Bloggfærslur mánaðarins, október 2007
Stoltur faðir
Laugardagur, 27. október 2007
Eldri dóttirin stendur í stórræðum þessa dagana. Í gær flutti hún lokaerindi á fjölmennri ráðstefnu um Tómstundir barna með sérþarfir, sem Æfingastöð Styrktarfélags lamaðara og fatlaðra stóð fyrir í Rúgbrauðsgerðinni. Þetta er fyrsti opinberi fyrirlesturinn sem hún flytur - með glærum og öllu saman - en örugglega ekki sá síðasti. Hún stóð sig afar vel og fékk salinn vel með sér og var vel fagnað í lokin. Auðvitað var pabbinn afar stoltur. Erindið hér "Af hverju skipta tómstundir máli?" og þar sagði Emblan frá söngnámi sínu, veru í Skólalúðrasveit Mosfellsbæjar og síðan sundinum sem hún hefur æft núna í 7 ár.
Ég sótti ekki nema síðasta hluta ráðstefnunnar, en þar voru m.a. kynntar ansi sláandi niðurstöður um félagslíf og tómstundastarf barna með sérþarfir; því miður er meirihluti þeirra ekki virkur í félags- og tómstundastarfi og er fyrir vikið talsvert félagslega einangraður. Oft er ástæðan sú að foreldrar hafa ekki tök á að vera með börnum sínum í tómstundunum og ekki er í boði nein liðveisla.
Núna um helgina er síðan Norðulandamót fatlaðra í sundi. Þar eru keppendur frá 7 löndum og mikið fjör. Emblan keppti í 50 m flugsundi í morgun og náði besta tíma sínum á þessu ári, sem er mjög gleðilegt því hún er búin að vera með bakvandamál síðan í lok sumars. Nú vantar bara eitt gott skref framávið því það vantar ennþá herslumuninn á að hún sé búin að ná tilskildu lágmarki til að komast á Ólympíuleika fatlaðra í Kína á næsta ári. Svo það var líka stoltur pabbi á sundmóti í dag - reynar vorum við nokkrir þarna stoltir pabbarnir og alltaf gott að vera í svoleiðis félagsskap.
Póstkort frá Feneyjum
Sunnudagur, 21. október 2007
Annir og internetleysi hafa komið í veg fyrir blog - en leið mín lá til Feneyja þar sem ég sótti haustfund félagsskapar þeirra sem fást við tækiyfirfærslu frá háskólum í Evrópu. Þetta er þriðja árið sem ég mæti og þegar farið að spyrja hvort ekki verði haldinn fundur á Íslandi. Vonandi árið 2010 svara ég - þegar risinn verður alvöru Vísindagarður á Íslandi.
Kom síðast til Feneyja fyrir aldarfjórðungi. Fátt hefur breyst - nema ég auðvitað og aðstæður mínar og afstaða. Tók þá viturlegu ákvörðun að gista á hóteli stutt frá Markúsartorginu, fremur en einu af ráðstefnuhótelunum upp á þurra landi. Fyrir vikið þurfti ég að labba mikið og enduruppgötvaði Feneyjar ... sem hafa þetta tímaleysi sem maður finnur á fáum stöðum. Hlustaði á fjárbæra strengjasveit flytja Árstíðirnar eftir Vivaldi og heimsótti safn sem er tileinkað þessum syni borgarinnar sem hlaut mjög takmarkaða upphefð í borginni í lifenda lífi - en heldur nafni hennar á lofti í dag.
Fór svo í langan göngutúr eftir morgunhljóðum götum borgarinnar á sunnudegi áður en ferðalag lífsins hélt áfram og kom við í íslenska sýningarskálnum - eins og ég held að sé yfirleitt sagt; en þetta er enginn skáli, heldur heilmikið hús þar sem unnið er að endurbótum en fyrsta hæðin er fyrir sýningu Steingríms Eyfjöðs. Sérstakt þema sem mér fannst rétt að lýsa í ljóði:
Tví ær ingur
Fann íslenska huldukind í Feneyjum
þar var jata, hey, vatn og salt
frá Vegagerðinni
komið um langan veg
Opið út að síkinu stóra
gestir geta komið bæði landleið og sjóleið
ég kom landleiðina fyrstur þennan sunnudagsmorgun
þegar ég heimsótti tvíæringinn
í fyrsta sinn
Huldu maður einn á ferð.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Póstkort frá Washington
Föstudagur, 5. október 2007
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fólksfjöldaflóra
Fimmtudagur, 4. október 2007
Ég gaf mig á tal rauðbirkin mann sem ég sá að starfar við Columbia háskóla, en við viljum rækta sambandið við þann skóla.. Ah frá Íslandi", sagði hann: Og hvar heldur Bobby Fisher sig?" Ég laug því að hann héngi á tilteknu kaffihúsi í Reykjavík. Og hefur þú teflt við hann þar?" Ég hélt nú ekki - bæði væri að Fisher er ekki mikið fyrir að tefla og svo hitt að ég er það ekki heldur. Hann var bæði vonsvikinn og jafnvel hálf hneykslaður á því að ég tefli ekki - hafði greinilega þá mynd af Íslandi að þar tefli allir.
