mistökin á fætur öðrum á stuttum ferli Seðlabankastjóra og Geir á leiðinni í veikindafrí.

En í þessu felst svolítið mikið sjálfsafneitun að segja að ekkert hafi verið rangt í stefnunni; Sjálfstæðismenn hafa haldið um stjórnartaumana síðan 1991 og á þeim tíma hefur samfélagið allt þróast á máta sem við í dag erum að endumeta því það kom í ljós að eitthvað mikið var að. Það var ekki bara að nokkrir kallar gerðu mistök og nokkrir aðrir sem reyndust of gráðugir, heldur dönsuðu alltof margir með í kringum gullkálfinn. Og Sjálfstæðisflokkurinn sló taktinn í þeim dansi. Það þarf hann að horfast í augu við og viðurkenna. Fyrr er honum ekki treystandi til að koma aftur að stjórn landsins.


mbl.is Stefna brást ekki, heldur fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver springur á Sprengidag?

Springur Höskuldur á limminu og lætur undan og samþykkir að hleypa málinu áfram þannig að hægt sé að skipta út yfirstjórn lamaðs Seðlabanka?

Springur Davíð Oddsson í Kastljósi í kvöld - annað hvort úr áframhaldandi yfirgengilegum hroka gagnvart þjóð sinni eða springur hann út sem hreinskilinn stjórnmálamaður og biðst einlæglega afsökunar á því að hafa leitt nýfrjálshyggjuna til hásætis í íslensku samfélagi?

Eða springur Framsóknarflokkurinn á limminu og tilkynnir að hann ætli í stjórn með Sjálfstæðisflokknum og stjórnin sé því sprungin?

Ég er alveg að springa úr spenningi yfir hver springur fyrst


mbl.is Höskuldur í háskaför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó vakna þú mín Þyrnirós hjá efnahagsbrotadeildinni

Atli var afar góður í Silfri Egils og málefnalegur að vanda. Sé að bloggarar eru efnislega sammála honum þótt einhverjum þyki langt um seilst að tala um útlegðardóma. En í máli hans fellst áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu og þá sérstaklega íslenska dómskerfinu, sem Egill áttaði sig ekki nægilega vel á til að slá því upp sem meginatriðinu í því sem Atli var að segja. Afhverju er ekki búið að hefja rannsókn á a.m.k. þeim fjórum málum sem Atli nefndi? Það getur vart verið önnur skýring á því en sú að embætti ríkissaksóknara sé beinlínis og að beinum eða óbeinum fyrirmælum stjórnvalda að koma sér hjá því að taka upp rannsókn á málum sem blasa við öllum að þurfi rannsókna við - þ.e. öðrum en þeim sem þar eru í forsvari. Við verðum bara að treysta því að nýr dómsmálaráðherra, sem situr m.a. í umboði Vinstri-grænna, fari nú að vekja ríkissaksóknara af þeim Þyrnirósarsvefni sem hann hefur sofið.

Ef það er rétt, að einungis eitt mál sé til rannsóknar þar, á blessaður maðurinn auðvitað að segja af sér - því öll samalögð efnahagsbrot Íslandssögunnar síðasta árþúsundið, eru sem hjóm eitt í samanburði við það sem líklegt er að gerst hafi hér síðustu átta árin. Við þessar aðstæður sem nú eru, ætti alllur mannafli ríkissaksóknara að fara í að rannsaka þá efnahagsglæpi sem framdir voru á síðustu árum og það má að skaðlausu gleyma öllu búðarhnupli og ólöglegri plönturæktun á meðan. Jafnframt ættu skattayfirvöld að geyma allar rannsóknir og allt vsk eftirlit með smáreikningum lítilla rekstraraðila og einhenda sér í að rannsaka skattsvik og umsboðssvik af ýmsu tagi sem líklegt er að hafi átt sér stað og skaðað þóðina meira en öll samanlögð skattasvik frá því landið byggðist - og er þá mikið sagt, því til byggðar var hér upphaflega stofnað af skattsvikurum sem vildu ekki gjalda skatt í Noregi. Það heitir að forgangsraða og er verkefni sem allir stjórnendur, bæði hjá fyrirtækjum og hinu opinbera, þurfa að gera; og í glæpum þá hlýtur forgangsröðunin að vera sú að fyrst beri að rannsaka hina stærri glæpi og alvarlegri og skal þá miðað við þann skaða sem af þeim hlaust. Ef mannskapur og fjárveitingar duga ekki til að komast fyrir að rannsaka allt, þá þarf að forgangsraða, rétt eins og nauðsynlegt mun reynast í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu o.s.frv.


mbl.is Útrásarvíkingana á válista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband