Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Næst síðasti dagur ársins 2008

Á næst síðasta degi ársins sest ég stundum niður og lít yfir farinn veg. Maður er gjarnan of upptekinn á sjálfan gamlársdag til þess. Þetta er jafnframt svona afmælisfærsla, því ég bloggaði fyrst þennan dag fyrir tveimur árum. Hér kemur matið á árinu 2008 og fyrst er það sem mestu skiptir börnin sjálf.

Sá elsti, Unnar Steinn, plummar sig vel í starfi hjá CCP. Hann er núna búinn að vera þar í tvö ár og er ánægður með starfið og ber þar ábyrgð á gagnagrunni leiksins sem afkoma fyrirtækisins hvílir á - svo við höfum ekki miklar áhyggjur af því að hann haldi ekki vinnunni. Sá næst elsti, þótt litlu muni, Hjörtur, heldur sínu striki í náminu og stefnir á að ljúka prófi í nútímafræðum frá Háskólanum á Akureyri næsta vor. Hann er í góðum málum og búinn að dvelja síðan síðla sumars í Mexíkó og taka þar eina önn við fínan tækniháskóla sem metin er að fullu sem hluti af náminu fyrir norðan. Hann eyðir áramótunum með kærustunni í Suður Ameríku svo það væsir ekki um hann.

Elsta dóttirin hún Embla lifir viðburðarríku lífi sem aldrei fyrr. Það voru henni vonbrigði að komast ekki á Ólympíuleikana í Peking í sumar - en það var ekki við hana að sakast; hún gerði sitt besta og er efst á heimslistanum í eini grein og í top tíu í tveimur öðrum. Málið er bara að það eru svo fáar konur sem keppa í þessum fötlunarflokk að það var ekki blásið til keppni nema í einni grein - sem vill svo til að er hennar lakasta. En í stað þess að láta þetta á sig fá hefur hún snúið sér að öðrum áhugamálum og flutti á árinu fyrirlestra við helstu háskóla landsins um þá áskorun sem fötlun er og einnig um kynjafræði og fötlun. Það má eiginlega segja að hún sé orðin fastur fyrirlesara bæði fyrir norðan og við Háskóla Íslands. Ekki slæmt hjá 18 ára stelpu sem enn er í framhaldsskóla.

Þau yngstu tvö eru líka á góðu róli á sinni þroskagöngu. Ásdís Sól þroskast hratt og gekk bara vel á sínum fyrstu samræmdu prófum og stóð sig frábærlega í íslensku. Hún les, hannar, teiknar og skapar alla daga og dreymir nú um að verða í senn fræg leikkona og rithöfundur. Sá yngsti Óðinn-sen er hins vegar ákveðinn í því að verða vísindamaður og fer ekkert í grafgötur með það að stæðrfræði og þess háttar sé nú lítið mál fyrir hann. Hann var valinn í skólalið Ísaksskóla í skák og keppti á sínu fyrsta skákmóti á árinu og fékk líka gula beltið í karate undir lok ársins. Ekki slæmt hjá 7 ára gutta.

Öll eru því börnin upptekin hvert á sinn heilbrigða hátt og öll í góðum málum. Er það mikil gæfa fyrir okkur foreldrana sem að þeim stöndum. Eftir því þarf maður að muna þegar vonbrigði og reiði ríkja innra vegna ástandsins í þjóðlífinu og með frammistöðu stjórnmálamanna sem maður trúði á. Börnin hafa svo sannarlega ekki brugðist, heldur þvert á móti eru gleðigjafar sem við erum stolt af.

Af okkur sjálfum segir kannski mest af vinnu - enda er það nú svo með fólk á miðjum aldri með börn á öllum aldri og í krefjandi störum að þetta er tvennt er svotil allt lífið. Huldan heldur áfram á góðu róli sem framkvæmdastjóri hjá Starfsmennt, sem hélt áfram að vaxa og dafna undir hennar stjórn. Hjá henni ber líklega hæst á þeim vettvangi að hafa fengið Starfsmenntaverðlaunin sem forseti Íslands afhendir ávallt. Árið gekk líka vel hjá Rannsóknaþjónustunni og þeim verkefnum sem ég ber ábyrgð á. Svo vel að allt var í stakasta lagi þegar ég kom til baka úr 10 vikna námsleyfi til Bretlands. Ég get lítið kredit tekið fyrir það annað en að hafa valið gott fólk með mér og verið heppinn í starfsmannahaldi.

Persónulega stendur námsleyfið uppúr fyrir margra hluta sakir. Það voru mikil forréttindi að fá að kúpla sig út úr daglegu lífi að mestu í 10 vikur og lifa lífi námsmanns og geta einbeitt sér að því að læra það sem mig skorti uppá fræðilegan grunn. Um leið voru þetta harla óvenjulegir tímar til að vera fjarri fjölskyldu og starfi svo lengi - en þó ekki svo fjarri með alla miðla aðgengilega á neti og netsíma sem kostar lítið sem ekkert og hefur gerbreytt öllum samskiptum milli landa. Ég hef ekki í annan tíma legið svona mikið á netinu! Það gat líka verið óþægileg reynsla að vera íslendingur í Bretlandi - eins og þegar aðstoðarrektor Sussex háskóla kom sérstaklega til mín því hann vissi þjóðerni mitt frá fyrri fundi okkar til að segja mér að háskólinn ætti 3,5 milljónir punda inná Icesave reikningi. Hvað gat maður annað gert en orðið óskaup vandræðalegur og reynt að tafsa einhverjar afsakanir.

Þrátt fyrir þessar annarlegu aðstæður þá gekk námið samkvæmt áætlun og nú í árslok er ég búinn að halda þá áætlun sem ég gerði fyrir tveimur árum þegar ég var samþykktur sem doktorsnemi við Háskóla Íslands. Nú er ég búinn að ljúka öllum formkröfum sem gerðar voru og fól m.a. í sér að ljúka 45 gömlum einingum eða einu og háflu ári í fullu námi. Fyrir utan námsleyfi í haust hef ég gert þetta samhliða fullu starfi - svo ég er sáttur. Nú er „bara" doktorsritgerðin sjálf eftir - en ég áforma að vera kominn með heildaruppkast í lok næsta árs.

En lífið er ekki eintóm vinna; við höfum líka haft tök á að fara í frí og skemmta okkur. Ber þar hæst tvær ferðir. Önnur til Danmerkur þar sem við dvöldum bæði í Kaupmannahöfn og hjá Molbúunum og líkaði það vel. Því miður gleymdist myndavélin í þeirri ferð en sú varð ekki raunin þegar við gerðum mikla og góða reisu á Vestfirðina sem skörtuðu sínu fegursta fyrir okkur. Fengum við slíka blíðu að elstu menn muna vart annað eins á Patreksfirði. Er þessu gerð skil í sérstöku myndaalbúmi hér á blogginu.

Á heildina litið var þetta gott ár fyrir mig og mína nærfjölskyldu. Vel gekk í vinnu hjá okkur sambýlingunum og börnin döfnuðu öll og þroskuðust vel. Við lentum ekki í neinum hremmingum sem orð er á gerandi við bankahrunið. Góðærið ærði okkur ekkert og fór eiginlega að mestu framhjá okkur því við keyptum hvorki hús, bíla né hjólhýsi og ekki einu sinni flatskjá og tókum fyrir vikið hvorki verðtryggð lán né í evrum. Við erum því að vona að kreppan fari jafn hljóðlaust hjá garði eins og góðærið gerði.

... ég enda á þessum jákvæðum nótum. Ég ákvað rétt fyrir jólin að haga mér eins og strúturinn um hátíðarnar og stinga höfðinu í sandinn um stund og útiloka öll þau óskaup og ósvinnu sem eru í gangi allt í kringum okkur. Það verkefni bíður næsta árs að opna almennilega augun og ákveða hvað maður getur gert í því. Þangað til 2009 gengur í garð ætla ég að njóta þess um stund að þetta var gott ár fyrir mig og mína.


Afmæli, verðlaunaveiting og fiskisúpa

Ég gerði stutta en góða ferð til Íslands, sem gæti heitið frá fimmtudagskvöldi til mánudagsmorguns. Á föstudaginn héldum við upp á 20 ára afmælli Tæknigarðs og veittum einnig Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands í tíunda sinn. Það var góð mæting og góð stemming, enda komu um 150 manns til okkar. Sigmundur Guðbjarnason, fyrrverandi rektor rifjaði upp það umhverfi sem var þegar hugmyndum um Tæknigarð var ýtt úr vör og við gáfum út Afmælisrit um Tæknigarð þennan dag, þar sem eru 77 örsögur af fyrirtækjum í Tæknigarði sem hann Hjörtur sonur minn vann í sumar. Er ekki enn komið á netið - en ég skelli inn hlekk þegar það verður sett þangað. Rögnvaldur Ólafsson fyrsti framkvæmdastjóri Tæknigarðs fllutti einnig tölu og í lokin sagði Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor nokkur vel valin orð við okkur öll.

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands 2008Hópur verðlauna-hafa var óvenju stór eins og sést á mynd-inni, þar sem auk verðlauna-hafa og mín eru formaður dómnefndar og háskólarektor. Enda fengu sex manns fyrstu verðlaunin fyrir verkefni sem kallað er gönguhermirinn og ef vel gengur mun nýtast til gönguþjálfunar fatlaðra einstaklinga. Það voru kennarar og nemendur úr verkfærði og sjúkraþjálfun sem fengu verðlaun og ein þeirra er vinkona Emblu minnar frá því í Reykjadal og því gaman að Embla mætti í afmælið. Í öðru sæti var verkefni um skráningu gagna úr sjúkraþjálfun - sem ekki eru skráð með skipulegum hætti í dag eins og margar aðrar heilsufarsupplýsingar. Í þriðja sæti var síðan sagnfræðilegt verkefni um Spánverjavígin 1615 - sem sagt ramm vestfirskt! Sjá nánar um þetta á heimasíðu Rannsóknaþjónustunnar.

Á laugardeginum var síðan tími fyrir hluta af stórfjölskyldunni en þá bauð ég mömmu og heilsystrum mínum ásamt þeirra fjölskyldum í fiskisúpu. Í henni var meðal annars þorskur sem ég veiddi fyrir vestan í sumar. Næsta sumar ætla ég að reyna að elda fiski- og kræklingasúpu eins og þessa aftur, nema bara helst eingöngu úr hráefnum sem ég hef veitt og ræktað sjálfur. Maður verður að setja sér skynsamleg markmið í kreppunni.

Sunnudagurinn var síðan helgaður kjarnafjölskyldunni. Ég fór með krúttin í sund og mikið agalega var gott að komast í heitan pott þótt vindurinn af Esjunni væri ansi hreint kaldur. Svo var farið í bíó og loks borðuð pizza þannig það var sannkallað barnaprógramme. Og nú taka við síðustu þrjár vikurnar hér í Brighton sem enda með lokaprófi þann 12. desember.


Uppfærsla á Hávamálum

Hávamál hafa alltaf staðið mér nærri og mér þótt margt til þeirra mega sækja. Svo er um erindið hér að neðan:

Er-at maður alls vesall,
þótt hann sé illa heill.
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.

Víst er um það að flestir geta verið af sælir yfir einhverju þótt ekki sé allt eins og best verður á kosið. En þetta er ansi karllægur texti og ekki gert ráð fyrir að menn væru mikið að stæra sig af dætrum sínum eins og ég hefur svolítið verið að gera - nú hvað þá konum sínum!

... svo hér ný ending:

sumur er af dætrum sæll,
sumur af sonum,
sumur af konum,
sumur af sköttum ærum.

Svo til viðbótar við dótturraup í síðustu færslu vil ég benda lesendum á stórgott viðtal við konu mína í Okkar á milli þættinum sem var á dagskrá Rásar 1 21. febrúar og verður hægt að hlusta á um tíma á netinu. Kom í ljós sem ég vissi að hún hefur afar þægilega útvarpsrödd. Sjá: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4390026


Góður dagur hjá Emblunni

Það má nú ekki minna vera en ég rjúfi tveggja mánaða bloggþögn eftir góðan dag hjá Emblunni í gær. Eins og kemur fram í fréttinni þá fékk hún styrk úr afrekskvennasjóði Glitnis og ÍSÍ að upphæð 350.000 kr. Þær sjö sem fengu þennan styrk - úr hópi nærri hundrað umsækjenda - eru allar að keppa að því markmiði að komast á Olympíuleikana í Pekíng síðar á þessu ári. Þær munu því allar þurfa að leggja mikið á sig á næstu vikum og mánuðum og svona styrkir auðvelda það og eru líka hvatning. Ég veit að Emblan var ekki síst imponeruð yfir sjóðsstjórninni sem tekur ákvörðun um hverjir fá styrk - allt miklar afrekskonur þar.