Ungur maður sem starfar við háskólann í Virginu gaf sig á tal við mig þegar hann sá ég var íslenskur. Ég er Svíi" byrjaði hann og á fjarskylda frænku sem giftist íslenskum sauðfjárbóna. Hef ekki ennþá haft mig í að heimsækja hana - en lagar til þess." Ég spurði hann hvort hann væri amerískur ríkisborgari og svarið var athyglisvert: Ég er ekki viss um að ég vilji vera amerískur ríkisborgari." Þurfti ekki fleiri orð um það.
Hitti breta sem sagðist eiga nóg af peningum, það væri ekki hans vandamál, þegar ég hafði sagt honum að einn stærsti vandinn hjá okkur væri sá að það væri svo lítið fjármagn fyrir hugmyndastigið, áður en búið er að ganga úr skugga um hvort hægt er að stofna fyrirtæki. Þetta sem kallað er proof of concept stigið. Hann er með 30 mkr. í hvert svona verkefni - ef þeir samþykkja það. Bara einn galli á gjöf Njarðar. Þetta er í tæknigarði í Qatar og verkefnin verða að vinnast þar. Svo ef ég er með góða hugmynd og gott fólk sem vill vinna verkefnið í Qatar!
Borðaði hádegismat með tveimur ekki-ameríkönum sem eru samt búnir að vera hér lengi. Alger tilviljum; ég kom mér út með nestispakkann sem ráðstefnugestir fengu sér og tókst að troða mér við eitt af fáum borðum í garðinum: Meira en 25 stiga hiti og ekki annað hægt en að borða úti. Auðheyrt var að hann er frakki. Búinn að búa og vinna í USA í 30 ár en framburðurinn var óumdeilanlega franskur. Hún var frá Búlgaríu og hreimurinn harður þrátt fyrir 15 ára dvöl hér. Ég spurði hana hvort hún væri ekkert á leiðinni heim eftir allar þær breytingar sem þar eru orðnar. Nei varla hélt hún. Jú það væri mikið af tækifærum þar en hún væri búin að vera of lengi í burtu.
Brosandi bandarísk kona sagði mér að sonur hennar hefði verið á Íslandi nú í september í nokkra daga. Eintóm rigning, en hann var mjög hrifinn. Ég spjallaði líka við hana um pólitík því við urðum samferða spölkorn í neðanjarðarlestinni eftir fyrsta ráðstefnudaginn. Háskólamenn eru yfirleitt frjálslyndir -90% er áætlað - og þeir fylgja yfirleitt demókrötum að máli. Furðulegt að heil stór starfsstétt skuli verða svona pólitískt einsleit - en í Ameríku eru bara tvö grunn viðhorf : menn eru annað hvort frjálslyndir eða íhaldsmenn. Kannski er svolítið erfitt að vera vel menntaður, upplýstur og sannleiksleitandi og jafnframt íhaldsmaður - ég veit það ekki. En of mikil einsleitni í skoðunum er aldrei holl.
.... sem ég segi: Maður er aldrei í vandræðum með að hefja samræður við fólk hér í Ameríku þar sem allir hafa skoðanir og athylgisvert sjónarhorn á lífið.
Fangelsisfræði
Fimmtudagur, 4. október 2007
Stundum rekst maður á tölfræði sem gerir mann kjaftstopp. Þetta er úr Washington Post:
"An August 2003 Bureau of Justice Statistics analysis shows that 32 percent of black males born in 2001 can expect to spend time in prison. That is up from 13.4 percent in 1974. By contrast, 17.2 pecent of Hispanics and 5.9 percent of whites born in 2001 are likely to end up in prison."
Þetta er öllu meira sérkennilegt þegar ég segi frá því að tölurnar eru í dálki sem heitir "The Fact Checker" og þarna er verið að skamma tvo demókrata sem sækjast eftir útnefningu flokksins í forsetakosningunum fyrir að gera of mikið úr vandamálinu og fara rangt með staðreyndir. Sérstaklega var verið að skamma Obama fyrir að segja að það væri fleiri ungir svertingar í fangelsum heldur en framhalds- og háskólum. Það er rangt - það eru "bara" um 200.000 svertingjar á aldrinum 18-24 ára í fangelsi á meðan það eru um 530.000 í námi!