En dagurinn var ekki búinn - því þessi styrkveiting fór fram í hádeginu. Eftir æfingu fórum við á Grand Hótel þar sem veittar voru viðurkenningar þeim 570 ungum Íslendingum sem settu Íslandsmet á síðasta ári eða voru Íslandsmeistarar. Fríður flokkur og allir fengu kristalpýramída í boði Spron.

Þá var bara kvöldverðurinn eftir og mér fannst kominn tími til að Emblan fengi afmælisgjöfina sína - sem átti að vera eitthvað fínt út að borða. Hana langaði að prófa Vox - svo þangað fórum við og vorum svo heppin að fá borð þrátt fyrir að Food and fun hátíðin væri að byrja. Við sögðum í gríni að við værum að víga hátíðina því við vorum sest að borði kl. 7 og því fyrst til að panta. Maturinn var auðvitað frábær og við vorum alveg fullsödd þótt við tækjum "bara" 4 rétta matseðilinn, en ekki 8 rétta seðilinn!

Til að toppa daginn þá birtust fínar myndir í íþróttafréttum eftir tíu fréttirnar af Emblunni og Sonju að taka við viðurkenningu og blómum frá því fyrr um daginn. Sem sagt góður dagur og hvetjandi.


mbl.is Afrekskonur í íþróttum fá styrki á ólympíuári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litla stelpan - lítil saga um takmörk og markmið

Ég hvet ykkur eindregið til að lesa nýtt blogg hjá Emblunni sem heitir Litla stelpan.

... svona vísar maður bara á aðra þegar maður hefur ekki tíma eða kjark til að blogga sjálfur um það sem skiptir máli.


Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang

... eins og guð hafði sjálfur í öndverðu hugsað sér það.  Ég tek undir með Steini Steinarr: Manni finnst þetta dálítið skrýtið þegar dagarnir ganga eins og þessi dagur:

Vaknaði í myrkri og drunga og var ekki alveg að fíla þetta morgunmyrkur, en heitt bað og hálfur lítri af vatni kom þessum vatnsskrokki af stað út í morguninn.
Lagði lokahönd á undirbúning að svolitilum skipulagsbreytingum og mannatilfærslum, en þurfti að taka það allt til endurskoðunar um leið og því var lokið því forsendur breyttust fyrirvaralaust. Langar þig að vinna hjá okkur á Rannsóknaþjónustunni? Skoðaður þá atvinnuauglýsingarnar bráðum.
Fór eftir hádegi í dæmatíma í tölfræði og rannsóknaraðferðum þar sem ég komst að því að það er ekki nóg að skilja tölfræðina til að ná þessum áfanga sem ég er í -  nei ég verð að setjast niður og reikna dæmi. Mörg dæmi. Gaman gaman (not).
Þar sem ég er í tíma er hringt úr skólanum og stórleikarinn yngri dóttir mín, sem stóð sig með stakri prýði sem Öskubuska í gærkvöldi á bekkjarsýningu, hafði dottið á höfuðið svo ég fór og sótti hana enda var móðirin enn meira upptekin en ég.
Hún reyndist ekki stórslösuð heldur bara svolítið lítil í sér, svo ég mútaði henni með sódavatni og smá blandi í poka og tók hana með mér á stuttan fund upp í Læknadeild - þar sem við gengum fram hjá líffærasafni og fleira skemmtilegu. Hún teiknaði meðan ég talaði á tvöföldum hljóðhraða.
Til að toppa daginn endanlega var svo stjórnarfundur í lok dags í félagasamtökum þar sem ég sit fyrir háskólastigið - verkefnið er núna að gera félagið upp og leggja það niður, því þar er óreiða og ókláraðir hlutir og líka skuldir sem við félagsaðilarnir þurfa að hreinsa upp. Það er aldrei skemmtilega að moka flórinn eftir aðra.

Sem sagt miðvikudagur og lífið gengur sinn gang - og miðvikudagskvöldið tók við með höfuðborgarakstri því á miðvikudögum sæki ég sunddrottninguna á æfingu og fer með hana í eitthvert nágranasveitarfélag - annað hvort á söngæfingu eða bara heim. En þær eru ljós í þessu skammdegi sem skollið er á, þessar dætur mínar. Smile 


Stoltur faðir

Eldri dóttirin stendur í stórræðum þessa dagana. Í gær flutti hún lokaerindi á fjölmennri ráðstefnu um Tómstundir barna með sérþarfir, sem Æfingastöð Styrktarfélags lamaðara og fatlaðra stóð fyrir í Rúgbrauðsgerðinni. Þetta er fyrsti opinberi fyrirlesturinn sem hún flytur - með glærum og öllu saman - en örugglega ekki sá síðasti. Hún stóð sig afar vel og fékk salinn vel með sér og var vel fagnað í lokin. Auðvitað var pabbinn afar stoltur.  Erindið hér "Af hverju skipta tómstundir máli?" og þar sagði Emblan frá söngnámi sínu, veru í Skólalúðrasveit Mosfellsbæjar og síðan sundinum sem hún hefur æft núna í 7 ár.

Ég sótti ekki nema síðasta hluta ráðstefnunnar, en þar voru m.a. kynntar ansi sláandi niðurstöður um félagslíf og tómstundastarf barna með sérþarfir; því miður er meirihluti þeirra ekki virkur í félags- og tómstundastarfi og er fyrir vikið talsvert félagslega einangraður. Oft er ástæðan sú að foreldrar hafa ekki tök á að vera með börnum sínum í tómstundunum og ekki er í boði nein liðveisla.

Núna um helgina er síðan Norðulandamót fatlaðra í sundi. Þar eru keppendur frá 7 löndum og mikið fjör. Emblan keppti í 50 m flugsundi í morgun og náði besta tíma sínum á þessu ári, sem er mjög gleðilegt því hún er búin að vera með bakvandamál síðan í lok sumars. Nú vantar bara eitt gott skref framávið því það vantar ennþá herslumuninn á að hún sé búin að ná tilskildu lágmarki til að komast á Ólympíuleika fatlaðra í Kína á næsta ári. Svo það var líka stoltur pabbi á sundmóti í dag - reynar vorum við nokkrir þarna stoltir pabbarnir og alltaf gott að vera í svoleiðis félagsskap.


Flutningar, afmæli og einsöngur

Það var í nógu að snúast um helgina á heimavígstöðvum. Tengdamóðir mín var að flytja úr "litla húsinu" sem er á bakhluta lóðarinnar - en hún er að koma sér fyrir í glæsilegri íbúð þar sem þjónusta og aðgengi er betra. Mér var skipað að halda mig til hlés í burðinum, því það er nóg af röskum mönnum og konum í fjölskyldunni sem sáu um þann hlutann. Stóð mína plikt í eldhúsinu í staðinn og eldaði flutnings og afmæliskvöldverð - því elsti drengurinn hann Unnar Steinn varð 24 ára á sunnudaginn. Eitthvað rúmlega tíu manns í mat, svo það þurfti talsvert af lambakjöti og helling af meðlæti í þetta. Hvítlauksmettað lambakjöt á fennelbeði skýrði ég uppskriftina, en það fóru tveir stórir hvítlaukar í réttinn! Má-kona mín hún Ásdís dokumenteraði þetta allt saman á myndasíðu sinni, þar sem eru góðar haustlitamyndir úr garðinum hjá okkur.

Ég varð sjálfur að rjúka frá borði rétt eftir að allir voru sestir, því síðast á dagskrá dagsins var æðruleysismessa þar sem Emblan söng einsöng. Ég hef aldrei farið í æðruleysismessu fyrr, svo það var útaf fyrir sig athyglisvert, þótt yngri dóttirin væri ekki sérlega imponeruð. En toppurinn var auðvitað að heyra Emblu engilinn syngja Angel sinn tregafullu röddu. Gott að fara í messu á þessum tíma - á eiginlega betur við mig að syngja á kvöldin en morgnana.


Bloggleysi í önnum doktorsnáms og starfa

Ég hef ekki litið inn á eign bloggsíðu í margar vikur - næstum búinn að gleyma henni - en sé að einhverjir hafa verið að kíkja í heimsókn. Ykkur bið ég bara afsökunar á þessu langa bloggleysi og ber við hefðbundnum haustönnum. Svo hef ég líka verið ögn að hugsa um "ritstjórnarstefnuna" á þessu bloggi ... er eiginlega ekki alveg viss um hver hún er. Var eiginlega búinn að ákveða að vera svolítið meira persónulegur en hér í upphafi og vera minna að viðra skoðanir mínar á mönnum og málefnum. Það er nóg af skoðunum í samfélaginu og fullt af fólki að halda þeim á lofti. En er samt eitthvað feiminn við að verða of persónulegur, því maður hefur samskipti við ansi marga í gegnum starfið og á þeim vígstöðvum vill maður halda ákveðinni fjarlægð. Svo það er hinn gullni meðalvegur í þessu eins og öðru; svo fjölskyldu og vinum lofa ég einhverjum fréttaskotum úr lífsbaráttunni en einnig gæti ég notað þennan vettvang til að orða einhverjar hugsanir og skoðanir sem spretta af því sem ég er að lesa og hugsa um þessar vikurnar.