En ef að sú staðreynd að þriðji hver svartur strákur fæddur árið 2001 á von á að lenda í fangelsi er ekki til marks um verulegt vandamál, tja þá veit ég ekki hvað vandamál er.
Hernaðarfræði
Miðvikudagur, 3. október 2007
Flaug til Washington í gær og lenti við hliðina á Peter nokkrum, sem var að koma úr tveggja vikna fríi í Skotlandi með konunni. Peter þessi er hermaður en kominn á eftirlaun og við náðum vel saman í spjalli, því hann var í forsvari fyrir rannsóknardeild á vegum hersins í læknisfræði. Var búinn að vera lengi með vinnuaðstöðu hinum megin við götuna þar sem ég verð að funda næstu daga hjá National Institute of Health.
Það er svo gaman að tala við Ameríkana - þeir eru ekki málhaltir og hafa skoðanir á öllu. Og Peter var ekkert að skafa utanaf því þegar kom að bandaríska hernum. Þetta er peningasóun, alger peningasóun og kemur í veg fyrir að bandaríkjamenn geti sinnt þeim brýnu verkefnum sem þarf að sinna heimafyrir - og þar voru honum eðlilega heilbrigðismál hugleikin. Ég sýndi honum forsíðufrétt í einu íslensku blaðanna þar sem sagt er frá því að nú er í fyrsta sinn sérmerktur liður fyrir útgjöld til varnarmála. Ekki koma ykkur upp her - haldið ykkar striki og takið ykkur Svisslendinga til fyrirmyndar" sagði hann en var dálítið skemmt þegar ég sagði honum að þetta væru nú bara tæplega 10 milljón dollarar sem í þetta færu hjá okkur.
Og svo fórum við að tala um hernaðarfræði og afhverju bandaríska hernum gengi svona illa. Þarna var kall með þrjátíu ára reynslu sem sagði einfaldlega að herinn væri gagnslaus núna: Hann er ennþá miðaður við kalda stríðið og það er eins og menn hafi ekkert lært. Margir í Bandaríkjunum spyrja sig af hverju lærðum við ekkert á Vietnam?" Það er ekki hægt að sigra léttan og dreifan her sem svífst einskis og gerir leiftursóknir en hverfur svo jafnharðan aftur inn í skóginn eða fjallahlíðar. Þetta ættu bandaríkjamenn að vita betur en aðrar þjóðir því það var með þessu aðferðum sem þeir sigruðu breska herinn á sínum tíma. Þeir ættu því að vera sérfræðingar í þess háttar hernaði en eru það ekki. Þess í stað eru þeir hálf móðgaðir - eins og bretar voru forðum - þegar menn beita þessum aðferðum og kalla alla hryðjuverkamenn. Nei þetta er ekki að gera sig" sagði kallinn.
Niðurstaðan af samræðu okkar var þessi: Ameríkanar verða á endanum sigraðir með þeirra eigin aðferðafræði skæruhernaðar - óvinurinn, hver svo sem hann nú er, mun læðast aftan að þeim og koma frá hlið og menn munu ekkert skilja hvað gerðist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Flutningar, afmæli og einsöngur
Mánudagur, 1. október 2007
Það var í nógu að snúast um helgina á heimavígstöðvum. Tengdamóðir mín var að flytja úr "litla húsinu" sem er á bakhluta lóðarinnar - en hún er að koma sér fyrir í glæsilegri íbúð þar sem þjónusta og aðgengi er betra. Mér var skipað að halda mig til hlés í burðinum, því það er nóg af röskum mönnum og konum í fjölskyldunni sem sáu um þann hlutann. Stóð mína plikt í eldhúsinu í staðinn og eldaði flutnings og afmæliskvöldverð - því elsti drengurinn hann Unnar Steinn varð 24 ára á sunnudaginn. Eitthvað rúmlega tíu manns í mat, svo það þurfti talsvert af lambakjöti og helling af meðlæti í þetta. Hvítlauksmettað lambakjöt á fennelbeði skýrði ég uppskriftina, en það fóru tveir stórir hvítlaukar í réttinn! Má-kona mín hún Ásdís dokumenteraði þetta allt saman á myndasíðu sinni, þar sem eru góðar haustlitamyndir úr garðinum hjá okkur.
Ég varð sjálfur að rjúka frá borði rétt eftir að allir voru sestir, því síðast á dagskrá dagsins var æðruleysismessa þar sem Emblan söng einsöng. Ég hef aldrei farið í æðruleysismessu fyrr, svo það var útaf fyrir sig athyglisvert, þótt yngri dóttirin væri ekki sérlega imponeruð. En toppurinn var auðvitað að heyra Emblu engilinn syngja Angel sinn tregafullu röddu. Gott að fara í messu á þessum tíma - á eiginlega betur við mig að syngja á kvöldin en morgnana.