Ein ástæða annanna er nefnilega sú að ég er á fullu í doktorsnámi þessa haustönn. Tek þrjá kúrsa til prófs og svo einn leskúrs sem ég vona einnig að ég nái að klára fyrir áramót. Þetta er allt tilkomið vegna þess að ég kem úr heimspekideild en ætla að taka doktorspróf í stjórmálafræði við félagsvísindadeild og því þurfti ég að uppfylla kröfur deildarinnar.  Lenti í því að tvö námskeið voru á sama tíma og lausnin var sú að ég tek annað námskeiðið í fjarnámi. Algjör snilld. Sat nú um helgina og hlutstaði á þá fyrirlestra sem ég hef ekki getað sótt og undirbjó próf sem verður í vikunni. Er eiginlega ennþá betra en að sitja fyrirlestrana sjálfa, því það er hægt að gera annað á meðan - t.d. að elda matinn - eða þá spóla til baka þegar kennarinn gerist sérstaklega spakur. HÍ var fyrir nokkrum dögum að semja um kaup á nýjum hugbúnaði vegna svona upptakna á fyrirlestrum sem á að gera þetta enn einfaldara og þægilegra og vonandi verður sem mest af fyrirlestrum gert aðgengilegt fyrir alla nemendur í framtíðinni. Ég hef engar áhyggjur af því að kennararnir verði óþarfir - þótt færri mæti í salinn til að hlusta á þá. Hlutverk þeirra mun breytast kannski, en um leið verða gagnvirkara og jafnvel meira gefandi fyrir þá sjálfa.

... sem sagt önnin leggst vel í mig, þetta verður bara stutt og snarpt og maður verður sjálfsagt feginn þegar törnin verður búin.


Opna Brezhnev-minningarmótið

Hópmynd vefur 2007Hið árlega Opna Brezhnev-minningarmót í golfi var haldið í níunda sinn um síðustu helgi. Þrjátíu og einn kylfingur lauk keppni - sumir með sóma en aðrir kannski síður. Afskaplega góð þátttaka. Ég sjálfur spilaði á 32 punktum sem ég var þokkalega sáttur við en dugði ekki fyrir vinningssæti. Fékk hins vegar Vellaun - eins og allir þátttakendur, því það er einn siður við þetta mót að allir mæta með Vellaun (já ... það má einungis starfsetja með þessum hætti) í lokuðum og vel merktum plastpoka. Að lokinni keppni er síðan dregið úr skorkortum og fá menn ekki eigin vellaun - að sjálfsgöðu. Ég var svo heppinn í ár að fá heila styttu, konu minni til lítillar hrifingar (enda nóg af styttum á heimilinu); þessi er af fagurri rúsneskri yngismey í herklæðum að hluta. Tengist sem sagt ekkert golfi, en það er líka allt í lagi.

Það eru öfugmæli að kalla mótið Opna Brezhnev mótið, því það er harðlæst. Einungis opið þeim sem fá boð og þeir einir fá boð sem stofnfélagar golfkúbbsins Skugga samþykkja - og alveg sérstaklega formaðurinn sem er afar einráður.  Enda ekki hverjum sem er treystandi til að taka þátt í móti þar sem ein af reglunum er sú að menn geta einu sinni á hverjum hring tekið upp boltan og hent honum eins lagt eða stutt og þá lystir án þess að það teljist högg. En um þessa hendingu gilda afar flóknar reglur.

Að móti loknu var síðan haldin móttaka heima hjá einum félaganum, sem er með hús í Hveragerði. Þar sem hann hefur nú haldið mótttöku tvö ár í röð er hann orðinn heiðursfélagi í golfklúbbnum. Hittist svo vel á að haldnir voru blómadagar í Hveragerði þar sem hápunkturinn er mikil flugeldasýning á laugardagskvöldinu og nutum við hennar eftir allt "erfiði" dagsins. Fóru svo sumir á ball en aðrir í koju og voru þeir síðarnefndu hressari en hinir morguninn eftir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband